Eitt skref til vinstri

Greinar
Share

Fundarstjóri og góðir félagar.

Markaðsvæðingin hefur undanfarin tvö kjörtímabil verið stóra pólitíska málið í íslenskum stjórnmálum. Ég vil fjalla sérstaklega um hana enda ótvírætt umdeildasta málið um þessar mundir.

Unnið hefur verið að því að koma á samkeppni á sem flestum sviðum í þeirri trú að samkeppnin tryggi bæði góða þjónustu og gott verð fyrir almenning eða neytandann.
Og víst er að markaðsvæðingin hefur sína kosti en það er líka að verða jafnljóst að annmarkarnir eru nokkrir og því er full ástæða er til þess að staldra við og draga fram brestina sem eru að koma í ljós og finna ráð við þeim þannig að markmiðunum verði náð fyrir landsmenn alla. Við þurfum nefninlega að hafa það í huga að það býr ein þjóð í þessu landi og Framsóknarflokkurinn getur ekki og vill ekki standa að því að markaðsvæðingin skipti þjóðinni eftir búsetu eða efnahag í tvær þjóðir.

Helstu ókostir eru mikil og vaxandi samþjöppun, og að samkeppnin hefur víða breyst í fákeppni og jafnvel einokun. Við það hefur verð hækkað og þjónusta versnað , sérstaklega á þeim svæðum landsins sem eru ekki talin vera arðbær. Auk þess er auðsöfnun áberandi og mikil völd í krafti efnahagslegs afls. Allmörg dæmi eru almenningi sýnileg um græðgi og ófyrirleitni í viðskiptum sem menn hafa ekki átt að venjast og eru digrir starfslokasamningar gleggsta dæmið um það.

Í sjávarútvegiað sumu leyti svipuð þróun, samþjöppun er hröð og nú eru 10 stærstu fyrirtækin með um 45% af öllum veiðiheimildum, mörg dæmi um auðsöfnun og brottfall úr greininni þar sem menn flytja fé sitt úr landi og borga lágar fárhæðir í skatta. Hins vegar er í þeirri atvinnugrein helst forðast að byggja á leikreglum markaðarins í veigamilum atriðum.
Verðmætin liggja einkum í veiðiheimildunum og þeim er úthlutað ótímabundið nær endurgjaldslaust til fyrirfram útvalins hóps. Þeir sem ekki eru í hópnum verða að kaupa af hinum ef þeir ætla hasla sér völl í atvinnugreininni.

Þetta er sama fyrirkomulag og gilti til skamms tíma hjá apótekurunum. Ríkið úthlutaði leyfum og nýir apótekarar urðu að kaupa af einhverjum sem fyrir var og kaupa auk þess af honum eignir og rekstur. Nú vill enginn kannast við að hafa stutt slíkt fyrirkomulag sem minnir helst á einokunarverslun 18. aldarinnar. Lögmál samkeppninnar ættu að gilda í þessari atvinnugrein eins og öðrum og vera þjóðinni til góðs, þeir sem í greininni verða að standast samkeppni frá nýjum aðilum á hverjum tíma.
Ef þessum aðferðum yrði beitt í knattspyrnu svo dæmi sé tekið , segjum hjá Arsenal í Englandi, hefðu leikmennirnir sem voru hjá liðinu árið 1984 fengið úthlutað sæti í liðinu miðað við þann fjölda leikja sem þeir spiluðu á árunum 1980-83. Eftir það kemst síðar enginn leikmaður í liðið nema kaupa sætið í liðinu af einhverjum sem fékk það úthlutað. Frammistaða og geta leikmannsins skiptir engu máli. Finnst ykkur líklegt að Arsenal væri á toppnum í ensku deildinni í dag ef þetta kerfi væri við lýði ?

Á síðasta flokksþingi var samþykkt prýðileg ályktun um sjávarútvegsmál. Hún kvað á um að löggjöf yrði að tryggja atvinnugrundvöll sjávarbyggða og jafnræði aðila í greininni. Miðstjórn var falið að velja milli tveggja leiða sem uppi voru: fyrningarleið sem var kostur þeirra sem vildu breytingar á eignarhaldi veiðiheimilda og veiðigjaldsleið sem var kostur þeirra sem stóðu gegn breytingum. Sérstakur starfshópur skilaði af sér til miðstjórnar og skiptist í tvær jafnstórar fylkingar og ég er ekki í neinum vafa um að meirihluti flokksmanna sem starfaði í hópnum vildi breytingar. Niðurstaða miðstjórnar var hins vegar að velja þá leið sem útvegsmenn bentu á, veiðigjaldsleiðina. Ég studdi ekki þá niðurstöðu en geiddi henni atkvæði á Alþingi þar sem um miðurstöðu miðstjórnar og sátt við LÍÚ var að ræða.
Nú hefur LÍÚ sagt sig frá samkomulaginu og er þá málið opið að nýju. Veiðigjaldsleiðin leysir ekki þann ágreining sem eru í málinu og samþykkt síðasta flokksþings lýsir vel. Engin ásættanleg niðurstaða er komin í þessi miklu deilumál og verða þau því áfram ofarleg á baugi stjórnmálanna.

Áður en lengra verður haldið á sviði markaðsvæðingar og einkavæðingar ríkisstofnana verður að finna betri úrræði. Það verður að tryggja þjónustu utan helstu markaðssvæða og möguleika efnaminni til þjónustu. Það þýðir ekki að halda áfram að óbreyttu á þessari braut og ég er ekki í nokkrum vafa um að ýmislegt í framkvæmd markaðsvæðingarinnar er að gera okkur framsóknarmönnum erfitt fyrir.
Ítrekað hefur komið fram að verulegur meirihluti kjósanda flokksins eru andvígur því að selja Landssímann og á síðastliðnu hausti voru mun fleiri kjósendur okkar andvígir sölu ríkisbankanna en þeir sem studdu hana skv. skoðanakönnun Gallups. Ef kjósendur okkar sjá ekki ávinning í breytingunum hví eigum við þá að knýja þær fram ? Það sem kjósendur sjá er milljarða kr. hagnaður hvers banka og áfram háa vexti.

Það sem að mínu mati þarf að gera er að setja löggjöf gegn samþjöppun og hringamyndun. Kljúfa verður upp stór fyrirtæki og banna verður aðila að vera áhrifamikill í mörgum atvinnugreinum. Þá verður auk þess að tryggja þjónustu utan helstu samkeppnissvæða, svo sem með uppbyggingu fjarskiptanets, jöfnun kostnaðar og stuðningi við skilgreinda þjónustu.

Verum þess meðvituð að markaðsvæðingunni er ekki lokið. Þegar er komnar fram hugmyndir um einkavæðingu opinberra sjóða eins og L’IN og Íbúðalánasjóð. Útlán Íbúðalánasjóðs eru svipuð og Íslandsbanka. Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs er um 1 milljarður kr. en tífalt hærri hjá Íslandsbanka. Hver á að borga muninn ? lántakendur eða skattgreiðendur ? Halda menn að kostnaður lækki við einkavæðingu lánasjóðsins ?
Fyrir stjórnarflokkunum liggur frumvarp Samgönguráðherra um það að koma á samkeppni milli hafna meða því að taka upp þá meginstefnu að fella niður ríkisstuðning við hafnarframkvæmdir, þó eru afmarkaðar undantekningar. Því yrði mætt með hækkun gjaldtöku á útgerðir. Markmið frv. er einfalt að draga úr kostnaði í heild og það gerist ekki nema með fækkun hafna. Erum við tilbúin til þess að ákveða það á næstu vikum ?
Þá er er hafin sú þróun að sveitarfélög selji bönkum eignir sínar og leigi aftur til langs tíma. Afleiðingin er meiri kostnaður til lengri tíma, sem nemur fjármagnskostnaði,sem leggst á skattgreiðendur eða notendur þjónustunnar. Þessi þróun mun að óbreyttu ryðja sér rúms hjá ríkinu líka. Finnst mönnum aðlaðandi að selja húsnæði Landsspítalans til Íslandsbanka og leigja aftur til langs tíma fyrir morð fjár?
þessi álitaefni eru framundan og verður tekist á um á næsta kjörtímabili og við verðum að svara því hver er okkar vilji í þessum efnum.

Lausnir okkar eiga að grundvallast á samvinnu og jöfnuði. Það verður gert með því að horfa til almannahagsmuna og láta þá vera í fyrirrúmi.
Við framsóknarmenn verður að sýna í verki þær félagslegu áherslur í stefnu flokksins sem aðgreina hann frá Sjálfstæðisflokknum.

Skv. könnunum erum við að missa fylgi til stjórnarandstöðuflokkanna. Það eru skýr skilaboð til okkar um að stíga út úr skugga núverandi samstarfsflokks og tala ákveðið fyrir okkar sjónarmiðum.
Núverandi stjórnarsamstarf hefur að mörgu leyti gengið vel en fráleitt er sjálfgefið að framlengja það. Við eigum að stefna að því að leiða næstu ríkisstjórn þannig að félagslegar áherslur flokksins komi skýrar fram en verið hefur. það á að vera svar okkar við þeim skilaboðum sem ég nefndi.
Í komandi kosningabaráttu skulum við stíga dansspor gömlu Framsóknar, eitt skref áfram og annað til vinstri.

Athugasemdir