Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa þjóðinni kost á að kjósa fulltrúa á ráðgefandi stjórnlagaþing sem er ætlað að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Setja á lög um stjórnlagaþingið og í frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi er margt furðulegt að finna.
Forsætisráðherra setur þinginu fundasköp og aðrar starfsreglur og stjórnlagaþingið sjálft getur ekki breytt þeim. En það má náðarsamlegast fara fram á breytingar og afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur , forsætisráðherra, undirritað bænarskjal. Hún ræður því svo hvort nokkurt mark verður á því tekið. Þá undirbýr forsætisráðherrann þingið og þar með talið ráðningu starfsmanna. Stjórnlagaþingið getur ekki tekið ákvarðanir um útgjöld við þingið sjálft svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða sérfræðiráðgjafar nema í samráði við forsætisráðuneytið. Það þýðir í raun að samþykki ráðuneytisins er áskilið fyrir útgjöldunum.
Þjóðkjörnir fulltrúar geta ekki samkvæmt frumvarpinu skipulagt eigið þing og eru settir algerlega undir vald forsætisráðherra og embættismanna ráðuneytisins. Og svo eiga þeir að endurskoða stjórnarskrána og þar með talið stöðu framkvæmdavaldsins. Þvílíkt dómadags rugl. Það hefur greinilega ekkert breyst þrátt fyrir nýja ríkisstjórn.
Þau nýmæli eru í frumvarpinu að vikið er frá ákvörðun kjósenda ef kynjasamsetning þingfulltrúa nær ekki tilgreindu markmiði. Þarna er farið inn á þá varasömu braut að leiðrétta kjósendur og í raun breyta úrslitunum. Þegar það gerist að af 25 kjörnum fulltrúum eru færri en 40% af öðru hvoru kyninu þá skal bæta við fulltrúum en einungis af því kyni sem færra er þar til 40% hlutfallinu er náð. Það þýðir að tekið er upp lögbundið misvægi atkvæða við úthlutun fulltrúasæta umfram 25.
Verst er þó hvernig farið er með landsbyggðina í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að landið verði eitt kjördæmi. Það þýðir að nánast útilokað er að frambjóðandi utan höfuðborgarsvæðinu nái kjöri með stuðningi kjósenda af sínu landssvæði. Það er einmitt tilgangurinn með því að afnema kjördæmin að koma í veg fyrir að kosnir verða þingfulltrúar til þess að gæta sérstaklega að hagsmunum einstakra landssvæða utan höfuðborgarsvæðisins. Og það þýðir líka að frambjóðendur á höfuðborgarsvæðinu munu ná kosningu í langflest sætin, ekki bara 2/3 hluta þeirra heldur að öllum líkindum nánast öll. Þeir landsbyggðarmenn einir munu ná kjöri sem eru þóknanlegir kjósendum á höfuðborgarsvæðinu.
Það getur hver maður gert sér í hugarlund hvaða tillögur stjórnlagaþing höfuðborgarsvæðisins muni gera um breytingar á stjórnarskránni. Borgríkið Litla Ísland mun með formlegum hætti taka við af lýðveldinu. Svar landsbyggðarinnar við þessum áformum er það að halda sín eigin stjórnlagaþing og skrifa stjórnarskrá sem færir fólki um allt land lífvænlega framtíð.
Athugasemdir