Vísa vikunnar (39): Engum lætur orð í té

Molar
Share

Halldór Blöndal fór stundum sínar eigin leiðir við fundarstjórn, þegar hann var forseti Alþingis. Á þingsetningarfundi eftir átökin um fjölmiðlalögin sendi hann stjórnarandstæðingum tóninn með þeim fáheyrðu afleiðingum að sumir þeirra gengu á dyr. Þá greip hann eitt sinn til þess ráðs að láta eins og hann hvorki heyrði né sæi þingmenn, sem vildu kveða sér hljóðs um störf þingsins og varð af því mikið hark í þingsölum.
Eðlilega veltu menn því fyrir sér hvað forsetanum gengi til og fóru ýmsar kenningar á kreik eins og eftirfarandi vísa ber með sér:

Engum lætur orð í té
eykur þingsins vanda.
Halda má að Halldór sé
haldinn illum anda.

Athugasemdir