Snemma á næsta áratug

Pistlar
Share

Í vikunni haf birst í fjölmiðlum viðtal við Olla Rehn, sem ber þann starfstitil að vera framkvæmdastjóri stækkunarmála Evrópusambandsins, um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Aðspurður hvenær Íslendingar gætu verið orðnir aðilar að sambandinu, ef sótt yrði um á næstunni, svarar hann því til að það gæti orðið snemma á næsta áratug. Ríkisútvarpið hefur ályktað út frá svörum Rehn sem svo að aðild gæti orðið á næstu fjórum árum. Þar er tekið mið af því að Íslendingar gætu í besta falli fengið aðild á sama tíma og Króatía.

Olli Rehn bendir á að nauðsynlegt verði að breyta samþykktum Evrópusambandsins á þann veg sem ætlað var með Lissabon samkomulaginu, en Írar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en ný aðildarríki bætist við þau 27 ríki sem eru þar núna. Það verður meira en að segja það að fá breytingarnar samþykktar á næstunni, því Írar verða varla reiðubúnir til þess að kjósa aftur um felldar tillögur til þess eins að beygja sig undir vilja annarra ríkja. Einhverjar breytingar hljóta verða gerðar á Lissabon samningum til þess að mæta andstöðu Íra og svo þarf að fara með endurbættan samning fyrir öll 27 þjóðþingin. Allt tekur þetta tíma.

Lissabon samkomulagið er ætlað til þess að breyta grundvallarreglum um samstarf ríkjanna á þann veg að afnema neitunarvald hvers og eins fjölmörgum málaflokkum. Þær breytingar breyta sambandinu í átt til eins ríkið og mun veikja stöðu smærri ríkja en auka áhrif stóru ríkjanna. Í þessu ljósi verður næsta skref í Evrópuumræðunni að kynna og ræða Lissabon samninginn og gera landsmönnum ljóst hvernig Evrópusambandið verður að því samþykktu. Miðað við svör Rehn er útilokað að Íslendingar né aðrar þjóðir gangi inn í núverandi Evrópusamband og tilboð um aðild miðast þess vegna einungis við hið breytta Evrópusamband.

En það er fleira sem fram kemur í viðtölunum við framkvæmdarstjóra stækkunarmálanna. Í fyrsta lagi tekur hann skýrt fram að Íslendingar fái enga hraðmeðferð. Þar verði þeir á sömu vegferð og aðrir. Hins vegar njóti Íslendingar þess að í gegnum EES samninginn er búið að afgreiða töluvert af ESB reglunum og það stytti væntanlega viðræðuferlið. En samt orðaði hann svar sitt þannig að landið gæti verið roðinn meðlimur í ESB snemma á næsta áratug.

Í öðru lagi kom fram hjá honum að Íslendingar yrðu að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins og takmarkaðar heimildir væru til þess fyrir ESB að slaka til frá sameiginlegri stefnu. Sérstaklega tók hann fram að þetta gilti í sjávarútvegsmálum. Til væru leiðir til þess að auðvelda aðlögunina að ESB stefnunni en meginreglan væri að þjóð eins og Íslendingar skuli fara að almennum reglum.

Þessi viðtöl við Olla Rehn slá botninn úr viðtölum og fullyrðingum fjölmargra stjórnmálamanna og áhugamanna um aðild Íslands að ESB undanfarnar vikur þess efnis að Íslendingar geti fengið sérmeðferð nánast á öllum sviðum. Þeir geti fengið aðild á allt að 6 mánuðum og evruna jafnvel fyrr og samt samið sig frá stefnu Evrópusambandsins í einstökum málum. Allt þetta tal er nú afhjúpað sem skrum eitt. Það er engin sérmeðferð í boði hjá ESB og það sem er jafnvel enn mikilvægara að menn átti sig á, með ESB aðild fáum við ekki aðrar þjóðir til þess að leysa vandræði Íslendinga og greiða kostnaðinn af útrásinni. Þann vanda verða landsmenn að axla og leysa af eigin rammleik.

Umræða um ESB aðild lýtur aðeins að langri framtíð og mati á því hvort hagsmunum lands og þjóðar verði betur komið innan ESB en utan. Það eiga menn að taka fyrir og margt áhugavert viðfangsefnið sem þarf að brjóta til mergjar. En mál er að linni áróðurskenndri umfjöllum um óraunhæfar skammtímalausnir.

Athugasemdir