Skýrar félagslegar áherslur

Greinar
Share

Ríkisstjórnarþátttaka Framsóknarflokksins síðustu 8 ár hefur um margt skilað miklum efnahagslegum árangri, kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið um liðlega 30%. Kjör almennings hafa líklega batnað meir en nokkru sinni áður á sambærilegu tímabili. Ástæðan er fyrst og fremst að efnahagslegum stöðugleika var komið á í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna sem gerðir voru undir forystu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og ASÍ og VSÍ áttu mikinn þátt í. Lág verðbólga gerbreyttu aðstæðum til atvinnurekstrar og það hefur skilað sér í pyngju launþega.

Þessum uppgangstíma fylgja breytingar sem ekki eru allar til góðs. Opinberar upplýsingar staðfesta að ójöfnuður fer vaxandi. Ljóst er að hópar meðal aldraðra og öryrkja búa við bág kjör. Fátækt verður sýnilegri en áður, það sýnir sig hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna og Mæðrastyrksnefnd. Þeim upplýsingum verður ekki vísað á bug eins og forsætisráðherra gerði með því að ætíð sé eftirspurn eftir því sem er ókeypis. Það er fráleitur málflutningur sem enginn framsóknarmaður getur tekið undir. Kjörorð flokksins er einmitt fólk í fyrirrúmi. Það á að vinna gegn auknum ójöfnuði með opinberum aðgerðum og það er tiltölulega auðvelt í þeirri efnahagslegri velsæld sem er hér á landi.

Að því verkefni eiga allir að koma sem efni hafa á. Þeir sem hafa hagnast og notið velgengni, svo ekki sé talað um þá sem fengu þann happdrættisvinning að geta selt veiðiheimildir, mega ekki gleyma því að þeir eru þátttakendur í þjóðfélaginu og bera ábyrgð á því. Það getur enginn litið svo á að hann sé stikkfrír og að heimilt sé að neyta allra bragða til þess að skara eld að eigin köku. Það er skylda hvers manns að leggja sitt til samfélagsins. Mál er að linni þeirri græðgi og óbilgirni sem sést of víða í þjóðfélaginu.

Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur sem vinnur að lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Það er beinlínis hlutverk flokksins að beita sér fyrir jöfnuði og aukinni samfélagslegri ábyrgð. Ég er í engum vafa um það, eftir viðtöl við flokksmenn og stuðningsmenn flokksins undanfarna mánuði, að mjög er kallað eftir því að félagslegar áherslur flokksins verði skýrar.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir