Vísur vikunnar (127): Er af Guðna eftirsjá

Molar
Share

30. nóvember 2008.

Norðan úr Skagafirði barst þessi vísa frá Sverri Magnússyni, Efri Ási í Hjaltadal, sem nú býr á Sauðárkróki. Tilefnið er skyndilegt brotthvarf Guðna Ágústssonar úr stjórnmálum.
lida
Er af Guðna eftirsjá
ábyrgð vildi bera.
Fátt er eftir Framsókn hjá
flokkurinn búinn að vera.

Í Hrútafirði býr á Kjörseyri Georg Jón Jónsson. Hann sendi visnabréf sem verður gert betur skil síðar, en hér koma tvær vísur frá honum með skýringum hans:

Blaðamannafundir Geirs og Ingibjargar voru haldnir á Leiðarljóstíma í Sjónvarpinu og lítt vinsælir af aðdáendum Leiðarljóss.

Þau eru komin í fréttafjósið
að flytja sinn daglega skammt.
Þetta er nýja Leiðarljósið
léleg týra er það samt.

Að lokum ein limra um ástandið.

Það er efnahagslægð og allt í hönk.
Það er stefnuleysi og stjórnin blönk.
En hvernig sem fer
þá auðsætt er
að ástin er diskó og lífið pönk.

Athugasemdir