Smábátakerfi sem verði blandað aflamarks- og sóknarmarkskerfi

Greinar
Share

Á flokksþingi framsóknarmanna um síðustu helgi voru sjávarútvegsmál mjög í brennidepli. Það er að vonum, atvinngreinin er undirstaða atvinnulífs í fjölmörgum byggðarlögum landsins og þróunin undanfarin ár er umdeilanleg svo ekki sé meira sagt.
Gríðarleg samþjöppun er með tilheyrandi sameiningum fyrirtækja og flutningi veiðiheimilda milli staða, sum landsssvæði hafa tapað miklum veiðiheimildum og önnur bætt sína stöðu, mikil skuldasöfun síðustu ár og slök afkoma í greininni.
Að óbreyttum leikreglum virðist augljóst að sama þróun haldi áfram varðandi samþjöppunina með þeim afleiðingum sem því fylgir, líklegast er að Vestfirðir haldi áfram að tapa veiðiheimildum en svæði eins og Suðurnes, Vesturland og Akureyri bæti við sig. Skýrsla Haraldar L. Haraldssonar sem unnin var fyrir Byggðastofnun varpaði skýru ljósi á að framsalið hefur auðvitað haft áhrif á atvinnu manna í sjávarbyggðum landsins og ef til vill eru verstu áhrifin þau að grafa undan atvinnuöryggi og þar með trú fólks á framtíðina í þessum byggðarlögum. Óöryggið er að mínu viti mikill áhrifavaldur um byggðaþróun.
Umræðan á flokksþinginu var mest um ofangreind atriði, samþjöppunina, eignarhaldið á auðlindinni og atvinnumálin. Niðurstaðan var að mörgu leyti athyglisverð og boðar stefnubreytingu hjá Framsóknarflokknum.
Í fyrsta lagi verði eignarhaldið ótvírætt hjá þjóðinni og ákvæði þar um sett í stjórnarskrá. Í öðru lagi beri að greiða gjald fyrir afnot af auðlindinni. Í þriðja lagi eigi markmið nýrrar löggjafar að tryggja atvinnugrundvöll sjávarbyggða og jafnræði aðila í greininni og koma þannig í veg fyrir að stétt leiguliða myndist í henni.
Öll þessi þrjú atriði þýða að stefna Framsóknarflokksins er að taka verulegum breytingum.
Sem fyrr er flokkurinn á þeirr skoðun að byggja eigi á aflamarkskerfi en veruleg stefnubreyting er varðandi smábáta. Áður var það stefna flokksins að smábátar væru á aflamarki eins og aðrir en nú breyttust þær áherslur og í ályktun flokksins segir nú að "áfram verði byggt á tvískiptu kerfi, aflamarkskerfi annas vegar og hins vegar smábátakerfi sem verði blandað aflamarkskerfi og sóknarmarkskerfi". Skýrar getur það ekki verið gagnvart smábátum og fyrirhugaðri gildistöku laga um að kvótasetja allar tegundir hjá smábátum. Loks vil ég nefna að samþykkt var að auka byggðakvóta til að treysta grundvöll sjávarbyggða.
Það er mikil ónákvæmni hjá leiðarahöfundi BB að tillögur mínar hafi verið settar í salt, sjónarmið mín koma skýrt fram á samþykkt flokksþingsins eins og ég hef nefnt í 5 framangreindum atriðum. Hins vegar var sett í nefnd það verkefni að skoða hvaða leið væri best að fara til þess að uppfylla samþykkta stefnu flokksins og þar verður skoðuð fyrningarleiðin sem ég legg til ásamt mörgum fleirum svo og svonefnd veiðigjaldsleið sem líka var lögð til. Nefndinni er ætlað að skila af sér fyrir fund miðstjórnar næsta haust og þarf því að taka til óspilltra málanna þegar í stað. Þetta er ekki að setja mál í salt, heldur hið gagnstæða að ákveða stefnuna á flokksþinginu og gefa sér tíma til að finna bestu útfærsluna.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir