Einkennilegir atburðir eru að gerast innan Framsóknarflokksins um þessar mundir. Þar ber á framgöngu sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.
Fyrst vil ég nefna framgöngu varaformanns SUF, Egils Arnar Sigurþórssonar. Hann kemur í Fréttablaðinu 20. febrúar sl. fram sem talsmaður hóps stúdenta við Háskólann á Akureyri og boðar sérstakt framboð til bæjarstjórnarinnar, gegn eigin flokki og finnst það greinilegt allt í lagi. Hann hefur þung orð í garð þingmanna Norðausturkjördæmis og bæjarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar fyrir slælega framgöngu þeirra í málefnum háskólans. Framsóknarflokkurinn er stærsti flokkur kjördæmisins með 4 þingmenn. Þar af eru tveir þeirra ráðherrar í ríkisstjórn undir forystu formanns flokksins. Þá eru bæjarfulltrúar flokksins í meirihluta í bæjarfélaginu.
Anna Kristinsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík segir frá átökum sem urðu fyrir fáum dögum á framhaldsaðalfundi kjördæmissambands framsóknarmanna í Reykjavík suður, á heimasíðu sinni annakr.is. Lýsir hún málsatvikum og segir svo: “Þetta eru vinnubrögð sem er ekki hægt að lifa við í lýðræðislegu félagsstarfi og það í stjórnmálaflokki.” Og lýkur frásögninni með þeim orðum að “lýðræðið er of dýrmætt til þess að horft sé án aðgerða þegar svona lagað gerist”. Það er langt gengið þegar þrautreyndur flokksmaður til margra áratuga lætur svona þung orð falla um það sem hefur gerst innan flokksins.
Anna sendi frásögnina til birtingar á vefsíðu framsóknarmanna í Reykjavík Hrifla.is, en nú brá svo við að nýr ritstjóri, Pétur Gunnarsson, neitaði borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um birtingu á greininni. Telur Anna Kristinsdóttir eftir samtal við nýja ritstjórann og segir frá því á heimasíðu sinni, að tekin hafi verið upp ritskoðun á því efni sem berst til birtingar.
Um þessar mundir eru 90 ár liðin síðan Alþýðusamband Íslands, Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru stofnuð. Af því tilefni skrifaði ég pistil hér á heimasíðunni og rakti þátt Jónasar frá Hriflu. Eins og menn vita var það hugmynd hans að flokkarinir tveir yrðu fulltrúar alþýðunnar, annar til sjávar og hinn til sveita. Varpaði ég fram spurningunni hvort Jónas hefði lagt til stofnun tveggja flokka, ef þessir atburður hefðu gerst nú.
Með því er ég að velta upp mönnum til umhugsunar stöðu Framsóknarflokksins um þessar mundir og kalla eftir skýrum svörum um framtíðarsýn.
Framsóknarflokkurinn er ekki lengur næststærsti flokkurinn. Samfylkingin hefur verið miklu stærri síðan hún kom fram 1999. Þetta er alveg ný staða í 90 ára sögu flokksins. Til þess að Framsóknarflokkurinn hafi sæmilega sterka stöðu á stjórnmálasviðinu þarf hann að geta myndað tveggja flokka stjórn með Samfylkingu eða Sjálfstæðisflokki. En þá þarf flokkurinn að vera um 20% flokkur. Það er hann ekki. Í síðustu kosningu fékk hann næstminnsta fylgi í sögu sinni. Í kosningunum 1999 var uppskeran þriðja minnsta fylgið.
Fylgið hefur jafnt og þétt minnkað síðustu árin. Fyrir átta árum, 1997, var það um 18% að meðaltali í mánaðarlegum könnunum Gallup. Fjórum árum síðar, 2001, var það um 14% og í fyrra, árið 2005, var það komið niður í 10% að meðaltali. Síðustu 10 mánuði hefur fylgið 5 sinnum fallið niður fyrir 10% og lægst niður í 8,5%. Mælingar sýna líka að tæplega helmingur þeirra sem kusu flokkinn í síðustu Alþingiskosningum ætla ekki kjósa flokkinn aftur. Þetta er alvarleg staða. Það verður að bregðast við annars fer illa. Það er öllum ljóst. Spurningin er hvernig? Hvaða skilaboð eru kjósendur flokksins að senda? Ég kalla eftir umræðu og tel ekki rétt að útiloka neitt fyrirfram þegar leitað er að lausnum.
Við þessu bregst stjórn SUF í vikunni með gífuryrtri ályktun og segir að ég vinni ekki í þágu Framsóknarflokksins. Í ályktun þeirra segir m.a. : “Stanslausar árásir þingmannsins á eigin flokksfélaga og málefnastarf eru fyrir margt löngu komnar út fyrir öll velsæmismörk og ekki verður sérstök eftirsjá af Kristni þó hann hverfi úr félagaskrá Framsóknarflokksins”.
Það hefur hingað til ekki verið talið mönnum til framdráttar að fljóta sofandi að feigðarósi. SUF verður að gefa sitt svar við spurningunni um hvernig eigi að bregðast við fyrirsjáanlegu fylgistapi og áhrifaleysi flokksins sem smáflokks. Hvaða ráð hafa stjórnarmenn SUF til þess að auka fylgi flokksins upp í 20%? Ætlar varaformaður SUF að hvetja til fleiri framboða gegn flokknum og auka fylgi hans þannig?
Viðbrögð stjórnar SUF einkennast af skoðanakúgun, það er ekki hægt að hafa önnur orð um ályktunina. Það má ekki setja fram skoðun og það má ekki ræða hana. Skoðun er skilreynd sem árás á flokkinn og málefnaleg umræða er kölluð árás á málefnastarf. Þá sem slíkt gera á að flæma úr flokknum. Það eru skilaboðin frá fulltrúum unga fólksins í flokknum. Þetta er hreinræktuð skoðanakúgun sem hingað til hefur ekki viðgengist í íslenskum stjórnmálaflokkum. Sannkallað austantjaldslýðræði. Málefnalegri umræðu er mætt með persónulegum árásum.
Athugasemdir