Nýjasta heilagsandahoppið.

Greinar
Share

Sameining sveitarfélaga er ekkert nýtt mál. Frá því að ný sveitarstjórnarlög tóku gildi fyrir sex árum hefur sveitarfélögum fækkað um 12% og það hefur gerst með sameiningu. Þá voru sveitarfélög í landinu alls 223 en eru nú 197. Þessi þróun er enn í gangi á grundvelli núverandi laga og að óbreyttu mun sveitarfélögum halda áfram að fækka. Mest hefur fækkunin orðið á Vestfjörðum, en þar eru nú 24 sveitarfélög og hefur fækkað um átta. Á Suðurlandi hefur fækkað um 5 sveitarfélög, fjögur á Norðurlandi eystra og Austurlandi hvoru um sig, þrjú á Norðurlandi vestra og tvö á Vesturlandi. Engin fækkun hefur hins vegar orðið í Reykjaneskjördæmi. Sameining sveitarfélaga er því engin ný uppfinning, í þeim efnum er löngu búið að finna upp hjólið.

Tilfærsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga og tekjustofnar með er heldur engin ný bóla. Fyrir tæpum þremur árum tóku gildi ný lög um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og einnig ný lög um tekjustofna sveitarfélaga.

Undirbúningur hefur staðið í nokkur ár í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sérstök verkaskiptinganefnd skilaði af sér álitsgerð 1980, önnur skilaði skýrslu 1983 og tvær nefndir skiluðu skýrslu 1987, þar sem voru beinar tillögur um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og úttekt á fjármálalegum áhrifum breytinganna. Í framhaldi af starfi síðastnefndu nefndanna voru áðurnefnd lög sett og eru þau í meginatriðum byggð á tillögunum frá 1987.

Verkefnaflutningur og breyting á tekjustofnum sveitarfélaga er því ekki heldur nein ný uppfinning, þvert á móti er nýlega búið að framkvæma slíka breytingu og menn eiga eftir að meta árangurinn af henni. Í skýrslu nefndar félagsmálaráðherra frá 1987, sem fjallaði um breytingar á verkefnum sveitarfélaga, er bent á að sveitarfélög hafi mikla reynslu af samvinnu og þar segir orðrétt:

„Sú samvinna hefur yfirleitt gengið vel þrátt fyrir mismunandi íbúafjöld og fámenni margra sveitarfélaga. Ekki verður því séð að fámenni sveitarfélaga sé Þrándu í Götu, að það komi í veg fyrir framkvæmd tilagna nefndarinnar.“

Þá segir í skýrslu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til XIV landsþings sem haldið var í september 1990 eða fyrir tveimur árum: „Um áramótin 1989 – 1990 voru gerðar víðtækar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til verulegs hagræðis í stjórnkerfinu. Í kjölfar þeirra breytinga öðluðust gildi ný lög um tekjustofna sveitarfélaga með ákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem að flestra dómi getur skipt sköpum um að gera minni sveitarfélögum fjárhagslega kleift að sjá íbúum sínum fyrir þeirri þjónustu, er samfélagshættir nútíma þjóðfélags krefjast. Með þeim árangri, sem náðst hefur í þessum efnum, hafa helstu baráttumál sambandsins fyrir hönd sveitarfélaga landsins komist í höfn.“

Það er hvorki meira né minna, breytingarnar gera sveitarfélögunum kleift að veita þá þjónustu sem krafist er í dag og öll helstu baráttumál sveitarfélaga hafa komist í höfn, og sveitarfélögin geta leyst úr verkefnum sínum með samvinnu. Með þessa forsögu málsins í huga er að mínu mati eðlilegt að efast um gildi þeirra fullyrðinga sem nú er slegið fram að stórfelldar sameiningar sveitarfélaga strax sé lífsspursmál fyrir landsbyggðina og forsenda frekari verkefnatilfærslu. Það vantar allan rökstuðning fyrir þeirri trúboðsherferð sem nú stendur yfir um sameiningu sveitarfélaga og í skýrslu sveitarfélaganefndar er vikið til hliðar ýmsum niðurstöðum sem samtök sveitarfélaga höfðu áður komist að og það nýlega.

Ég tek því með varúð við þessu nýjasta heilagsandahoppi félagsmálaráðherrans og tel nauðsynlegt að rökræða forsendur að tillögugerð nefndarinnar og beina umræðunni inn á annað spor. Það þarf fyrst að gera upp reynsluna af síðustu breytingum og fjalla um efnið út frá sjónarhorni, að leita að leiðum sem styrkja samfellda byggð um landið. Fyrsta skrefið er að endurskoða alla stjórnsýsluna, bæði ríkis og sveitarfélaga, markmið hennar og leiðir. Í þeirri umræðu er sameining sveitarfélaga ekkert tabú, en sameiningin verður að vera afleiðing öflugrar byggðastefnu en ekki forsenda.

Fyrsta skrefið til skaplegrar umræðu er að leggja til hliðar öll áform um lögþvingun og í þess stað að virða rétt íbúa hvers sveitarfélags til að ráða sinni framtíð. Til þess að ná því fram verður að slá af þau áform að keyra málið í gegn sveitarfélagamegin frá á tveimur mánuðum. Sá hraðakstur gerir ekkert annað en spð spilla fyrir málinu.

Kristinn H. Gunnarsson

Austurland 18. nóvember 1992.
Vestfirska fréttablaðið 26. nóvember 1992.
Dagur 25. nóvember 1992.

Athugasemdir