RÚV neitar að birta Gallupkönnun

Pistlar
Share

Ríkisútvarpið neitar að birta niðurstöður Gallupkönnunar um viðhorf Vestfirðinga til vegagerðar í Gufudalssveit sem liggur að hluta til í jarðri Teigsskógs. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra Ríkisútvarpsins. Guðmundur Halldórsson, skipstjóri í Bolungavík lét gera, á eigin kostnað, vandaða skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi. Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar hér í blaðinu þann 24. maí sl. Könnunin var framkvæmd dagana 7. – 21. maí og úrtakið vaor 1102 einstaklingar í úrtakshópi Gallup úr póstnúmerunum 38- 512. Nærri 90% svarenda voru fylgjandi tillögu Vegagerðarinnar um veglínuna, svonefndrar Þ-H leið.

Athygli hefur vakið að Ríkisútvarpið hefur ekki birt frétt um könnunina og var því leitað skýringa á því. Í svari Sigríðar Hagalín kemur fram að RÚV hafi þá stefnu að birta ekki kannanir sme gerðar eru fyrir einstaklinga eða hagsmunahópa þar sem tilgangurinn sé að hafa áhrif á almenning.

Svarið í heild var svohljóðandi:

„Fréttastofa RÚV fær upplýsingar um margar kannanir sem keyptar eru af einstaklingum eða hagsmunahópum um tiltekna, umdeilda málaflokka. Við höfum almennt tekið þá afstöðu að birta ekki niðurstöður slíkra kannana, vegna þess að í mörgum tilvikum er tilgangur þeirra að hafa áhrif á umræðu og afstöðu almennings til viðkomandi málaflokks. Auðvitað er það ekki algilt, og þess eru vafalaust dæmi að við höfum breytt út af þessari venju. Almenna reglan er að birta aðeins niðurstöður þeirra kannana sem rannsóknarfyrirtækin gera sjálf, og í sumum tilvikum þær sem aðrir fjölmiðlar hafa látið gera. Það er þó alls ekki algilt og fer eftir fréttnæmi niðurstaðnana, og yfirleitt eru einu kannanirnar sem við birtum undantekningarlaust þær sem eru gerðar fyrir okkur sjálf, og niðurstöður Þjóðarpúls Gallups, sem við höfum forgang að.

Ég vona að þetta svari að einhverju leyti spurningum þínum.“

 

Við þetta svar er ýmislegt að athuga.

 

Það fyrsta er að fjölmiðillinn Ríkisútvarp neitar að flytja upplýsingar um afstöðu Vestfirðinga til máls sem mjög er í þjóðfélagsumræðunni. Ekki er um að ræða neina tilbúnar eða skáldaðar staðhæfingar heldur niðurstöðu vandaðrar könnunar sem helsta fyrirtæki á þessu sviði framkvæmir. Um er því að ræða bestu fáanlegar upplýsingar um afstöðu Vestfirðinga til vegar um Teigsskóg. Öflugasta fréttastofa landsins ákveður að halda upplýsingunum frá almenningi. RÚV vill ekki að landsmenn viti að um 90% Vestfirðinga styðja vegagerðina.  Svar RÚV gildir líka um könnun um afstöðu annarra landsmanna ef hún verður framkvæmd. RÚV myndi þega yfir niðurstöðu þeirrar könnunar líka miðað við ofangreind svör.

 

Með þessari framgöngu tekur Ríkisútvarpið sér fyrir hendur að matreiða upplýsingar fyrir landsmenn og velur hvað þeir mega heyra og hvað ekki.  RÚV er með þessari afstöðu vísvitandi að reyna að koma í veg fyrir að upplýsingarnar, sem eru óumdeilanlegar, hafi áhrif á afstöðu landsmanna. Þetta er auðvitað ekkert annað en ein útgáfa af umræðustjórnun sem ríkisfjölmiðillinn hefur tekið upp.

 

RÚV ber því við að tilgangur kannana sé að hafa áhrif á umræðu og afstöðu almennings. Auðvitað er það tilgangurinn í flestum tilvikum. Líka þegar RÚV segir frá Gallup könnunum um fylgi flokkanna skömmu fyrir kosningar. En það er ekki fjölmiðilsins að ritskoða fréttaflutninginn. Sé könnunun framkvæmd að viðunandi hætti á auðvitað að flytja frétt um niðurstöðuna, sérstaklega þegar um er að ræða umdeilt mál sem mjög er til umræðu.  Kjósendur eða landsmenn eru fullfærir um að vinna úr þeim upplýsingum sem felast í vönduðum könnunum.  Það þarf ekki einhvern skoðanastjóra hjá Ríkisútvarpinu til þess að ákveða hvað við megum fá að vita og hvað ekki.

 

Það er eitthvað að í Ríkisútvarpinu. Þar hefur fest rætur stjórnlyndi sem brýst út í ítrekuðum illa duldum tilburðum til þess að stjórna almenningsálitinu í ýmsum málum. Sérstaklega er þetta áberandi varðandi umhverfismál eins og Teigsskógsmálið er.

 

Fréttabann er ein leiðin sem hér er vakin athygli á og harðlega gagnrýnd. Önnur er sú að ítrekað hefur RÚV fengið hagsmunaaðila til þess að gera „heimildarmynd“ um umdeild mál og þeir hafa fengið að reka sinn áróður með hlutleysisstimpli RÚV. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur RÚV greitt áróðursmönnunum fyrir „heimildamyndina“ og kallar það kaup á sýningarrétti. Þetta á við um myndir um lagningu raflínu í Skagafirði, laxeldi í sjó og virkjun lindár í Þingeyjarsýslu.  Allir þessir þættir voru málflutningur en ekki fréttaflutningur. Auðvitað hefur RÚV ekki sýnt „heimildarmynd“ frá hinu sjónarhorninu. Það verður að segjast að ekki er búist við því að það verði gert.

 

Þegar fjölmiðill hættir að flytja fréttir og fer að fela fréttir og reka áróður fyrir tilteknum skoðunum er komið út yfir þau mörk sem hægt er að líða. Það á við um alla fjölmiðla, en alveg sérstaklega við um RÚV.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir