Skipulagsstofnun er einkennileg stofnun. Þar kemur fram í hverju málinu á fætur öðru mismunandi afstaða til sambærilegra mála. Vegagerð í Gufudalssveit er dæmi um það. Framkvæmdin er á svörtum lista hjá stofnuninni og forstjórinn vill að ríkið kosti 6 milljörðum króna meira til af almannafé til þess að mæta duttlungum og þvergirðingshætti. Hins vegar er sömu stofnun algerlega ósárt um spjöllin sem verða á helgum reit þjóðarinnar, eins og segir í lögum, á Þingvöllum vegna vegagerðar um miklu lengri leið um sams konar birkisvæði. Skipulagsstofnun er algerlega ónæm fyrir því að Þingvellir eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Telur stofnunin að vegagerð þar sé svo léttvæg að ekki þurfi að gera umhverfismat. Það er ekki sama hvar birkið vex, eða kannski ætti að segja það er ekki sama hvar þörf er á góðum vegi. Þingvellir eru á Íslandi en Teigsskógur er einhvers staðar annars staðar.
Vegið að hreppsnefnd
Víkur nú sögunni að Árneshreppi og Hvalárvirkjun. Frá upphafi hefur Skipulagsstofnun sett hornin í þessi áform og sett fram alls konar athugasemdir og mótbárur. Verður ekki með neinni sanngirni borið á Skipulagsstofnun að hafa greitt fyrir framgangi málsins. Nú þegar hreppsnefnd hefur afgreitt nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi hreppsins og sent þær til staðfestingar er málið sett í 7 vikna bið og loks sent bréf til baka þar sem krafist er svara við tveimur atriðum sem snúa að hreppsnefnd.
Breytingar á aðalskipulagi
Fyrra atriði lýtur að því hver hafi unnið breytingartillöguna að aðalskipulaginu. Hreppsnefndarmenn sem eru andvígir Hvalárvirkjun gera athugasemd við þetta og líta svo á að ekki hafi verið heimilt að fela framkvæmdaaðila að vinna að tillögunni. En framkvæmdin mun hafa verið þannig að Vesturverk ehf, sem óskar eftir breytingunum sem væntanlegur virkjunaraðili, fékk Verkís ehf til þess að vinna tillögurnar sem voru svo sendar sveitarstjórn Árneshrepps. Skipulagsstofnun óskar eftir skýringu á þessu og minnir á í leiðinni „að ekki er í skipulagslögum gert ráð fyrir að aðrir en sveitarfélagið standi að gerð tillagna að aðalskipulagi“ eins og segir orðrétt í bréfi Skipulagsstofnunar, sem undirritað er af forstjóranum Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en sem beinn stuðningur við klögumál minnihlutans í hreppsnefnd.
Bæjarstjórinn á Ísafirði Gísli Halldór Halldórsson staðfestir að aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar hafi þrisvar verið breytt á árunum 2016 og 2017 vegna óska frá virkjunaraðila. Í öllum tilvikum var tillögugerðin á hendi framkvæmdaaðila virkjunarinnar og síðan tekin fyrir og afgreidd í skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Það sem meira er að Skipulagsstofnun hefur með formlegum hætti staðfest allar þrjár aðalskipulagsbreytingarnar. Arkitektinn sem vann að málinu fyrir Vesturverk ehf vegna Hvalárvirkjunar, Erla Kristjánsdóttir segist ekki vita annað en að svona sé framkvæmdin í sambærilegum tilvikum og bendir t.d. á Landsvirkjun. Spurningin er því þessi: hvað gengur Skipulagsstofnun til að ýta undir ásakanir og reyna að gera framkvæmdina tortryggilega? Hvers vegna á málsmeðferð í Árneshreppi að vera tilefni sérstakrar athugununar þegar Skipulagsstofnun stimplar sams konar málameðferð góða og gilda annars staðar á landinu? Það er deginum ljósara að Skipulagsstofnun er að skapa sér stöðu til þess að hafna breytingunum á aðalskipulagi Árneshrepps. Þá fer málið til Umhverfisráðherra til endanlegrar afgreiðslu.
vanhæfi sveitarstjórnarmanna
Hitt atriðið sem Skipulagsstofnun tekur upp er spurningin um það hvort þeir hreppsnefndarmenn sem samþykktu aðalskipulagsbreytingarnar hafi verið hæfir samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Enn er það minnihlutinn sem ber fram ásakanir, bæði á hendur hreppsnefndarmönnum og Vesturverki. Sérstaklega er vegið að oddvitanum Evu Sigurbjörnsdóttur og er hún talin vanhæf þar sem hún er eigandi að hótelinu í Djúpuvík og auk þess „sek“ um þann glæp að hafa lýst því yfir að hún styddi þessar breytingar. Þetta er svo alvarlegt að Skipulagsstofnun tekur málið upp og krefst rökstuðnings fyrir hæfi oddvitans.
Skipulagsstofnun telur ekki þörf á að spyrja um hæfi þeirra sem greiddu atkvæði gegn aðalskipulagsbreytingunum. Er þó tilefni til þess. Mætti alveg inna eftir tengslum og áhrifum auðmanna sem hlutuðust til um afgreiðslu málsins á lokastigi þess og buðu fram stórfé til þess að fá hreppsnefndarmenn til þess að hætta við að afgreiða tillögurnar. Skipulagsstofnun finnst það ekkert tiltökumál að forríkir utanhreppsmenn bjóði fram fé gegn atkvæði sveitarstjórnamanna. Eru þeir hreppsnefndarmenn hæfir sem hlýddu því kalli?
Það er á verksviði sveitastjórnarmálaráðuneytis að fella úrskurði um hæfi og vanhæfi sveitarstjórnarmanna, ekki Skipulagsstofnunar.
Lögum samkvæmt er það sveitarstjórn sem tekur ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns til meðferðar og afgreiðslu einstakra mála. Hægt er að kæra þá ákvörðun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það er hvorki Umhverfisráðuneyti né Skipulagsstofnun sem kveða upp úr um hæfis og vanhæfismál. Skipulagsstofnun er komin langt úr fyrir sitt verksvið. Valdssviði stofnunarinnar er misbeitt. Það er verkefni Umhverfisráðherra að grípa í taumana. Honum ber að gera það. Lög og leikreglur eru ekki tæki sem beita má að vild og að geðþótta. Stóri vandinn í málinu er að Umhverfisráðherra er ekki treystandi.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir