Svik á svik ofan

Pistlar
Share

Skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti. Í henni er lagt mat á umfang eignanna og mögulegt tekjutap hins opinbera vegna sviksamlegrar háttsemi sem stunduð af af auðugu fólki. Skýrsla starfshóps fjármálaráðuneytisins bætir upplýsingum við það sem lesa mátt úr Panamaskjölunum.

Í þeim kemur fram að gögn lögmannsskrifstofunnar Mosack Fonseca sýni að um 600 Íslendingar hafi átt um 800 félög. Finna mátti að einstakir nafngreindir Íslendingar áttu háar fjárhæðir í felum fyrir Íslenskum skattyfirvöldum. Nýja skýrslan, þar sem leitast er við að fá heildarmyndina skýra, dregur fram að 1629 félög hafi fengið íslenska kennitölu vegna banka- eða hlutabréfaviðskipta. Félagafjöldinn er því a.m.k. tvöfalt hærri en fram kom í Panama skjölunum. Skattrannsóknarstjóri keypti gögn um 585 félög í eigu Íslendinga. Aðeins 1/3 þeirra var talinn fram í upplýsingum til íslenskra skattyfirvalda.

Umfang skattsvikanna hefur því verið mjög mikið og segir í skýrslunni að það hafi líklega verið fjórum sinnum hærra en í Danmörku.

Málamyndagjörningar

Skýrsluhöfundar benda á að aflandseyjafélögin hafi fjárfest að stórum hluta á Íslandi. Þannig var í árslok 2007 að 56% af hlutabréfum í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í eigu íslenskra félaga eða 1500 milljarðar króna. "Þessi félög voru að langmestu leyti í eigu Íslendinga og sama gilti um óskráð félög í aflandseyjareignarhaldi" segir orðrétt í skýrslunni. Hér var ekki fyrst og fremst að færa fé til útlanda til fjárfestingar þar heldur var verið að skýla eignum Íslendinga og koma þeim undan skattyfirvöldum.

Það er nokkuð bersýnilegt að verið var að komast hjá því að greiða skatta og skyldur til þess að standa undir samfélagsþjónustunni, svo sem heilbrigðiskerfinu.
Starfshópurinn telur að árlegt tap hins opinbera frá 2006-2014 hafi verið 4,6-25,5 milljarðar króna á ári og samtals um 56 milljarðar króna yfir allt tímabilið. Þá ber að hafa í huga að stór hluti af tekjunum hefði orðið í formi fjármagnstekjuskatts og hann hefur verið lágur á Íslandi í samanburði við flest önnur ríki. Væri matið á tekjutapinu miklu hærra ef fjármagnstekjuskattur hefði t.d. verið svipaður og á Norðurlöndunum.

Eignirnar sem skotið var til aflandseyja eru taldar vera á bilinu 350 – 810 milljarðar króna með miðgildi í 580 milljörðum króna. Tekið er fram að þetta sé mat á fjármagnstilfærslur og eignaumsýslu á lágskattasvæðum og sé langt frá því að vera tæmandi.

Eftirfarandi málsgrein úr skýrslunni (bls 23) hljóta að teljast mikil tíðindi:

"Útrásin sem sést í tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins var ekki nema að hluta til eiginlegt eignarhald Íslendinga erlendis, heldur að miklu leyti það sem kalla mætti fram-og-til-baka fjárfestingu, (e. round tripping). Það eru málamyndagjörningar sem ekki þjóna öðrum tilgangi en þeim að fela eignarhald, forðast skattgreiðslur og koma eignum úr seilingarfæri lánardrottna."

Vaxandi ójöfnuður

Þá segir (bls 36) um óbein áhrif af aflandseyjavæðingunni:

"Þannig er ljóst að fjármagnsflótti til lágskattasvæða stuðlar með almennum hætti að vaxandi ójöfnuði og grefur undan velferðarsamfélaginu þegar annað hvort eða bæði kemur til, að lág- og millilaunahópar þurfi að axla meiri skattbyrðar en ella væri til að bæta upp tekjutap hins opinbera, eða fjarar undan almannaþjónustu."

Leynt fyrir kjósendum

Skýrslan bætir miklu við þær upplýsingar sem fyrir lágu um aflandseyjasiðferði nokkur hundruða Íslendinga. Í ljósi þess að til kosninganna var boðað fyrr en átti að vera vegna þess að almenningi ofbauð framferðið fer ekki á milli mála að skýrsluna átti að gera opinbera fyrir kosningarnar 29. október. Það var vel hægt þar sem skýrslan var fullbúin 13. september. Áhrifin hefðu orðið aukin umræða á grundvelli betri þekkingar um Panama skjölin og frammistöðu stjórnmálaflokkanna bæði fyrir og eftir hrun. Á því er enginn vafi að þeir sem mest voru við völd og helst gátu gripið til fyrirbyggjandi aðgerða til þess að gæta að þjóðarhag en gerðu ekki, hefðu átt undir högg að sækja. Réttilega. Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra ákvað að leyna skýrslunni.

Það var ekki með þjóðarhag í huga heldur eigin hag. Hann er orðinn forsætisráðherra með leynd, svikum og síðan ósannindum. Illur fengur illa forgengur.

Pistillinn birtist fyrst sem leiðari í blaðinu Vestfirðir 1. tbl. 2017.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir