Góðar félagar.
Við framsóknarmenn erum nú að undirbúa okkur fyrir komandi Alþingiskosningar. Það hefur um margt tekist vel til undanfarin ár. Tekist hefur að varðveita efnahagslegan stöðugleika sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði forystu um að koma á fyrir rúmum áratug í góðri samvinnu við ASÍ og VSÍ . Lág verðbólga og stöðugleiki er alger forsenda þess að ná árangri í atvinnumálum og því að bæta lífskjör almennings.
Þegar Framsóknarflokkurinn kom að stjórn landsmála að nýju fyrir tæpum átta árum ríkti stöðnun í atvinnulífinu með umtalsverðu atvinnuleysi. Þetta hefur gjörbreyst. Atvinnustig er hátt og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið um liðlega 30%. Almenn lífskjör eru betri en nokkru sinni hefur verið á Íslandi. Þetta er árangur sem við getur verið stolt af og eigum að leggja áherslu á.
Markaðsvæðing með samkeppni að leiðarljósi hefur að mörgu leyti tekist vel og stendur undir bættum lífskjörum. Einkavæðing á rétt á sér á sumum sviðum en ekki alls staðar. Ég tel að fara eigi gætilega og forsenda einkavæðingar er að öflug samkeppni sé til staðar. Að öðrum kosti er verið að veita einkaaðilum aðgang að vasa almennings þar sem þeir geta ráðið verði og þjónustu. Ekki er rétt að selja Símann við núverandi aðstæður og einkavæðing á ekkert erindi í heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið. Standa á vörð um Ríkisútvarpið og andæfa gegn samþjöppun í fjölmiðlaheiminum.
Því fer fjarri að öll vandamál hafi verið leyst og þróunin hefur að sumu leyti verið til verri vegar. Fákeppni og jafnvel einokun er mikið áhyggjuefni og er farin að einkenna margar atvinnugreinar og vaxtakostnaðurinn er mun hærri en eðlilegt getur talist. Samþjöppunin getur verið varasöm eins og sjá má í sjárvarútvegi. Það verður verkefni stjórnmálamanna á næstunni að bregðast við og endurskoða leikreglurnar í viðskiptalífinu til þess að tryggja hagsmuni neytenda og almennings.
Upplýsingar eru um vaxandi ójöfnuð í þjóðfélaginu og skýrar merki um fátækt birtast okkur. Meðal aldraðara og öryrkja eru greinilega hópar sem búa við slæm kjör. Þetta er óþolandi og ólíðandi og félagshyggjuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn hlýtur að bregðast mjög hart við. Ég vil beita mér í því að svo verði.
Ég hef líka áhyggjur af því hugafari sem mér finnst oft skína í gegn hjá þeim sem hafa átt velgengni að fagna. Græðgi, óbilgirni og jafnvel óskammfeilni er orðin sýnileg í íslensku þjóðfélagi. Þessu þarf sterklega að taka á móti. Enginn getur litið svo á að hann sé stikkfrír og að honum sé heimilt að neyta allra bragða til þess að skara eld að eigin köku. Hver maður er þátttakandi í þjóðfélaginu og ber ábyrgð á því. Það er skylda hvers manns að leggja sitt til samfélagsins með störfum sínum og sköttum.
Við eigum mikið undir viðskiptum við útlönd. Lífskjör á Íslandi ráðast að mestu af aðgangi að mörkuðum erlendis fyrir okkar vörur. Þess vegna gerðust íslendingar aðilar að EFTA og síðar að Evrópska efnahagssvæðinu. Nú er spurt er nauðsynlegt að ganga í ESB ? Mitt svar er skýrt og hefur legið fyrir opinberlega síðan í sumar. Aðild mun að mínu viti geta leitt til lakari lífskjara þar sem ekki er tryggt að tekjur af sjávarútvegi munu halda áfram að renna inn í okkar hagkerfi. Þá er ljóst að aðild mun einnig hafa alvarleg áhrif á landbúnað. Ég er andvígur aðild með þessum rökum og því að framsal á fullveldi úr landi er í of ríkum mæli.
Hins vegar er rétt og skylt að meta áhrif aðildar þannig að við vitum hver áhrifin verða, hverjir kostirnir eru taldir vera og gallarnir.
‘A næsta kjörtímabili eigum við að sækja fram. Við eigum að beita okkur fyrir jöfnun búsetuskilyrða um landið.
Jafna kostnað við atvinnusókn og aðgang að námi,
jafna þjónustu með uppbyggingu fjarskiptakerfa um landið
jafna kostnað við flutning á vörum og þjónustu og
jafna möguleika fólks til til þess að fá fjölbreytta atvinnu.
Okkur er það lífsnauðsyn að ná árangri að þessu leyti til þess að fá unga fólkið til að lifa og starfa á landsbyggðinni. Það kemur með kraftinn og atorkuna til frekari framfara í héraði.
Til þess að ná árangri í þessu þarf vilja. Það vitum við. Það er okkar að koma með viljann og sigrast á undanflæmingi og úrtöluröddum. Til þess þarf að vera fylginn sér, ákveðinn og einarður. Það næst enginn árangur með því að setja upp pólitískan lognhatt. Lognið hefur aldrei fært hluti úr stað.
Það er verkefni okkar nú að velja forystu fyrir listann. Byggðaþróun er á mörgum svæðum í vörn og því er okkur lífsnauðsyn að velja samstillta og kröftuga forystumenn. Pólitískur vilji skiptir máli og árangurinn er best sjáanlegur á þeim umskiptum sem hafa orðið á fáum árum í atvinnumálum á Akranesi.
Ég býð fram krafta mína og sækist eftir því að leiða forystusveit flokksins í kjördæminu. Í undanförnum fernum alþingiskosningum hef ég leitt framboðslista með góðum árangri. Það er mikilvægt að hafa öðlast reynslu í því að ná hópi frambjóðenda saman á bak við skýr pólitísk markmið. Samstaða frambjóðenda hefur einkennt störf mín sem forystumaður.
Ég óska eftir stuðningi ykkar og legg mig og mín störf í ykkar dóm.
Athugasemdir