Fullveldið 1918 – þegar sjálfstæðisbaráttunni lauk

Pistlar
Share

Á laugardaginn voru liðin rétt 100 ár frá því að Íslelndingar fengu fullveldið. Í raun lauk þá sjálfstæðisbaráttunni. Konungsambandið við Dani var aðeins táknrænt og hafði enga þýðingu varðandi vald þjóðarinnar yfir eigin málum. Það er að sumu leyti óvenjulegt hvernig Íslendingar sóttu fullveldið. Það var án allra vopnaðra átaka við Dani. Raunar var togstreitan í aðdraganda fullveldissamningsins  ekkert óskaplega harðvítug, þótt á köflum hið danska vald væri tregt í taumi.

Meira að segja gátu Íslendingar fengið fullveldi 10 árum fyrr ef þeir hefðu ekki af þvermóðsku fellt uppkastið 1908. Þá eins og nú eru stjórnmálin ekki alltaf útreiknanleg. Þegar uppkastið lá fyrir sáu sumir pólitísk tækifæri fyrir sig í því að snúast gegn því og töluverður hiti var í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 1908 þar sem kosið var um uppkastið. Það er ekkert nýtt að hægt er að láta umræðu um mál snúast um aukaatriði og minniháttar mál.

Erfiðar aðstæður

Það voru ótrúlega miklir erfiðleikar sem steðjuðu að landi og þjóð á þessum tómamótum. Fyrri heimsstyrjöldinni lauk aðeins þremur vikum fyrir fullveldisdaginn. Styrjöldin varð Íslendingum erfið efnahagslega og þrengdi að þjóðinni, var þó ekki af miklu að taka. Íslendingar voru fátækastir allra Norðurlandaþjóða á þessum tíma að Finnum undanskildum sem rötuðu í þá miklu ógæfu sem borgarastyrjöld fylgir. Íslendingar voru ekki nema hálfdrættingar á við Dani mælt í landsframleiðslu á mann. Landið var nánast gersneytt innviðum sem nauðsynlegir eru hverju þjóðfélagi. Vegakerfi var ekki til, né brýr eða byggingar og opinber þjónusta var ekki upp á marga fiska.  Það voru aðeins 20 ár síðan vistarbandið leið undir lok, sem stagaði almenning niður sem ódýrt vinnuafl á forræði húsbænda.

Árið 1918 varð Kötlugos frá miðjum október og því lauk skömmu fyrir fullveldisdaginn. Spænska veikin kom til landsins nokkrum dögum eftir að Kötlugosið hófst. Hvorki meira né minna en 63% íbúa í Reykjavík veiktust og 500 manns létust á fyrstu 6 vikunum.

Og ekki var ein báran stök. Ofan í erfiðleikana sem fylgdu heimsstyrjöldinni, Kötlu gosi og spænsku veikinni komu fádæma vetrarhörkur veturinn 1918/19.  Það var ekki mulið undir fámenna þjóð snauð af því  sem þá gaf helst góð lífskjör.

Framfarir engu líkar

Þrátt fyrir allt hafa framfarirnar á öllum sviðum frá 1. desember 1918 verið einsdæmi í Íslandssögunni og auk þess með því mesta sem gerst hefur á heimsvísu. Meðalævilengd hefur lengst um liðlega 30 ár frá fullveldinu og er ein sú hæsta í heimilun og komin yfir 80 ár. Mannfjöldi hefur nærri fjórfaldast. Verg landsframleiðsla á mann hefur 18 faldast. Það eru til ágætar upplýsingar um hagtölur frá 1945 og einkaneysla hefur 11 faldast pr mann frá þeim tíma. Samneyslan hefur aukist enn meira eða 22 faldast. Það þýðir að byggt hefur verið upp viðmikið opinbert kerfi og mörgum sviðum til þess að bæta lífsskilyrði landsmanna. Almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta, menntastofnanir, fjarskipti, raforkukerfi og samgöngur. Allt þetta þurfti að byggja upp frá grunni, ólíkt flestum öðrum þjóðum í Evrópu. Þá má ekki líta framhjá því að dreifing verðmætanna og almennur jöfnuður er með betra móti í samanburði við aðrar þjóðir. Er  með því ekki haldið fram að þar sé allt sem best verði á kosið.

Auðlindir og verslun

Grunnurinn að efnahagslegum framförum var lagður með nýtingu fiskimiðanna. Án þeirra höfðu Íslendingar lítið fram að færa sem hægt var að breyta í verðmæti. Annað sem stendur upp úr þegar greint er hvað varð til þess að fátæk þjóð reis til mikillar velferðar á innan við einni öld er að framfarirnar eru sóttar til útlanda.  Það voru og eru viðskiptin við erlenda markaði sem standa undir verðmætunum. Af þeim sökum hefur það verið vegferð þjóðarinnar að sækjast eftir frjálsri verslun fyrir okkar helstu afurðir. Aðildin af EFTA og síðar  að EES eru lífskjarasamningar.  Einangrun skilar ekki miklu í bættum lífskjörum.

Sjórinn er okkar helsta auðlind. Í hann höfum við sótt fiskinn og enn  getur  þjóðin sótt bætt lífskjör í verðmæti sem fiskeldi gefur af sér. Þá eru augljósir möguleikar á því að afla góðra tekna með raforkuframleiðslu bæði með framleiðsluvöru hér innanlands og með sölu rafmagns til erlendra markaða.  Loftslagsmálin í heiminum vinna frekar með okkur en móti þar sem loftslagsmengun verður minni með því að nýta auðlindir landsins en ef þær verða látnar ónýttar. Fjórða atriðið sem tengist auðlindum er sjálf náttúran sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.

Framtíðin á næstu öld fullveldisins er björt, möguleikarnir til áframhaldandi bættra lífskjara hér á landi eru miklir. Auk þeirra verðmæta sem náttúrulegar auðlindir gefa kost á er rétt að hafa í huga að menntun og hugvit eru á háu stigi hérlendis og í þeim eru mikil verðmæti.

Því má aldrei gleyma að fullveldi og sjálfstæði grundvallast á alþjóðlegum samskiptum en ekki einangrun.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir