6. janúar 2008.
Í árbók Ferðafélags Íslands árið 1946 er mikil lýsing á Skagafirði í löngu og vönduðu máli eftir Hallgrím Jónsson, eins og vænta mátti frá félaginu og héraðið verðskuldar. Lýsingin um þjóðleiðir og sögustaði hefst í Blönduhlíð á þessari vísu, sem á vel við:
Neðar hjöllum ólga ört
elfarföll um hagann.
Ofar völlum blika björt
byggðin, fjöllin, sagan.
Þegar kemur að Bólu í leiðarlýsingunni er getið um Einar Andrésson sem þar bjó um tíma og var snjall hagyrðingur. Eftir hann er þessi vísa, sem kastað var fram við mektarbónda sveitarinnar, sem var að koma úr kaupstaðarferð með stóra lest undir búðarvarningi og mætti Einari á leið i kauptúnið með einn trússahest:
Auðs þó beinan akir veg,
ævin treinist meðan,
þú flytur á einum eins og ég
allra seinast héðan.
Athugasemdir