Frelsið varð til skaða

Pistlar
Share

Stundum verður frelsi eins öðrum til skaða. Það gerðist augljóslega í góðærinu, sem endaði með falli fjármálafyrirtækjanna hér á landi. Frelsi einstaklinga og fyrirtækja til þess að taka erlend lán á lágum vöxtum var nýtt sem aldrei fyrr. Enda kannski ekki skrýtið, með þessum hætti var hægt að lifa í tveimur heimum og velja það besta úr báðum. Hér innanlands gaf gríðarhátt gengi á íslensku krónunni mikinn kaupmátt og hann var aukinn enn frekar með því að taka að láni hræódýra erlenda peninga og breyta þeim í krónur. Í efnahagslega Undralandinu draup svo sannarlega smjör af hverju strái.

En íslenska Undralandið var byggt á sandi og skjótt kom að skuldadögum. Þá ruku erlendu skuldirnar upp í verði. Margir lántakendanna eru ekki lengur borgunarmenn fyrir skuldunum og skellurinn lendir á öðrum. Að nokkru leyti lendir hann á þeim sem veittu lánin og óhjákvæmilegt virðist að skuldirnar lendi að nokkru leyti á skattgreiðendum. Allar kröfur um lækkun höfuðstóls skuldar, leiðréttingu, niðurfærslu eða afskrift eru aðeins mismundandi heiti yfir það sama, aðrir verða að borga.

Hitt var verra að aðfengna ódýra lánsféð gróf undan stöðugleikanum á Íslandi og átti sinn þátt í að gengi krónunnar féll þegar að því kom. Innlenda lánsféð var haft dýrt til þess að halda aftur af þenslunni. Þess vegna var það óskiljanlegt hvers vegna engar skorður voru settar við frelsinu til erlendrar lántöku. Það má hverjum manni vera nú augljóst að frelsið er ekki ókeypis frekar en annað. En reikningurinn fyrir frelsið er sendur á hvert mannsbarn, fætt serm ófætt.

Ekki vil ég draga úr ábyrgð þeirra sem tóku lánin, en það mátti alveg setja reglur til þess að draga úr áhættunni. Í síðasta mánuði var forvitnileg grein í vikuritinu Economist einmitt um þetta málefni. Bent var á að sams konar þróun hefur orðið í ýmsum Evrópulöndum, heimili og fyrirtæki safna skuldum í annarri mynt en eigin af sömu ástæðu og hér á landi. Rakin eru dæmi frá Austurríki, Ungverjalandi, Póllandi, Lettlandi og Eistlandi. Staðan er skuggaleg sérstaklega í Ungverjalandi og Lettlandi.

En það sem er sérstaklega athyglisvert eru upplýsingar um lagasetningu eða áform um hana til þess að vernda heimilin fyrir áhrifum gengishrunsins. Í Austurríki voru settar reglur árið 2003 til þess að verja lántakendur fyrir mikilli gengissveiflu og sérstaklega er nefnt sem dæmi, að lánið færist sjálfkrafa yfir í mynt heimalandsins ef gengi lántökumyntarinnar fer yfir ákveðin mörk. Í Póllandi eru lán í svissneskum frönkum bundin vaxtastigi í Sviss. Þrátt fyrir fall pólska gjaldmiðilsins eru verst leiknu heimilin þó ekki að borga meira en 20% meira af veðlánum sínum. Í byrjun síðasta mánaðar tilkynntu stjórnvöld i Lettlandi að þau hygðust setja lög sem takmörkuðu ábyrgð skuldara á láni við verðmæti veðsins fyrir láninu. En þar hefur íbúðaverð fallið að undanförnu. Seðlabanki Ungverjalands hefur samkvæmt sömu grein í Economist lagt til að takmarka möguleika á veðsetningu í erlendri mynt.

Það er þá eftir allt hægt að setja frelsinu reglur. Það hefði komið sér vel bæði fyrir skuldara og skattgreiðendur ef íslensk stjórnvöld hefðu hugað að þessu, öllum almenningi til hagsbóta.

Af hverju var það ekki gert?

Athugasemdir