Í NÆSTU Alþingiskosningum verður kosið um sjávarútvegsstefnuna. Það er ekkert nýtt á Vestfjörðum, stjórn fiskveiða hefur verið aðalkosningamálið
í öllum Alþingiskosningum þar síðan kvótakerfið var innleitt fyrir 14 árum. Ekkert bólar á þjóðarsamstöðu um kvótakerfið þrátt fyrir stöðugan áróður
talsmanna kerfisins um ágæti þess og fullyrðingar um að kvótakerfið íslenska sé það besta í heiminum og hafi borið einstæðan árangur, heldur kraumar
stöðugt undir óánægja sem brýst fram af og til eins og eldgos. Raunar er vaxandi ókyrrð í þjóðfélaginu og háværar gagnrýnisraddir heyrast víða um
land.
Auðsöfnun fárra
Það sem langsamlega mesta óánægju vekur er möguleiki útgerðarmanna á að auðgast persónulega um risafjárhæðir með því að selja rétt sinn til veiða.
Það er einfaldlega almenn andstaða við þetta fyrirkomulag Þorsteins Pálssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Miklu nær væri að segja að almennur
stuðningur væri við að afnema þennan auðgunarmöguleika útvalinna. Veiðarnar eru skammtaðar til þess að vernda fiskistofnana og engin rök fyrir því
að árangur af takmörkun veiðanna eigi að lenda í vasa einstaklinga, þeirra sömu og er verið að halda aftur af svo þeir ofveiði ekki stofnana.
Útgerðarmennirnir hafa ekki unnið til þess að eiga þessi verðmæti. Eðlilegt er að þeir auðgist um afrakstur af útgerð sinni við það að veiða fisk og selja
hann, önnur auðsöfnun er óeðlileg.
Framsalið lækkar vinnulaun
Framsalið var tekið upp til þess að auðvelda útgerðarmönnum að gera út með því að gera þeim kleift að sérhæfa sig í veiðum. Það var aldrei meiningin
að með framsali væri hægt að vera útgerðarmaður án útgerðar og leigja veiðiheimildir sínar ár eftir ár eða það sem ekki er betra að ráða kvótalitlar
útgerðir til þess að veiða fiskinn fyrir fast verð og síðan selji kvótaeigandinn fiskinn sjálfur. Dæmi eru um að greiddar séu 4045 kr. fyrir veitt kg og
síðan selji kvótaeigandinn sama fiskinn á 100 krónur hvert kg og hirði mismuninn.
Með þessum hætti eru sjómenn hlunnfarnir um réttmætan hlut sinn af endanlegu fiskverði og hann færður til kvótaeigandans. Veiðirétturinn hefur fengið
verðmæti og vaxandi hluti af andvirði fisksins rennur til þess að greiða fyrir þau verðmæti og standa undir arðgreiðslum af þeim. Á móti minnkar hlutur
launafólks. Æ stærri hlutur fiskverðs rennur til fjármagnsins og æ minni hlutur til launafólks. Kvótakerfi með framsali færir peninga frá launafólki til
fjármagnseigendanna, sem eru útgerðarmennirnir og bankarnir.
Í Noregi er ekki leyft framsal, fiskverð er líklega hærra þar engu að síður og laun fiskvinnslufólks eru miklu hærri. Þar þarf ekki að greiða fyrir
veiðiréttinn, minna fer í fjármagnskostnað og meira til greiðslu launa. Menn eiga alltaf val, í Noregi hafa menn valið að greiða fólki hærri laun en á
Íslandi er valið að greiða fjármagninu hærri laun. Kvótakerfi með núverandi framsali er hreint arðrán á launafólki.
Milljónamæringafaraldurinn
Í kvótakerfinu er enginn öruggur um hagsmuni sína nema útgerðarmaðurinn. Hann getur selt kvótann hverjum sem er hvert á land sem er. Fólk í
sjávarþorpum býr við þá óvissu að hvenær sem er geti það orðið atvinnulaust og að húseignir þess falli í verði vegna þess að útgerðarmaðurinn
ákveður að selja kvótann. Í besta falli stendur því til boða að kaupa kvótann af útgerðarmanninum á því verði sem boðið hefur verið, ennþá. Í haust
fellur nefnilega úr gildi forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga. Þótt þau ákvæði séu ræfilsleg þótti þeim Þorsteini Pálssyni og Halldóri Ásgrímssyni þau
trufla frelsi útgerðarmannsins um of. Kostirnir eru þá að kaupa kvótann fyrir morðfjár eða missa atvinnuna og verða eignalaus. Verði fyrri kosturinn
valinn eru menn búnir að skuldsetja eignir sínar beint eða óbeint og ráðstafa hluta af tekjum sínum. Á síðustu mánuðum hefur hver útgerðarmaðurinn á
fætur öðrum ákveðið að selja útgerð sína, bát og veiðiheimildir. Þeir einfaldlega standast ekki freistinguna að verða milljónamæringar þegar það er í
boði. Græðgi handhafa kvótans hefur haldið innreið sína og breiðist eins og faraldur út um landið. Í hverju byggðarlaginu á fætur öðru á Vestfjörðum
er verið að selja veiðiheimildir fyrir hundruð milljóna. Er það furða að herðist á fólksflóttanum úr þessum sjávarbyggðum. Það getur enginn búið við
stöðugt óöryggi um afkomu sína og atvinnu. Óöryggið veldur því að menn velja að flytja suður ef færi gefst og hlýða þar með kalli stjórnvalda. Halldór
Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson eru með kvótastefnu sinni dag hvern að eggja fólk af landsbyggðinni til þess að taka sig upp og flytja suður.
Byggðastefna þeirra félaga er að færa útvöldum vinum sínum milljónir á milljónir ofan og fyrst og fremst á kostnað þeirra sem búa í sjávarplássunum.
Ekki er pláss fyrir sjómenn og fiskvinnslufólk í byggðastefnu Halldórs og Þorsteins. Kvótakerfið býr ekki til verðmæti, kvótakerfið færir til verðmæti.
Það sem einum er fært er öðrum ætlað að borga. Kvótakerfið er ekki lengur aðferð til þess að vernda fiskistofna, hafi það nokkurn tíma verið það,
heldur fjárhagsleg byrði á þorra íbúa á landsbyggðinni. Við þessar aðstæður er augljóst að enginn friður verður um sjávarútvegsmálin, það verður
höfuðmálið í næstu Alþingiskosningum. Reiðin sem sýður í fólki um land allt út af ranglæti og óöryggi kvótakerfisins er slík að ekki dugar að setja
pottlok yfir. Stjórnmálahreyfing, sem ætlar sér að boða áfram "besta kvótakerfi í heimi", ætti að velja sér aðra þjóð, eigi að vera von um góðan
árangur. Það þýðir ekki að bjóða fólki þetta arðrán lengur.
Athugasemdir