Er Vinnslustöðin verst rekna fyrirtækið?

Pistlar
Share

Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum heldur því fram í blaðagrein í Fréttablaðinu að framlegðin af loðnuveiðum þetta árið sé aðeins 10%. Notar hann útreikninga KPMG á skattaspori Vinnslustöðvarinnar hf og yfirfærir þá á þær loðnuveiðar og vinnslu sem hófust eftir verkfall. Áætlar hann verðmæti loðnunnar 17 milljarða króna og segir að framlegðin (EBITDA) sé 1,7 milljarðar króna. Það er aðeins 10%.

Þetta rímar illa við opinberar hagtölur. Ekki liggja fyrir tölur um framlegðina af loðnuveiðum og loðnuvinnslu sérstaklega, en mjög góð afkoma hefur verið af uppsjávarveiðum og -bræðslu frá 2008 til 2015. Hreinn hagnaður hefur verið frá 17-36% að einu ári undanskildu. Það þýðir að framlegðin hefur verið enn meiri.

Árið 2015 var framlegðin hjá uppsjávarveiðiskipum 21,5% og 17,7% hjá uppsjávarfrystiskipum. Í mjöl- og lýsisvinnslu var framlegðin 20,2%. Í uppgjöri Hagstofunnar er veiðigjaldið til ríkisins fært til rekstrarkostnaðar og lækkar það framlegðina. Það er ekki eðlilegt þar sem veiðigjald er ekki kostnaður við útgerð skipsins heldur afgjald fyrir veiðirétt. Fyrir útgerðina í heild svarar veiðigjaldið 3% af tekjum þegar veiðigjaldið er fært frá rekstrarkostnaði.Tölur um framlegð í uppsjávarveiðum eru því í raun a.m.k. 3% hærri en tölur Hagstofunnar. Þá fæst að framlegðin í uppsjávarveiðum árið 2015 var 21-25% af tekjum. Það er mun hærra en þau 10% sem fást með „speglun“ á skattaspori Vinnslustöðvarinnar. Til þess að gera rekstur Vinnstöðvarinnar hf enn ótrúverðugri þá var heildarafkoman í sjávarútvegi 2015 sú að framlegðin var 30%.

Full ástæða er til þess að efast um fullyrðingar um slæma afkomu af rekstri Vinnstöðvarinnar hf. í ljósi opinberra upplýsingar um afkomu í sjávarútvegi, en séu þær engu að síður réttar blasir við að Vinnslustöðin hf. hlýtur að vera eitt verst rekna fyrirtækið í sjávarútvegi. Sé það raunin er verið að sóa verðmætum og rýra lífskjör þjóðarinnar með því að fela fyrirtækinu að nýta auðlind þjóðarinnar þegar aðrir geta gert það miklu betur.

Birtist í Fréttablaðinu 2. mars 2017

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir