Vísa vikunnar(117): Önundarfjörður, þú indæla sveit

Molar
Share

23. mars 2008.

Nú um páskana áskotnaðist mér vísnakver Daníels Ben, sem gefið var út á kostnað höfundar 1960. Það var Sigurður Hafberg kennari á Flateyri sem gaf mér ljósrit af vísnakverinu. Um höfundinn er fátt vitað að sinni, en hann virðist hafa verið Önfirðingur og mörg kvæðanna í bókinni eru um samferðamenn Daníels á norðanverðum Vestfjörðum um og fyrir miðja síðustu öld. Að auki eru hvorki fleiri né færri 250 sléttubandavísur í bókinni sem verður að teljast meiriháttar afrek. Er ekki ólíklegt að á þessum vettvangi verði birt úr vísnakverinu, sem er frekar bók að vöxtum en kver.

Rétt er að byrja á því að birta úr kvæðinu Önundarfjörður:

Önundarfjörður, þú indæla sveit,
ekkert í heiminum fegra ég leit,
gnæfa þar fjöll yfir grösugri byggð,
gafst mér þar kynning við festu og tryggð.

Man ég þinn vasklega vestfirska svip,
vélknúin, róin og siglandi skip,
fólkið við heyskapinn, fénað á beit,
fiskinn í þurrki á steinlögðum reit.

Man ég þín háværu hvítfuglager,
hvalanna blástur og seli við sker,
heiðlóur, æðurna, hrafna og önd,
haukana, erni og sendling á strönd.

Tíðum af hörku á sjóinn var sótt,
saman þá lögð voru dagur og nótt.
Þá reyndi Ægir á þolgæði manns,
þáð voru launin í gjöfunum hans.

Oft var í tvísýnu haldið úr höfn,
hvessti þá stundum svo ólgaði dröfn.
Óvæginn heimtaði Ægir sinn skatt,
endi á lífsferil margra hann batt.

Önundarfjörður, mín ástkæra byggð,
auðgist að visku og sérhverri dyggð.
Drottinn þig verndi um ókomin ár,
auki þér manndóm og græði þín sár.

Athugasemdir