Þorskstofninn betri en af er látið

Pistlar
Share

Hafrannsóknarstofnun og sjávarútvegsráðherra hafa keppst við að undanförnu að draga upp sem dekksta mynd af ástandi þorskstofnsins. Dregnir hafa verið út úr þeir þættir sem vissulega gefa ástæðu til þess að sýna aðgát en gert hefur verið lítið úr öðrum upplýsingum sem segja aðra sögu. Sérstaklega finnst mér aðfinnsluvert að látið hefur verið eins og að hrun þorskstofnsins sé á næstunni ef áfram verði stuðst við núverandi aflareglu og veiða árlega 25% af veiðistofni.

Léleg nýliðun síðustu 6 ár, lækkandi meðalþyngd og óhagstæð aldurssamsetning hrygningarstofnsins eru vísbendingar sem taka verður alvarlega, en fleira þarf að taka til skoðunar til þess að fá heildstæða mynd af stöðu þorskstofnsins og meta líklegustu þróun að óbreyttri veiði.

Hrygningarstofninn hefur stækkað verulega frá 1993, þegar hann varð hvað minnstur. Árið 2005 var hrygningarstofninn talinn vera um 230 þúsund tonn og hafði þá liðlega tvöfaldast frá 1993. Stofninn var 2005 með stærsta móti allt frá 1970. Árin 1971-3 var hann svipaður og heldur stærri 1979-81, en hin árin 30 var hrygningarstofninn minni.

Síðustu tvö árin hefur hann minnkað nokkuð og er metinn um 180 þúsund tonn þetta árið. Stofnvísitala stórþorsks er um 90% hærri 2006 en hún var 2001. Að mati Hafrannsóknarstofnunar er líklegast er hrygningarstofninn haldist óbreyttur að stærð næstu fjögur árin miðað við óbreytta 25% aflareglu.
Að svipaðri niðurstöðu kemst Alþjóðafiskveiðiráðið, ICES, sem telur reyndar að hrygningarstofninn muni vaxi lítillega frá 2007 til 2010. Svipaða sögu er að segja af viðmiðunarstofni þorsksins. Hann var í sögulegu lágmarki um miðjan síðasta áratug, en hefur vaxið síðan og er metinn 650 þús. tonn í upphafi árs 2007. Hafrannsóknarstofnun telur líklegast að viðmiðunarstofninn verði um 600 þús. tonn árið 2011, ef fylgt yrði óbreyttri aflareglu.

Samkvæmt þessum upplýsingum er staða þorskstofnsins nú er að mörgu leyti frekar góð í samanburði við það sem verið hefur síðan 1970.

Fleira þarf að skoða. Veiðihlutfall og veiðiálag gefa mikilvægar upplýsingar. Hvort tveggja hefur farið lækkandi síðustu ár. Veiðihlutfall 5-10 ára þorsks var 75% um aldamótin, en hefur lækkað í 60% á þessu ári og mun lækka í 50% fram til 2009 að mati ICES að óbreyttri aflareglu. Veiðiálag var um 40% um aldamótin og hefur lækkað niður í 30% nú og mun lækka enn frekar og verða 26% árið 2009 samkvæmt mati ICES. Hvort tveggja er mun gerast að óbreyttri aflareglu og stuðla áfram að sterkari þorskstofni.

Þá vil ég nefna að í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að afli á sóknareiningu óx lítilega árið 2006 frá fyrra ári og í botnvörpu og á línu hafi ekki orðið teljandi breytingar.

Loks verður ekki hjá því komist að benda á upplýsingar sem fram koma í skýrslu Hafrannsóknarsstofnunar um rækjustofninn. Allir rækjustofnar við landið standa illa og innfjarðarstofninarnir sérstaklega og hefur svo verið um nokkurra ára skeið. Ástæðan er mikil ýsu- og þorskgengd í öllum fjörðum. Það eru hinir "slöku árgangar" undanfarinna ára sem hafa étið upp rækjustofnana og mat stofnunarinnar er að léleg nýliðun rækjunnar og "mikil þorskgengd á rækjuslóð nú benda til þess að rækjustofninn muni minnka enn frekar á nælstu árum".
Það er merkilegt að lélegir þorskárgangar síðustu ára hafi gengið svo frá rækjustofnunum um allt land að þeir eru hvergi í veiðanlegu ástandi, þegar rækjan stóð af sér áratugum saman mun sterkari árganga af þorski.

Niðurstaða bæði ICES og Hafrannsóknarstofnunar er að næstu 4 ár verði nokkuð stöðugt ástand þorsksins að óbreyttri aflareglu varðandi hrygningar- og viðmiðunarstofn og að veiðiálag og veiðhlutfall muni halda áfram að lækka. Þetta mat stendur engan veginn undir því að hrun sé á næsta leiti eins og látið er í veðri vaka, og er þá ekki allt upptalið sem vísar til mun betra mats á þorskstofninum en Hafró telur vera.

En það er líka rétt að halda því til haga að niðurskurðarleiðin hefur verið farin áður. Um miðjan síðasta áratug voru þorskveiðar skornar mikið niður og voru 155 þús. tonn tvö fisveiðiár í röð. Í kjölfarið var kvótinn aukinn á 3 árum upp í 250 þús. tonn. En Adam var ekki lengi í Paradís, aukningin stóð ekki nema tvö ár og hrundi svo niður 180 þús. tonn á tveimur árum. Hafrannsóknarstofnun taldi sig hafa ofmetið stofninn og hafi ráðgjöf hennar því verið röng. Það gekk ekki að byggja stofninn upp í það sinnið, frekar en áður og það þarf frekar fífldirfsku en kjark til þess að ana að óathuguðu máli enn og aftur út í sama fenið.

Greinin birtist í Mbl. mánudaginn 23. júlí.

Athugasemdir