Flokksstefnan er: flugvöllur í Vatnsmýrinni

Pistlar
Share

Það er tímabært að rifja upp samþykktir Framsóknarflokksins um Reykjavíkurflugvöll. Það gerir Anna Kristinsdóttir, borgarfulltrúi á heimasíðu sinni í dag. Á síðasta flokksþingi, fyrir rúmu ári, var samþykkt sérstök höfuðborgarstefna og þar segir um flugvöllinn:

"Miðstöð innanlandsflugsins verði áfram rekin í Reykjavík. Leitað skal leiða til að skipuleggja flugvallarsvæðið og næsta nágrenni þess þannig að landsvæði sem undir hann fer minnki og stuðli að eðlilegri byggðaþróun í Reykjavík. Með þessu móti er tryggt að haldið verið uppi öflugum og öruggum samgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins."

Þetta er alveg skýrt hverjum læsum manni. Flugvöllurinn skal vera áfram í Vatnsmýrinni, en leitað leiða til þess að minnka það landssvæði sem undir völlinn fer og auka land undir byggingar. Bent er sérstaklega á þá leið að athuga hvort ekki sé unnt að breyta skipulagi flugvallarins. Það er ekki ályktað um að flytja völlinn úr Vatnsmýrinni svo einfalt er það.

Vilji frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík aðra stefnu þá er eðlilegt að þeir taki málið upp innan flokksins og kanni stuðning við það að breyta stefnu flokksins. Það hefur ekki verið gert. Þeir geta svo sem boðað aðra stefnu fyrir borgarstjórnarkosningarnar, en verða þá að gera sér grein fyrir því að það er á þeirra ábyrgð og verða að una því að aðrir flokksmenn fylgi þeim ekki eftir og tali þá eftir sem áður í samræmi við samþykkta stefnu flokksins eða eigin hugmyndir um aðrar leiðir.

Það er ekki hreppapólitík að tala fyrir stefnu flokksins í innanlandsfluginu, við skulum hafa það á hreinu. Það má hugsa sér að taka til athugunar hina og þessa kosti en þá verður að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að meta þá. Þær hafa ekki komið fram ennþá og það er nokkurt bráðræði að ákveða niðurstöðu án þess að hafa lagt fram grundvallarupplýsingar. Ákvörðun án athugunar er ekki góð leið til stjórnunar.

Athugasemdir