Græðgin hungur vekur

Pistlar
Share

Hlutabréfamarkaðurinn er fyrirbæri sem almenningur skilur æ minna í. Látlausar fréttir hafa verið um kaup og sölu bréfa í fyrirtækjum og ævintýralegan gróða á skömmum tíma. Ég er eiginlega á svipuðu róli, næ ekki sambandi við þetta svið atvinnulífsins, reyni af veikum mætti að skilja fréttirnar um að þessi hafi keypt í fyrirtæki A, sem eigi svo dálítið í fyrirtæki B, það á svo helling í fyrirtæki C, en það er stór eigandi í A og svo er einhvers staðar eignarhaldsfélag sem á allt bixið með dreifðri hlutafjáreign í G og H, sem keypt var með framvirkum samningi og óvirkum greiðslum. Það á því greinilega í harðri valdabaráttu við AB feðga sem eiga … og þarna missti ég þráðinn.

Hlutabréfamarkaðurinn er sem sé óljós og ógegnsær. Það er í andstöðu við tilgang markaðarins. Hann á að vera vettvangur þar sem kaup og sala fara fram eftir skýrum og ákveðnum reglum og hverjum manni má vera ljóst hver á hvað.
Á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í nóvember 2004 gerði forstjóri stofnunarinnar þetta að umtalsefni. Í frétt Mbl. þann 24. nóvember sama ár segir : "Eignatengsl á verðbréfamarkaði eru algengari hér á landi en víða annars staðar. Mikið skortir hins vegar á að tengslin séu skýr. Viðskiptabankarnir þrír leika stórt hlutverk í þeim eignatengslum sem skapast hafa".

Ennfremur kemur fram í greininni: "Fjármálaeftirlitið (FME) hefur áhyggjur af því að eignatengsl, sem víða er að finna meðal félaga á verðbréfamarkaði hér á landi, ekki hvað síst með aðild fjármálafyrirtækja, kunni að ráða nokkru um gengisþróun hlutabréfa. Á ársfundi FME í byrjun þessa mánaðar kom fram hjá Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra FME, að stofnunin telur að gagnkvæm eignatengsl á verðbréfamarkaði geti haft áhrif á gengisþróun félaga á víxl þannig að hætta sé á að í hækkun spinnist gengið upp langt umfram eðlilega verðþróun. Þá telur FME að einstakir lántakendur og viðskiptaaðilar fjármálafyrirtækja, eða samtengdir fyrirtækjahópar, myndi stórar áhættur í bókum fleiri en eins fjármálafyrirtækis. Í þessum efnum eru viðskiptabankarnir þrír og Straumur Fjárfestingarbanki umsvifamestir og því má ætla að varnaðarorð FME eigi helst við um þá".

Eignatengsl og þáttur bankanna er sem sé alvörumál og áhyggjuefni hjá sjálfu Fjármálaeftirlitinu. Mér létti þegar ég rakst á þessa gömlu frétt Morgunblaðsins, það er þá eðlilegt að utanaðkomandi eins og ég skilji lítið í hræringunum á hlutabréfamarkaðnum fyrst eftirlitsaðilinn hefur svo miklar áhyggjur af þessu öllu.

Þessu tengt kom upp í hugann nýlegt dæmi. Íslandsbanki keypti allt hlutafé í Sjóvá fyrir 19 mánuðum fyrir 19.4 milljarða króna og seldi svo 2/3 af því fyrir rúmum mánuði fyrir 17.5 milljarða króna. Hagnaðurinn varð því 4.6 milljarðar króna af bréfunum sem voru seld. Þá á eftir að gera ráð fyrir hagnaði af þeim þriðjungi bréfanna sem óseldur er. Ef söluverð á þeim hluta verður það sama verður hagnaðurinn 2.3 milljarðar króna og samtals 6.9 milljarðar króna. Til viðbótar fékk bankinn 3.5 milljarða króna í arð á þeim tíma sem hann átti allt hlutaféð.

Fenginn hagnaður og arður er samtals 8.1 milljarður króna á 18 mánuðum og von í frekari hagnaði upp á 2.3 milljarða króna. Heildarhagnaðurinn gæti því orðið 10 milljarðar króna fyrir 18 mánaða eignarhald á hlutabréfum í Sjóvá. Það er yfir 50% hagnaður. Verðhækkunin virðist mér tengjast að einhverju leyti valdabaráttu um Íslandsbanka sem aftur veldur hækkun á hlutabréfum bankans. En það er önnur saga sem tengist því sem Fjármálaeftirlitið var að benda á að gagnkvæm eignatengsl spinni upp gengi hlutabréfa.
Hver borgar? Jú, viðskiptavinir Sjóvár borga með iðgjöldum sínum af bílum o.s.frv. Þetta þýðir í mínum huga að samkeppnin er í skötulíki og eigendur tryggingafélaganna, sem bankarnir eiga að verulegu leyti, geta sent reikninginn fyrir eigin græðgi til neytendanna. Þeir hafa líklega ekki heyrt af hugtakinu samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Græðgin er óseðjandi.

Athugasemdir