Vanefndir og fjárskortur eða ekki

Pistlar
Share

Á síðustu vikunum fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra vor þurfti ríkisstjórnin að hressa upp á fylgi sitt á Vestfjörðum og þá var í skyndingu búin til nefnd. Nefndin safnaði saman löngum lista af tillögum frá Vestfirðingum og hafði góð orð um að þeim yrði hrint í framkvæmd.

Nú þegar búið er að afgreiða fjáraukalög 2007 og fjárlög 2008 settust menn niður og tóku út efndirnar. Kom þá í ljós að minna var gert en til stóð, en lofað bót og betrun á næsta ári. Vestfjarðanefndarmaðurinn Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ tók saman skýrslu og lagði fyrir bæjarráðið. Þar segir að orðið hafi 18,8 störf á árinu 2007 en samkvæmt tillögunum áttu þau að verða 28. Skv. frétt á RÚV 23. janúar 2008 segist Halldór ekki vera fyllilega sáttur við frammistöðuna en hins vegar bjartsýnn á að störfin verði orðin 85 eins og til stóð í árslok 2009.Á bb-vefnum þann 29. janúar 2008 segir:“ Halldór segir í skýrslu sinni (til bæjarráðs) að Vestfjarðanefndin telji að það hafi fyrst og fremst skortur á fjárheimildum sem gerið það að verkum að markmiðin náðust ekki “

Atvinnumálanefnd Vesturbyggðar ályktaði um vanefndirnar og gagnrýndi þær. Af því tilefni spurði ég Geir Haarde forsætisráðherra í vikunni sem leið um efndir á tillögum Vestfjarðanefndirnar. Forsætisráðherra fullyrti að við þær yrði staðið. Þá liggur það fyrir sem yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að allar tillögurnar 37 í skýrslunni um samtals 85 störf verði komnar til framkvæmda fyrir árslok 2009. Því vil ég fagna svo sannarlega og varla þarf að anda ofan í hálsmálið á ráðherrum ríkisstjórnarinnar hér eftir. Þeir munu ótilkvaddir hrinda þeim öllum í framkvæmd.

En eitt vakti athygli mína í svari forsætisráðherra. Hann bar til baka að fjárskortur hefði staðið í veginum fyrir því að fullar efndir yrðu á síðasta ári. Það er líka í mótsögn við það sem ég hafði lesið á bb- vefnum og vitnað er til að ofan úr skýrslu bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar til bæjarráðsins. En þar segir bæjarstjórinn að Vestfjarðanefndin telji það hafa verið fyrst og fremst skortur á fjárheimildum sem hafi ráðið því að markmiðin náðust ekki.

En enn meiri athygli mína vekja svör bæjarstjórans á bb.is þann 7.mars þar sem hann segist vera sammála fosætisráðherra um að fjármagn hafi ekki skort til framkvæmda á tillögum nefndarinnar. Nú þykir mér stunginn tólkurinn eins og stundum er sagt fyrir vestan í svona tilvikum eða yes minister eins og þekkt er í Bretlandi.

Athugasemdir