Útgerðarmenn í stríð við þjóðina.

Pistlar
Share

Nokkrir útgerðarmenn hafa verið með heitstrengingar um málshöfðun fyrir dómstólum til þess að fá viðurkenndan eignarrétt sinn á nýtingu fiskistofnanna við Ísland. Það eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Verðlag á veiðiheimildum, sem útgerðarmenn sjálfir hafa ákvarðað með viðskiptum sínum, er um þessar mundir þannig, að ætla má að heildarverðmætið gæti verið 400 – 500 milljarðar króna.

Málið var að auki tekið upp á nýafstöðu þingi LÍÚ og lögmaður fenginn til þess að stíga fram og játa eignarhald útgerðarmannanna. Ég verð að segja að ég hef séð vandaðri álitsgerðir og þessi er að mínu mati frekar safn hugleiðinga og fullyrðinga utan um fyrirframgefna skoðun.

Það er algerlega skautað framhjá aðalatriðinu. Meginreglan í lögunum um stjórn fiskveiða er að veiðar eru öllum frjálsar nema þær séu takmarkaðar til þess að vernda stofnana. Úthlutun veiðiheimilda er aðferð til þess að koma takmörkuninni á. Frelsið er meginreglan en ekki skömmtunin.

Það kemur skýrt fram í 7. grein laganna , en þar stendur að “veiðar á þeim tegundum sjávardýra, sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr., eru frjálsar öllum þeim skipum, sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni” og í 3. grein kemur fram að aðeins nauðsyn á að vernda stofninn heimilar takmörkun veiðanna með því að ákvarða heildarafla.

Segjum sem svo að innan fárra ára verði talið óþarft með öllu að takmarka veiðarnar í tiltekinn stofn, sem nú sætir takmörkunum, eða sem líklegra er, að talið verið nægjanlegt að takmarka veiðar með veiðileyfum og ekki talin þörf á að ákvarða heildarafla og þar með engin ástæða til þess að gefa út veiðiheimildir.

Þetta er til dæmis raunhæft um þessar mundir varðandi úthafsrækjuveiðar við Ísland þar sem sóknin er langtum minni en það sem veiða má. Annað dæmi varðar ýsustofninn, sem undanfarin ár hefur jafnt og þétt vaxið þrátt fyrir veiðar umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Að því hlýtur að koma að menn velti því fyrir sér hvort ekki eigi að hætta aflamarksstýringunni, ef stofninn heldur áfram að stækka.

Ætla menn þá að halda því fram í alvöru að Alþingi eða ráðherra væri óheimilt ákvarða slíkt? Já, það er nákvæmlega það sem haldið er fram. Að verðmætin í veiðiheimildunum sem liggja í skömmtuninni séu eign sem útgerðarmenn eigi og ekki megi fella niður. Þvílíkt della.

Þessu til viðbótar vil ég rifja upp ákvæði 1. greinar laganna um stjórn fiskveiða:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Meir þarf í raun ekki að segja um málið. En líklega hefur mönnum innan LÍÚ tekist að tryggja það að sjávarútvegsmálin, einkum stjórn fiskveiða, verður í brennidepli stjórnmálanna í næstu Alþingiskosningum, hvernig svo sem væntanleg málaferli fara. Það er bara í fínu lagi, enda löggjöf um fiskveiðistjórnunina verulega áfátt. Breytinga er þörf og ágætt að hópur af ríkustu útgerðarmönnum landsins hafi forgöngu um að knýja þær fram.

Athugasemdir