Einar veit betur en Hafró

Pistlar
Share

Helstu rökin fyrir því að fara algerlega að tillögum Hafrannsóknarstofnunar um hámarksveiði í þorski á næsta fiskveiðiári eru þau að við höfum enga betri vitneskju, enga betri þekkingu og ekkert betra við að styðjast en ráð vísindamanna okkar á stofnuninni. Með þessum rökum ákveður ríkisstjórnin að standa einhuga að baki sjávarútvegsráðhera Einar Kristni Guðfinnssyni.

En þegar skoðuð er ákvörðun ráðherrans um hámarksveiði úr 17 einstökum stofnum kemur í ljós að hann fer að tillögu Hafró aðeins varðandi 5 tegundir en hafnar tillögum stofnunarinnar í 12 tegundum. Ráðherrann ákveður meiri kvóta í öllum þessum 12 tilvikum og telur aldrei ástæðu til að ákveða minni veiði en Hafró leggur til. Aukningin er minnst 5% og mest 200%. Heimiluð er þreföld veiði af sandkola og tvöföld veiði af skrápflúru en vísindamenn okkar leggja til. Heimiluð er 25% meiri veiði af ufsa , 13% meiri veiði af steinbít og 15% meira af íslenskri sumargotssíld er vísindamenn okkar ráðleggja.

Ráðherrann ákveður að leyfa veiðar á 1500 tonnum af sandkola, þegar vísiindamennirnir telja stofninn aðeins þola 500 tonna veiði. Hann leyfir 1000 tonn veiði af skrápflúru sem er 100% meira en Hafró leggur til. Ráðherrann fer 30% fram úr tillögum vísindamannanna í veiði á skarkola, 15.000 tonnum fram úr í veiðiá ufsa og í sjálfri síldinni, sem var eiginlega veidd upp á sínum tíma, hækkar ráðherrann kvótann um 20.000 tonn frá ráðleggingum Hafró og er enn ekki allt upptalið af afrekum ráðherrans sem blæs á tillögur vísindamannanna okkar, nema í þorski.

Þetta er athyglisvert. Hvaða þekkingu býr sjávarútvegsráðherrann yfir um ástand þessara 12 fiskistofna sem Hafrannsóknarstofnun hefur ekki? Hvaðan kemur sú þekking? Frá sjómönnum, öðrum fiskifræðingum en þeim sem starfa á Hafró eða er einhver innri rannsóknardeild í ráðuneytinu? Hvert sem svarið er þá er ljóst að við höfum betri vitneskju, betri þekkingu og betra við að styðjast en Hafró. Spurningin er þá hvort þeir vísu menn hafi verið spurðir um veiðar úr þorskstofninum?

Athugasemdir