Í upphafi vikunnar lagði ég fram frumvarp um aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að mæta erfiðri stöðu sem margir einstaklingar eru að lenda í kjölfar fjármálakreppurnnar. Lagt er til að lánastofnanir gefi einstaklingum kost á að miða greiðslubyrði af lánum sínum við tekjur og settar takmarkanir á heimildir til að knýja þá í gjaldþrotaskipti eða að biðja um nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði.
Ljóst er að margir munu missa atvinnuna á næstu mánuðum eða starfshlutfall þeirra lækki. Það leiðir til lægri tekna. Á sama tíma mun verða veruleg verðbólga sem hækkar greiðslubyrðina af lánum einstaklinga. Afleiðingin verður fyrirsjáanlega að óbreyttu að vanskil muni aukast og í kjölfarið hefjast aðgerðir lánastofnana til þess að innheimta skuldir með því að ganga að veði þeirra sem getur endað með nauðungarsölu fasteignarinnar og jafnvel kröfu um að skuldarinn verði gerður gjaldþrota.
Þetta er ekki hægt að láta ganga fram og þess vegna er frumvarpið flutt. Sett eru ákvæði sem verja einstaklinga fyrir nauðungarsölu og gjaldþrotaskiptum meðan þetta ástand varir og býður lántakendum upp á að semja við lánastofnanir um greiðslu skuldanna á þann veg að unnt verði að standa við greiðslurnar. Það sem út af mun standa af greiðslum lánanna verður frestað í allt að eitt ár í senn.
Hægt verður að framlengja frestuninni ef aðstæður kalla á það þó ekki lengur en í 5 ár samtals. Frestaðar fjárhæðir verða færðar á sérstakan biðreikning með sömu kjörum og lánið sjálft ber og þegar aðstæður hafa batnað að nýju og greiðslufrestun lýkur verður þeim bætt við höfuðstól lánsins og lánstími lengdur sem því nemur.
Atvik sem leiða af þeim sérstöku aðstæðum sem eru nú á fjármálamarkaði og leiða til þess að ákvæði frumvarpsins eiga við eru m.a. lækkun tekna, minnkandi atvinna og hækkun lána umfram launaþróun og þau eitt eða fleiri leiði til þess að setja úr skorðum getu lántakandans til þess að vera í skilum. Ákvæði frumvarpsins eru til þess fallin að tryggja hag og öryggi fjölskyldna og ná til skulda, ekki bara húsnæðislána. Gert er ráð fyrir því að lánastofnanir mun eftir atvikum hafa með sér samstarf um það að koma málum lántakandans í það horf að hann eigi þess kost að standa við skuldbindingar sínar.
Frumvarpið er að meginhluta til byggt á frumvarpi sem ég flutti árið 1992 ásamt Svavari Gestssyni. Um greiðslufrest á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika. Það endurspeglar að fátt er nýtt undir sólunni, áður hafa gengið yfir tímabil þar sem margir lentu í greiðsluerfiðleikum og við þeim brugðist.
Ég tel víst að þótt erfðileikarnir nú séu líklega umfangsmeiri en áður hefur sést hér á landi a.m.k. síðustu tvo – þrjá áratugi að þeir muni ganga yfir á fáum árum. Þess vegna er talið nægilegt að gildistími laganna verði ekki meiri en 5 ár, en ef annað kemur á daginn verður nægur tími til þess að bregðast við og framlengja ákvæði frumvarpsins.
Þegar ég er að skrifa þennan pistil heyri ég í útvarpinu kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar um sama mál og fljótt á litið sýnist mér að svipuð leið hafi orðið fyrir valinu. Það kemur mér ekki svo mikið á óvart. Ríkisstjórninni er velkomið að nýta sér tillögurnar í frumvarpinu um tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
Athugasemdir