ÚTGERÐARMAÐURINN Magnús Kristinsson í Vestmannaeyjum heldur því fram í blaðagrein nýlega að þingmenn bregðist óttaslegnir við kröfum
krókabátasjómanna í nýsettum lögum og flytji aflaheimildir frá aflamarksflotanum til sérvalinna krókabáta. Bendir Magnús á að landvinnslunni verði
ekki haldið gangandi með því að gera út smábáta og að daglegar þarfir landvinnslunnar virðist léttvægar í hugum þingmanna. Vissulega hefur það verið
svo á undanförnum árum að aflaheimildir hafa flust frá kvótakerfinu til krókabáta, líklega um 30 þúsund tonn af þorski. Ekki ætla ég að bera á móti því
né heldur að það hafi endilega verið svo slæmt, en umfjöllun um þá þróun verður að bíða þar til síðar. En hitt er ekki rétt að þessu sinni hafi verið um
tilflutning á aflaheimildum að ræða, það hef ég borið til baka í fyrri grein minni í Morgunblaðinu.
Smábátaveiðar af nauðsyn
Hitt er líka rétt að það dugar ekki að gera út smábáta í rysjóttri vetrartíð, landvinnslan þarf meira öryggi í öflun hráefnis. Það þekkja Vestfirðingar
betur en margir aðrir. En eitt er hvað þarf og annað hvað menn geta. Í öllum þorpum á Vestfjörðum hafa menn mátt horfa upp á það undanfarinn
áratug, sem fyrst og fremst hefur einkennst af niðurskurði í þorskveiðum og frjálsu framsali veiðiheimilda, að fyrirtæki sem voru máttarstólpar í
atvinnulífi fóru á hausinn eða neyddust til þess að selja skip og kvóta. Útgerð á þessu veðurharðasta svæði landsins hefur í vaxandi mæli farið ofan í
smábáta. Báta sem til skamms tíma voru settir upp á kamb á haustin og ekki hreyfðir fyrr en eftir páska. Það er ekki af því að Vestfirðingar vildu það,
heldur af því að þeir höfðu ekki efni á öðru. Til skamms tíma voru smábátaveiðar utan við kvótakerfið og þar þurfti ekki að kaupa veiðiheimildir. Þess
vegna gátu framtakssamir menn á Vestfjörðum hafið útgerð þótt félitlir væru. Þeir þurftu ekki að kaupa kvótann af Magnúsunum í kvótakerfinu. Árið
1997 veiddu smábátar tæplega helminginn af þeim þorski sem vestfirsk skip veiddu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr hlut aflamarksskipa eða
þýðingu þeirra fyrir vestfirskt atvinnulíf. En það er bara staðreynd að ef ekki hefði komið til stóraukin smábátaútgerð á síðustu árum hefði orðið algert
hrun á Vestfjörðum. Það er tómt mál að tala um að vestfirskar byggðir styrki sig á nýjan leik með þeim leikreglum sem nú gilda, með því að kaupa
kvótann á því verði sem Magnús vill selja. Það eru ekki viðskipti heldur nauðung. Það eru ekki viðskipti sem báðir aðilar hagnast á heldur arðrán
seljanda. Svo beygðir eru Vestfirðingar enn ekki orðnir að þeir telji rétt að borga skatt til Vestmannaeyja fyrir réttinn til að róa út í Eldingar.
Útgerðarmenn eiga að gera út á fiskveiðar en ekki arðrán. Þess vegna þarf að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Og það verður gert og tryggast
að það verði undir forystu Framsóknarflokksins.
Landvinnslan í Eyjum
En það var þetta með landvinnsluna sem Magnús ber svo fyrir brjósti. Daginn eftir að grein Magnúsar birtist í Morgunblaðinu mátti lesa á baksíðu
Mbl. að útgerðarfyrirtækið Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum hefði stefnt sjávarútvegsráðherra og krafist bóta fyrir skerðingu á aflaheimildum skipsins
Smáey VE. Fram kemur að aflaheimildir hafi verið skertar um 2700 tonn frá árinu 1985 vegna þess að útgerðarmaður skipsins ákvað að selja aflann
til útlanda, samtals um 13.000 tonn af fiski. Umrætt ákvæði í lögunum var sett til þess að beina afla íslenskra skipa til vinnslu innanlands. Með
hagsmuni landvinnslunnar í huga. Útgerðarmaðurinn segir í viðtali við Mbl. að þessi skerðing sé óþolandi mismunun. Mönnum sé mismunað eftir því
hver kaupi af þeim fiskinn. Útgerðarmaðurinn er greinilega á móti því að íslenskur fiskkaupandi fái fiskinn frekar en útlenskur. Hann er greinilega á móti
því að verkafólk hér á landi fái vinnu við fiskvinnslu frekar en verkafólk erlendis. Þessi útgerðarmaður heitir Magnús Kristinsson. Sami maður og
daginn áður skammaði þingmenn fyrir að grafa undan landvinnslunni með því að færa aflaheimildir frá aflamarksbátum til krókabáta.
Íbúaþróun á Vestfjörðum
Að lokum það sem Magnús segir um tilflutning á kvóta. Hann sé ekki orsök þess að fólki fækkar á Vestfjörðum, heldur fari íslenska vinnuaflið þótt
fiskurinn sé til staðar. Þessi staðhæfing er alveg fráleit. Fólksfækkun og undanhald í atvinnulífinu hefur farið saman og mun gera áfram. Fjölgun er líka
nátengd framförum í atvinnulífinu. Það er barnaskapur að halda að það að hafa kvóta tryggi bjarta framtíð, við vitum að það þarf fleira til. En
sjávarútvegur er algjör undirstaða atvinnulífs á Vestfjörðum og án veiðiheimilda geta Vestfirðir ekki náð sér á strik á nýjan leik. Framfarir þar verða að
byggjast á því að nýta þá auðlindina sem er við bæjardyrnar og er ástæða þess að fólk býr á Vestfjörðum, þá kemur annað á eftir. Verðið á
veiðiheimildunum er orðið svo hátt að engin leið er að reka útgerð og borga það sem upp er sett. Þess vegna eiga útgerðarstaðir sem misst hafa
kvótann sér ekki viðreisnar von í óbreyttu kerfi. Það er skynsamlegast fyrir útgerðarmennina að beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði áður en kerfið
springur framan í þá. Hollt er að hafa í huga máltækið að dramb er falli næst.
Athugasemdir