Efnahagsvandi mikill steðjar að þjóðinni og fyrirtæki landsins eru mörg hver í miklum erfiðleikum. Það sýnir sig best í því hve mörg þeirra eru komin í þrot og þúsundir launamanna eru orðnir atvinnulausir. Síðustu tölur eru að um 17 þúsund manns séu án atvinnu.
Til þess að auðvelda atvinnufyrirtækjum að komast í gengum þetta skeið hafa samtök launafólks fallist á að fresta umsamdri launahækkun um óákveðinn tíma. Hækkunin var 13.500 kr. á mánuði og átti að verða 1. mars síðastliðinn. Hjá almennu launafólki er frestunin tilfinnanleg, mánaðarlaun þess geta orðið 154.500 kr. Það má segja að þeir gefi mikið eftir sem hafa af litlu að taka.
Eigendum eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins HB Granda hf. litu ekki svona á málin. Eftirgjöf kauphækkunarinnar lækkar útgjöld fyrirtækisins og það skapar frekara svigrúm til þess að greiða þeim arð. Hagnaður fyrirtækisins var þrátt fyrir allt ekki verri en svo, sem er fagnaðarefni, að hann varð 2,3 milljarðar króna á síðasta ári. Stjórn félagsins vill greiða eigendunum 184 milljónir króna í arð.
Þeir sem mikið eiga eru meira en tilbúnir til þess að taka í eigin vasa það sem launamennirnir með 154.500 kr. hafa gefið eftir til að styrkja fyrirtækið. Verkafólkið í landvinnslunni leggur fram tæpar 2 milljónir á mánuði til fyrirtækisins með fórn sinni. Það jafngildir um 24 milljónum króna á heilu ári.
En það eru fleiri sem hafa gefið fyrirtækinu eftir sína peninga. Ríkið gaf útgerðarfyrirtækjum landsins eftir tæplega 1.200 milljónir króna á tveggja ára tímabili, fiskveiðiárin 2007/8 og 2008/9, til þess að mæta niðurskurði á þorskveiðum úr 190 þús. tonnum í 130 þúsund tonn á ári. Það var í árlok 2007 sem lög um lækkun veiðigjalds var samþykkt. Veiðigjald er innheimt af þeim sem hafa kvóta ogrennur í ríkissjóð sem gjald fyrir afnot af eign þjóðarinnar, fiskistofnunum.
HB Grandi er með um 11% af heildarþorskígildum sjávarútvegsins á Íslands samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu fyirtækisins. Eftirgjöfin nemur um 25 milljónum króna af veiðigjaldinu fyrir þorskheimildirnar og ætla má að fyrir allar heimildirnar sé fyrirtækið að fá um 130 milljónir króna eftirgjöf úr ríkissjóði á tveimur árum.
Ef gert er ráð fyrir að eftirgjöf landverkafólksins á umsaminni kauphækkun vari í tvö ár þá eru það um 48 milljónir króna. Arðgreiðslan nú er nokkurn vegin sama fjárhæð og nemur samanlagðri eftirgjöf launafólks og ríkissjóðs. Þetta er ekki hægt að sætta sig við. Ætlar ríkisstjórnin að viðhalda ríkisstyrk sínum til sjávarútvegsfyrirtækja þegar svona er staðið að málum?
Athugasemdir