Frelsi og sjálfstæði eru óaðskiljanleg hugtök hvort sem litið er til stöðu þjóðar eða einstaklinga. Frelsið án sjálfstæðis er ekkert frelsi og sjálfstæði án frelsis er ekkert sjálfstæði. Jón Sigurðsson, forseti gerði sér þetta ljóst og gerði baráttu fyrir fríverslun að aðalbaráttumáli. Strax 1845 á sínu fyrsta þingi fær hann Alþingi til þess að samþykkja erindi til kóngsins um verslunarfrelsi og síðan á hverju þingi þar til til danska þingið samþykkti fríverslun. Frjáls verslun innanlands og við útlönd var forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.
Verslunarfrelsið 1855
Verslunarfrelsið frá 1855 gjörbreytti aðstæðum og efnahag landsmanna. Menn gátu valið sér að vild verslun og stofnað til viðskipta við erlenda aðila. Íslendingar voru ekki lengur skyldugir til þess að versla við handvalda danska leyfishafa sem nýttu sér aðstöðuna til þess að ákvarða verðið fyrir vörurnar og gerðu það auðvitað á þann hátt að innlend framleiðsla var verðlögð lágt en erlend og innflutt vara verðlögð hátt. Sérleyfafyrirkomulagið þýddi þá og gerir enn að fáir útvaldir gera upptæk í sína þágu verðmæti sem með réttu eru í eigu þeirra sem neyddir eru til viðskipta. Þetta þýðir einfaldlega lífskjaraskerðing almennings. Þetta gerði Jón Sigurðsson sér ljóst og hann vissi að leiðin til þess að bæta lífskjör almennings lá í gegnum frelsi til viðskipta.
Utanríkisverslun 50% af landsframleiðslu
Landið er harðbýlt og nútíma velferðarþjóðfélag þrífst ekki nema fyrir mikinn innflutning á nauðsynlegum vörum og þjónustu. Utanríkisviðskipti Íslendinga eru meðal þess mesta sem um getur eða um 50% af árlegri landsframleiðslu. Auðlindir landsins til sjávar og í fallvötnum gefa af sér útfluttar vörur í þeim mæli að dugar fyrir kostnaði við innfluttar nauðsynjar. Almennt viðskiptafrelsi í heiminum hefur farið vaxandi síðustu áratugi og hefur sama gildi fyrir þróun lífskjara og var á dögum Jóns Sigurðssonar. Afturkippur í milliríkjaviðskiptafrelsi skaðar allar þjóðir og skerðir lífskjör, en sýnu mest eiga Íslendingar undir því að það takist að vinna bug á þeim kröftum sem um þessar mundir boða höft, tolla og refsiaðgerðir. Líklega má fullyrða að hvergi í Evrópu á síðustu 100 árum hafi verið stigin viðlíka risaskref til framfara í nokkru þjóðfélagi og því íslenska. þá var Ísland eitt það snauðasta af öllum gæðum og innri uppbyggingu en er nú komið í fremstu röð. Frelsið til framleiðslu, viðskipta og almennt til athafna er forsendan fyrir sjálfstæðu þjóðfélagi.
Hugmyndirnar koma að utan
Hreyfiaflið í þjóðfélaginu, allt frá kyrrstæðu bændaskipulaginu á 19. öld, hafa verið hugmyndir, þekking og kunnátta sem borist hefur til landsins að utan. Sjálfstæðisbaráttan spratt upp úr þjóðfélagsumróti og byltingu borgarastéttarinnar í Evrópu upp úr 1830. Krafan um persónubundin réttindi og frelsi einstaklingsins, svo sem kosningaréttur og réttur til þess að velja sér starf og búsetu barst til landsins með vindum sunnan úr Evrópu í gegnum Fjölnismenn og Jón Sigurðsson. Ísland er fámennt land og hefur ávallt verið kyrfilega bundið fast í skipulag helstu hagsmunaaðila á hverjum tíma. Erlendir straumar hafa reynst almenningi vel til þess að auka sjálfstæði hvers einstaklings um kjör sín og daglegt líf.
EES bindur hagsmunaaðila
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er örugglega brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um bann við framsali á valdi til erlendra yfirþjóðlegra stofnana, en samningurinn hefur gjörbreytt þjóðfélaginu til hins betra á þeim 25 árum sem liðin eru síðan hann var samþykktur. Samningurinn hefur neytt Íslendinga til þess að breyta leikreglum þjóðfélagsins í mörgum efnum á þann veg að auka réttindi almennings og neytenda að ekki sé minnst á löggjöf á vinnumarkaði. Margar breytinganna hefðu örugglega aldrei verið samþykktar án EES samningsins, vegna þeirrar sterku stöðu sem innlendir hagsmunaaðilar í viðskiptalífinu og einstaka atvinnugreinum hafa.
Vistarband kvótakerfisins
Það sést best á kyrrstöðunni í þeim atvinnugreinum sem eru undanþegnar EES samningnum, sjávarútvegi og landbúnaði. Þar ráða fámennir hópar ferðinni og hafa kverkatak á stjórnmálaflokkunum. Hvergi er óréttlætið, vanmáttur almennings og auðsöfnun hinna útvöldu meira himinhrópandi en í sjávarútveginum. Þar ríkir kyrrstaðan, þar ríkir húsbóndavald eigandans, þar eiga launamenn allt sitt undir duttlingum „húsbóndans“ og eru ekki frjálsir menn. Íslensku sjávarplássin líða á hverjum degi fyrir einokunarkerfið í úthlutun kvótans og þeir sem starfa við þessar aðstæður eru í svipuðum sporum og vinnufólkið á dögum Jóns Sigurðssonar. Sjómenn á Vestfjörðum hafa oft verið minntir á stöðu sína og að þeim sé hollast að sitja og standa eins og þeim er ætlað. Ófrelsið leiðir af sér afturför og lífskjaraskerðingu. Þegar spurt er hvað er til ráða er einfaldast að benda til greiningar Jóns Sigurðssonar. Takið einokunarvaldið úr höndum þeirra sem hafa það nú og færið það byggðanna og ríkisins. Leyfum öllum að sækjast eftir kvótanum og keppa um hann og látum arðinn renna til samfélagslegra þarfa. Frelsinu fylgir sjálfstæði og bætt lífskjör– fyrir okkur öll.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir