Fjölmiðlar eru oft skilgreindir sem fjórða valdið í þjóðfélaginu, til viðbótar við löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið. Þeir eru að minnsta kosti áhrifamiklir í þjóðmálaumræðunni og einmitt þess vegna er talið nauðsynlegt að setja löggjöf um fjölmiðla. Það er svo umdeilt hvernig sú löggjöf eigi að vera eins og menn þekkja frá deilunum um fjölmiðlalögin sem sett voru fyrir tveimur árum og síðan dregin til baka.
Ég minnist þess að fram kom fyrir nokkru og haft eftir starfsmanni Morgunblaðsins að ritstjóri þess blaðs hefði sjálfur stýrt allri umfjöllun um fjölmiðlamálið og olíusamráðsmálið. Hann hefði tekið alla þræði í sínar hendur og ráðið því hvað var birt og hvernig, og ekki hvað síst hafi hann ákveðið hvað var ekki birt. Áhrif fjórða valdsins felast bæði í því að segja fréttir og að þegja um fréttir. Þessar upplýsingar gera það að verkum að ekki er hægt að fullu að treysta fréttaflutningi blaðsins jafnvel þótt enginn efi sé um störf blaðamannanna sjálfra.
Svo má minna á afskipti ritstjóra Morgunblaðsins af Baugsmálinu sem fræg eru orðin ásamt framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og varaformanni bankaráðs Landsbankans og að auki lögmanni nokkrum sem nú er orðinn hæstaréttardómari. Tóku þremenningarnir að sér að vekja athyli ríkislögreglustjóra á klögumálum Sullenbergers. Það þarf ekki að minna á umfjöllum Morgunblaðsins í því máli svo viðamikil sem hún hefur verið. Nú síðast lopulangt viðtal við Sullenberger þar sem afstöðu blaðamannsins með dramatískum lýsingum er fléttað inn í textann. Það fer ekki á milli mála að ritstjóranum er fullljóst um áhrifamátt Morgunblaðsins.
Ég hef verið hugsi yfir umfjöllum Morgunblaðsins um Framsóknarflokkinn undanfarnar vikur. Hún hefur verið með þeim hætti að engu er líkara en að ætlunin sé að hafa áhrif á gang mála innan flokksins, sérstaklega að hafa áhrif á val á forystumönnum. Spurningin er þessi: Er um misnotkun að ræða þar sem menn innan flokksins eru að nota Morgunblaðið í sína þágu eða er ritstjóri blaðsins sjálfur að spinna þráðinn ? Ef seinni tilgátan er sú rétta vaknar önnur spurning: Hver er tilgangur ritstjórans?
Í Staksteinum í dag bregst ritstjórinn við framboði Sivjar Friðleifsdóttur til embættis formanns Framsóknarflokksins. Gert er frekar lítið úr hæfileikum Sivjar og fer ekki á milli mála hvern ritstjórinn vill fá í formannsstólinn. Kannski endurspegla þessi viðbrögð að einhverju leyti vantrú ritstjórans á konum, kannski lýsa þau hugarheimi manns sem um áratuga skeið hefur notað völd og áhrif starfsins til þess að deila og drottna í strákaheimi stjórnmálanna og er pirraður yfir stelpunni sem er að trufla plottið, hver veit.
Framsóknarflokkurinn stendur nú á mikilvægum tímamótum. Flokkurinn hefur verið í 11 ár í ríkisstjórn með Sjálfstæðsflokknum og er í miklum vanda eins og nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar leiddu vel í ljós. Málefnaáherslur og val á forystumönnum verður að vera með hagsmuni Framsóknarflokksins í huga og kjósenda hans og lýsa hefðbundinni stefnu flokksins. Hagsmunir Sjálfstæðisflokksins og vilji ritstjóra Morgunblaðsins eru ekki farsælt leiðarmerki framsóknarmanna.
Athugasemdir