Fólkið og útgerðarmaðurinn Magnús

Greinar
Share

FYRIR nokkru birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús Kristinsson, útgerðarmann í Vestmannaeyjum þar sem hann lýsir skoðunum sínum á
lögunum sem sett voru í kjölfar Hæstaréttardómsins sem féll í desember á síðasta ári. Telur Magnús að þingmenn hafi notað jólafríið til þess að elda
jólagraut og framreitt hann á tveimur borðum, við annað borðið á kostnað þeirra sem sátu við hitt borðið. Með öðrum orðum að alþingismenn hafi
tekið kvóta af útgerðarmönnum í aflamarkskerfinu, sem í daglegu tali nefnist kvótakerfið,og fært útgerðarmönnum í krókakerfinu.

Samdráttur í krókaveiðum

Í lögunum felast nokkur atriði sem fyrst og fremst breyta rekstrarumhverfi smábáta og þrengja að útgerð þeirra. Stærstur hluti smábáta í krókakerfinu
rær skv. ákvæðum um þorskaflahámark. Hverjum bát er úthlutað ákveðnu magni af þorski sem veiða má en ótakmarkaðar eru veiðar í öðrum
fisktegundum. Þessu er breytt og verður kvótasett í ýsu, ufsa og steinbít auk þorsks og kemur það til framkvæmda 1. sept. árið 2000. Þessum
bátaflota er ekkert fært heldur af honum tekinn veiðiréttur. Hluti báta í krókakerfinu hefur róið samkvæmt svonefndu dagakerfi, þeim er heimilað að
veiða ákveðinn fjölda daga á ári hverju og fari heildarveiði þeirra umfram tiltekið magn fækkar dögunum sem þeir mega róa næsta ár. Þessum bátum
er úthlutað þetta ár og það næsta aðeins 23 dögum hvort ár, sem þýðir að veiði þeirra dregst saman um 1/3 frá veiði síðasta árs, úr 12000 tonnum af
þorski í 8000 tonn verði aflabrögð á úthaldsdag svipuð og í fyrra. Veiði þessa hluta smábátaflotans mun dragast verulega saman. Þar er þeim heldur
ekkert fært frá aflamarkskerfinu.

Einföldun og samræmdar leikreglur

Krókakerfið er einfaldað með nýju lögunum, það hefur skipst í 3 útgerðarflokka en þeim fækkar í tvo. Leikreglur verða samræmdar milli
aflamarkskerfisins og krókabátanna. Eftir að nýju lögin koma að fullu til framkvæmda lúta aflamarksbátar og meginþorri krókabáta sömu leikreglum
um veiðar, en nokkur togstreita hefur verið uppi vegna gerólíkrar stjórnunar. Það verða aðeins handfærabátar sem munu róa samkvæmt dagakerfi,
veiðar annarra báta er stjórnað með magntakmörkunum. Þá er loks gerð grundvallarbreyting á dagakerfinu, samkvæmt því verða aðeins stundaðar
handfæraveiðar frá 1. apríl til 30. september ár hvert. Dagakerfið hættir að vera fyrir heilsárs útgerðir og möguleiki á línuveiðum er felldur brott. Með
þessu er dagakerfinu mjög breytt frá því sem verið hefur undanfarin ár og sér hver maður að breytingarnar eru ekki dagabátum í hag. Enda hefur
óánægjan með breytingarnar fyrst og fremst komið úr röðum útgerðarmanna á dagabátum.

Kvótinn aukinn við Húnaflóa?

Dagabátunum innan krókakerfisins eru ætlaðar 600 lestir af þorski til mótvægis við samdrátt í veiðunum. Um þessi 600 tonn var samið milli
sjávarútvegsráðherra og landssambands smábátaeigenda og ég bendi Magnúsi á að snúa sér til sjávarútvegsráðherra vilji hann fá frekari upplýsingar
um þetta atriði. Þessi tilfærsla frá aflamarkskerfi til krókakerfis er um 0,2% af kvóta aflamarksbáta. En ekki er öll sagan sögð. Veiði krókabáta mun
minnka um 4000 tonn af þorski á ári, þar af er ráðstafað 1500 tonnum til byggðakvóta og þá eru eftir um 2500 tonn sem heildarveiðin mun minnka að
óbreyttu. Fáa þekki ég sem telja að nauðsynlegt sé um þessar mundir að minnka veiði á þorski og það er í höndum sjávarútvegsráðherra að auka
aflamarkið um þessi 2500 tonn. Geri ráðherra það þá fá aflamarksbátar fjórum sinnum meira í aukningu en nemur 600 tonna tilfærslunni til
dagabátanna. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er þeirrar skoðunar að eðlilegra væri að ráðstafa þessum kvóta til byggðarlaga sem eru nú í
sérstökum vanda vegna samdráttar í rækjuveiðum og bendi þar á byggðarlögin við Húnaflóa. Það myndi gerbreyta horfum þar í atvinnumálum, ef
bátar sem gerðir eru þaðan út fengju að veiða 2500 tonn af þorski í ár og ef til vill næsta ár einnig.

Fólkið og Magnúsarnir

Hinn vaski útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum er hins vegar á þeirri skoðun að hann hafi keypt kvótann og því eigi Húnvetningar og Strandamenn að
kaupa af honum réttinn til þess að veiða þorskinn í Húnaflóanum. Því er ég algerlega ósammála. Íbúar í byggðunum við Húnaflóa eiga að mínu mati
alltaf rétt til þess að nýta fiskimið í flóanum og þeir eiga líka meiri rétt til þess en aðrir landsmenn. Þann rétt öðlast þeir við það að búa við Húnaflóann.
Það er fráleitt að hafa kerfi sem færir útgerðarmönnum það í hendur að geta selt þennan rétt hvenær sem er, hvert sem er og skilið eftir íbúana
réttlausa, atvinnulausa og jafnvel eignalausa. Magnús Kristinsson segir að hann eigi kvótann og hafi keypt hann af öðrum útgerðarmanni, tekið til þess
lán og sé enn að borga af því. Gott og vel, en íbúarnir í byggðarlaginu sem kvótalaust er orðið vegna þess að útgerðarmaðurinn seldi hann burt eru líka
að borga af sínum lánum sem þeir tóku til þess að kaupa sér íbúð. Þeir hafa misst vinnuna og hafa því engar tekjur, eignin hefur fallið í verði og selst
sennilega ekki, en íbúarnir þurfa samt að borga af lánunum. Ætli þeir að fá vinnu aftur heima hjá sér þurfa þeir að kaupa kvóta af Magnúsi fyrir morð
fjár og það er borin von að nokkur útgerð geti borið sig með þeim mikla stofnkostnaði. Ísfirðingar eiga ekki peninga til þess að kaupa aftur
Guðbjörgina og kvótann hennar af akureyrskum Magnúsum. Bolvíkingar eiga ekki peninga til þess að kaupa aftur kvótann af Suðurnesjamagnúsum.
Barðstrendingar eiga ekki peninga til þess að kaupa aftur kvótann af Vestmannaeyjamagnúsum. Og hvað þá? Jú, þá skal fólkið flytja til Magnúsar. Og
víst er að fólkið flytur. Þetta er óásættanlegt kerfi og því verður að breyta. Kvótinn er fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir kvótann. Flóknara er það ekki.

Athugasemdir