Formaður Sjálfstæðisflokksins telur að samkomulagið um Icesave jafngildi verstu mögulegri niðurstöðu. Í því samþykkja Íslendingar að greiða um 730 milljarða króna. Hann segir að enginn munur sé á samkomulaginu og því að tapa málinu fyrir dómi.
Svarið er: jú víst er munur, hann er um 520 milljarðar króna. Það eru annars vegar 350 milljarðar króna, sem Bretar og Hollendingar greiða sparifjáreigendum, umfram það sem Tryggingarsjóðurinn íslenski greiðir, og taka á sig samkvæmt samkomulaginu. Hins vegar eru það um 170 milljarðar króna sem sparifjáreigendurnir fá ekki bætt, hvorki frá Íslendingum né hinum þjóðunum. Staðreyndin er sú að Icesave skuld Landsbankans var alls um 1250 milljarðar króna.
Verði ekki samið munu dómsstólar fá málið til meðferðar. Þar verða gerðar ýtrustu kröfur á hendur Íslendingum. Þar verður þess krafist að allar innstæður allra aðila verði bættar að fullu, samtals um 1250 milljarðar króna. Krafan er í samræmi við það sem Íslendingar gerðu sjálfir, þeir tryggðu að fullu og öllu allar innstæður í innlendum útibúum bankanna, um 1400 milljarða króna.
Dómstólarnir þurfa að svara því hvort heimilt var að láta íslenska ríkið ábyrgjast sérvaldar innstæður í bönkunum en neita allri ábyrgð á hinum. Sannast sagna standa sterk rök til þess að íslenska ríkið tapi slíku máli og verði dæmt til þess að greiða , ekki bara lágmargstrygginguna 20.887 evrur heldur alla innstæðuna hjá hverjum og einum. Það er um 520 milljarða króna verri niðurstaða en samkomulagið felur í sér.
Rökin fyrir því eru þau að bannað er samkvæmt stjórnarskránni að mismuna eftir þjóðerni, viðurkennd hefur verið ábyrgð Tryggingarsjóðsins íslenska á Icesave innstæðunum og einnig að tilgangur tryggingarkerfisins er að veita tryggingu þegar á reynir. Tryggingarkerfi án tryggingar er útúrsnúningur og rökleysa.
Ennfremur vega þungt lögin um Evrópska efnahagssvæðið, en í þeim er kveðið á um ein lög á þessu sviði í öllum löndum efnahagssvæðisins og tryggð samræmd túlkun laganna með samspili EFTA dómstólsins og Evrópudómstólsins. Íslenskum dómstólum ber að huga að þessu við úrlausn mála. Það er óhugsandi að framkvæmd tilskipunar ESB um innstæðutryggingar verði með einum hætti á Íslandi og öðrum hætti í öðrum löndum.
Fyrir liggur að stjórnvöld í öllum löndum Evrópska efnahagssvæðisins túlka lögin þannig að bregðist innstæðutryggingarkerfið þá komi til ábyrgð ríkisins. Íslendingar eru einir um sína túlkun. Það eru skýr merki um að við gætum haft rangt fyrir okkur.
Hver vill taka 520 milljarða króna áhættu í þessari stöðu?
Athugasemdir