Milljarðamæringavæðingin er á fullu í þjóðfélaginu. Opinberar tölur staðfesta það, tekjublað Frjálsrar verslunar staðfestir það, hundruð milljóna króna eignamyndun með kaupréttarsamningum í fjármálaheiminum staðfestir það, og fund raising kvöldverður UNICEF, þar sem greiddar eru 20 milljónir króna fyrir ómálað málverk, staðfestir það.
Þessi þróun er sérstakt rannsóknarefni, hverjir eru að græða svona mikið og á hverju? Eðlilega hefur því verið haldið fram að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast. En þar er ekki allt sem sýnist. Þegar skoðaðar eru tölur um launatekjur og dreifingu þeirra tekna kemur í ljós að bilið hefur lítið breyst síðasta áratug.
Skoðum tölur. Samkvæmt skattframtölum 1994 og 2005 hefur hlutur 5% tekjuhæsta hópsins minnkað. Fyrir 11 árum hafði sá hópur 13,7% allra framtalinna launatekna, en í fyrra var hlutfallið komið niður í 13,0%. Sama gildir um 10% tekjuhæsta hópinn. Hlutur hans lækkaði úr 23,1% í 22,7%. Hlutur 20% tekjuhæsta hópsins var hins vegar nánast óbreyttur.
Á hinum endanum var sama þróun. Hlutur þeirra 5% framteljenda sem höfðu lægstar tekjur lækkaði úr 1,0% í 0,9%. Hlutur 10% tekjulægstu fór úr 2,7% í 2,5% og hlutur þeirra 20% tekjulægstu lækkaði úr 7,1% í 6,7%. Þetta sýnir að hlutur miðjunnar, 60% framteljandanna þarna á milli, jókst lítillega.
Að öllu samanlögðu er þetta óveruleg breyting á launadreifingunni. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að á þessum árum hefur kaupmáttur launa vaxið mikið, líklega meira en nokkru sinni fyrr á svona löngu samfelldu tímabili. Dreifingin á kaupmáttaraukningunni hefur þá verið jöfn eftir tekjuhópum. Ég hugsa að bæði stjórnvöld og verkalýðshreyfingin geti verið ánægð með þá frammistöðu.
En það eru fjármagnstekjurnar sem eru að skapa óðaauðgunina. Á þessum ellefu árum, frá 1993 til 2004 vaxa fjármagnstekjur úr 6,2 milljörðum króna upp í 74,6 milljarða kr. Þær tólffaldast á sama tíma og launatekjur vaxa um 2,5. Hækkun fjármagnsteknanna er 1100% og launateknanna 150%.
Dreifing fjármagnsteknanna er á allt annan veg en varðandi launin. Um 70% þeirra eða um 52 milljarðar króna féll í skaut 5% tekjuhæsta hópnum á síðasta ári. Það er mikið til handa aðeins um 11.000 manns. Það jafngildir um 4,7 milljónum króna á hvern þeirra í tekjur. Af þessum tekjum er aðeins greiddur 10%, en væri um launatekjur að ræða væri skattlagningin liðlega 35%.
Það er hægt að þrengja hópinn enn frekar. Samkvæmt svari fjármálaráðherra á síðasta þingi við fyrirspurn um fjármagnstekjuskatt má sjá að tekjuárið 2003 fengu 740 einstaklingar um 2/3 allra fjármagnstekna þess árs í sinn hlut. Samtals um 40,5 milljarða króna eða nærri 55 milljónir hver þeirra að meðaltali. Hvern andskotann á þetta að þýða?
Frekari athugun á talnaefni Ríkisskattstjóra leiðir í ljós að stærstur hluturinn af þessum óðafjármagnstekjum kemur frá sölu hlutabréfa. Það er um helmingur allra teknanna og á síðasta ári fékk 5% tekjuhæsti hópurinn um 84% af þeim peningum. Þá fer myndin að skýrast. Það er innan við 1000 manns sem fær meira en 1 milljón króna í fjármagnstekjur á hverju ári. Það er ekki vitað hvort það er sami 1000 manna hópurinn á hverju ári, né er vitað hvað milljón króna hópurinn er stór samtals síðustu 11 ár.
En það er samt morgunljóst að mjög fáir eru að hreppa miklar fjárhæðir og að þeir eru að greiða lítið til samfélagsins. Það má segja að þeir eru á sér afsláttarsamningi við ríkið. Þeir geta þá gefið svoldið í mæðrahjálpina, keypt hljómleika með Sinfóníunni fyrir íslenskan aðal og leigt þotur til útlanda undir sig og sína.
Þarna liggur helsti vandi íslenskra stjórnmálamanna. Þarna er helsti eldsmatur stjórnmála. Á þessu á að taka. Með því að auka skattlagninguna þannig að hún nálgist skattlagning á almennar launatekjur og nota þá peninga til þess að færa þeim sem lítið hafa. Í stað ríkisbubbadýrkunar á að koma ríkisbubbaábyrgð. Það er greiðslan fyrir tækifærið til þess að græða, svo ómengaðri markaðshugsuninni sé beitt.
Þetta ágæta fólk, sem sýnt hefur útsjónarsemi í gróðaöflun sinni og er í sjálfu sér hverju þjóðfélagi nauðsynlegt, á að þakka fyrir tækifærin sem þjóðfélagið færir þeim, með því að leggja fram sinn skerf í formi skattgreiðslna og vera hluti af þjóðfélaginu með okkur hinum. Við erum nefnilega samfélag en ekki sérfélag.
Athugasemdir