Betri vegir – fyrr en seinna.

Greinar
Share

Í pistli mínum mun ég fjalla um samgöngur á Vestfjörðum. Það er sjálfgefið að taka þau mál fyrir í ljósi þess að síðastliðinn laugardag voru jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar tekin endanlega í notkun, Ég saknaði þess reyndar að kirkjunnar menn skyldu ekki vera fengnir til þess að vígja mannvirkið og leggja inn góð orð til almættisins fyrir vegfarendur og nefni til dæmis að biskup Íslands annaðist vígslu vegarins um Óshlíðina árið 1950. Ég vonast til þess að úr þessu verði bætt fyrr en seinna. Við Vestfirðingar erum að sjálfsögðu ákaflega glaðir yfir því að þessi langþráði draumur hafi ræst ekki síst þegar haft er í huga að fyrir fáum árum var fátt sem benti til þess að svo yrði. Það hefur ágætlega verið rifjað upp undanfarna daga, forsaga málsins og hverjir öðrum fremur lögðu þar gjörva hönd á plóg og verður ekki hér endurtekið það efni. Þó vil ég nefna úr hópi stjórnmálamanna tvo menn sem mér finnst að hafi að öðrum ólöstuðum úr þeim hópi rekið tryppin hvað ötullegast. Annar er félagið minn, Steingrímur J. Sigfússon, sem fékk framkvæmdum flýtt og rak smiðshöggið svo vel að ekki varð aftur snúið, þegar það var reynt og hinn er Matthías Bjarnason en hann var að mínu viti góður samgönguráðherra fyrir landsbyggðina og í ráðherratíð hans var málinu þokað vel áfram.

Jarðgöngin eru góður áfangi á langri leið samgöngubóta á Vestfjörðum og þau kalla á framhald. Annars vegar framhald til vesturs og tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða, hins vegar framhald inn Ísafjarðardjúp. Öflug rök hníga til þess að hefjast handa við að brjótast vestur enda þarf að tengja saman byggðirnar sem styrkjast við það og njóta stuðnings hver af annarri. Undirbúningur er hins vegar skammt á veg kominn og fátt vitað um valkosti og kostnað. Ég tel að hrinda eigi af stað athugun og vinna að því að ákvörðun um leið liggi fyrir sem fyrst. Sterk rök hníga einnig að uppbyggingu vegarins um Ísafjarðardjúp. Fyrst og fremst þau að vegurinn liggur fyrir. Vegurinn um Djúp opnaðist fyrir 20 árum og í framhaldi af því var lagður vegur yfir Steingrímsfjarðarheiði. Það er því aðeins eftir uppbygging vegarins. Það ber að athuga að 2/3 Vestfirðinga búa á norðanverðum Vestfjörðum og Djúpvegur gagnast flestum og það fyrr en aðrir valkostir. Ég hef því eindegið stutt ákvarðanir um að hraða uppbyggingu vegarins um Ísafjarðardjúp þar með talið samkomulag um að leggja af ferjusiglingar með bíla og hætta við að byggja enn eina ferjubryggju í Djúpinu. Það samkomulag hraðaði vegaframkvæmdum m.a. með því að færa fé til vegagerðar sem annars hefði farið í rekstur Fagranessins og að smíða ferjubryggjur.

Ég tel það hafa verið óheillaspor hjá samgönguráðherra að hverfa frá þessu samkomulagi, fyrir vikið seinkar vegabótum í Djúpinu og þær verða auk þess dýrari. Vinna átti á þessu ári vegarkafla í framhaldi af þeim sem byggður var í fyrra en hætt var við. Það verður ekki hvort tveggja gert að byggja veg og bryggju fyrir sama peninginn.

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður

Bæjarins besta 18. september 1996.

Athugasemdir