Eyjablaðið Fréttir greinir frá því í síðastu viku að leiga aflaheimilda hafi verið lífleg á síðasta ári. Tæplega 6000 tonn af bolfiski hafi verið leigð frá Eyjum umfram það sem leigt var til Eyja. Það nemur 16,3% af aflaheimildum síðasta fiskveiðiárs. Mest var leigt af þorski, 4.849 tonn leigð burt en 863 tonn til Eyja, nettó var því leigð 3.986 tonn frá Eyjum af þorski. Það eru 30% af heimildum ársins í þorski. Ætla má að nettótekjur af leigu þorskheimildanna hafi verið um 500 milljónir króna.
Af þessum tekjum þarf ekki að greiða neinn útgerðarkostnað, engin laun til sjómanna, enga olíu, engann veiðarfærakostnað. Þessar aflaheimildir skapa enga vinnu í Eyjum, engin laun til fólks í landi, engar tekjur til sveitarfélagsins. Eini kostnaðarliðurinn er skjalataskan. Ríkið úthlutar heimildunum án teljandi endurgjalds og án skuldbindinga. Tæpur þriðjungur af úthlutuðum heimildum í þorski er fáum til gagns í Eyjum. Í vaxandi mæli er útgerðarmaðurinn að verða milliliður milli ríkisins sem úthlutar heimildinni og þess sem nýtir hana til veiða. Þessi milliliður vinnur ekki ókeypis. Væri ekki eðlilegra að sveitarfélagið annaðist leigu aflaheimildinna og hefði tekjurnar af þeim ? Þeir yrðu fljótir að greiða jarðgöngin milli lands og Eyja með þeim tekjum.
Athugasemdir