Um fiskveiðistjórnun.Kristinn H. Gunnarsson, efsti maður á lista Alþýðubandalagsins skrifar:

Greinar
Share

Fiskveiðistjórnunin skiptir máli fyrir okkur Vestfirðinga. Skekkjan í kvótakerfinu er það alvarleg að það getur aldrei orðið ásættanlegt stjórnkerfi. Ég er sannfærður um að kvótakerfið nýtur stuðnings aðeins lítils hluta þjóðarinnar og þá helst þeirra sem úthlutunarkerfi skömmtunarinnar hyglar. Í raun hefur kvótakerfið lafað á skorti á samstöðu um annan kost.

Það er í raun tvennt sem þarf að gera. Annars vegar að ná samstöðu um stjórnunarkerfi sem koma í stað kvótans og hins vegar að gera nauðsynlegar lagfæringar strax á kvótakerfinu sem ekki þola bið eftir nýju stjórnkerfi. Varðandi fyrra atriðið þá verða menn að gera sér ljóst að einhvern tíma tekur að móta hugmyndir og ná samstöðu um nýja fiskveiðistjórnun. Það þyrfti þó að gerast á næstu 1-2 árum og það tel ég raunhæft. Til þess að ná einhverri raunhæfri samstöðu þarf að vinna málið þverpólitískt og finna þau grundvallaratriði sem samstaðan á að byggjast á. Þau atriði eru augljóslega:
– Fiskimiðin verði sameign þjóðarinnar.
– Skorið á samband aflaheimilda og skipa.
– Gætt verði atvinnu hagsmuna byggðanna og þær njóti nálægðar við fiskimiðin.
Settar hafa verið fram hugmyndir sem uppfylla þessi atriði og virðast vænlegar til þess að um þær geti orðið víðtæk samstaða. Þar á ég við hugmyndir um aflagjald sem stjórntæki sem hafa verið kynntar bæi í Mbl. og Vestfirðingi. Við Alþýðubandalagsmenn tökum undir þessar hugmyndir og hvetjum Vestfirðinga til þess að kynna sér þær. Síðara atriðið eru þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera strax á kvótakerfinu. Þar er helst að tryggja hlut Vestfirðinga í aflaheimildum og verja menn fyrir frekari skerðingu en orðin er og að leiðrétta hlut þeirra sem verst hafa orðið úti. Þar eru nokkur atriðið sem ég vil nefna.

Fyrst: Tryggja þarf að Vestfirðingar hafi hlutdeild í steinbítsafla miðað við reynslu undanfarinna a.m.k. 10 ára og að sú hlutdeild verði svæðisbundin en ekki bundin við skip eða báta.
Annað: Allir bátar undir 10 tonnum sem eingöngu stunda handfæraveiðar verði settir á banndagakerfi og hlutur þeirra í heildarafla handfærabáta verði svæðisbundinn þannig að mikil fjölgun báta á síðustu árum verði ekki til þess að rýra möguleika á landssvæðum þar sem sú fjölgun hefur ekki átt sér stað. Bátar geti valið um það hvort þeir fari í þennan flokk eða haldi áfram sínu veiðimunstri, hafi þeir stundað bæði línu og handfæri.
Þriðja: Afnema þarf verksmiðjukvóta í rækjuveiðum og tengja sérveiðarnar með ákveðnari hætti við botnfiskveiðiréttindi þeirra báta þannig að þegar rækjuafli dregst saman eins og oft hefur gerst fáist bætur í botnfiski en á því hefur oft orðið misbrestur. Verksmiðjukvótinn er afar óeðlilegur og færir verksmiðjunum allt of sterka stöðu í samningum við seljendur sem verksmiðjueigendur hafa því miður nýtt sér um of. Þar teldi ég ráðlegast að taka fyrst um sinn upp svæðisbundinn kvóta sem þýðir að seljendur verða að selja rækjuna innan tiltekins svæðis. Með því er þó innleidd nokkur samkeppni milli verksmiðja sem er óhjákvæmileg. Má þar minnast að á yfirstandandi vertíð hefur verið betri afkoma í niðursuðu en frystingu og að afkastageta þeirrar verksmiðju sem sýður niður er mun meiri en kvóti hennar og engin vandkvæði á sölu. Það var þjóðhagslega hagkvæmt að beina meira af rækjunni þangað frá frystingunni sem rekin hefur verið með umtalsverðu tapi. En vegna verksmiðjukvótans gerðist það ekki.

Fleira væri ástæða til að nefna um nauðsynlegar lagfæringar á kvótakerfinu en ég læt hér staðar numið. Megin markmið ætti að vera öllum ljóst: Annað stjórnkerfi í fiskveiðum og lagfæringar á núverandi kerfið meðan það er við lýði.
Kristinn H. Gunnarsson

Bæjarins besta 10. apríl 1991

Athugasemdir