Öld innflytjendanna

Pistlar
Share

Gífurlegar þjóðfélagsbreytingar eru framundan í Evrópu. Þær einkennast af innflytjendastraumi. Segja má með sanni að 21. öldin verði öld innflytjendanna. Á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar jókst fjöldi innflytjenda til Evrópusambandsríkjanna 27 verulega en í byrjun aldarinnar urðu svo sannarlega alger umskipti. Fjöldinn hafði verið innan við hálf milljón manna á ári og lengst af vel innan þeirra marka en varð fjórfalt meiri árið 2003 eða 2 milljónir manna og nær öll árin frá 2001 voru innflytjendur fleiri en ein milljón manna.

60 milljónir innflytjenda

Evrópusambandið gefur reglulega út vandaðar skýrslur um framtíðarhorfun í aðildarríkjunum 27 og ein skýrsluröðin fjallar um lýðfræðilega þróun. Árið 2012 kom út skýrsla um horfurnar frá 2010 – 2060. Það er skemmst frá því að segja að fólki á vinnfærum aldri mun fyrirsjáanlega fækka mjög mikið á þessum 50 árum og Evrópsambandsríkin verða að treysta á innflutt vinnuafl til þess að geta haldið hagkerfinu og þar með velferðarkerfinu gangandi.

Talið er að innflytjendur til Evrópusambandsríkjanna verði rúmlega 60 milljónir manna á þessum 50 árum. Þrátt fyrir það mun íbúafjölgun verði mjög hæg. Árið 2010 er talið að íbúar í ríkjunum 27 hafi verið 502 milljónir manna. Í lok spátímans árið 2016 er áætlað að íbúafjöldinn verði 517 milljónir manna. Það er aðeins 3% fjölgun íbúa þrátt fyrir rúmlega 60 milljóna manna innstreymi utanfrá. Það er í raun ekkert val í þessum efnum fyrir Evrópu. Án innflytjendanna verður algert neyðarástand í einstökum ríkjum vegna skorts á vinnuafli. Láti einhver sér koma í hug að loka landamærunum og hleypa inn aðeins broti af þessum fjölda bitnar það verst á þegnum sömu ríkja. Lífskjör munu versna og velferðarkerfið mun bogna ef ekki brotna undan fjárskorti og vöntun á vinnandi höndum.

Sem dæmi má nefna að á árabilinu 2010 – 2020 var áætlað árið 2012 að innflytjendur yrðu 13 milljónir manna en skýrsluhöfundar telja þörf á 12 milljónum manna til viðbótar. Samanlagt er því talin þörf á 25 milljónum manna á þessu árabili. Innflytjendastraumurinn frá Sýrlandi síðustu tvö ár er kannski 2 – 4 milljónir manna og er aðeins brot af þessari þörf. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni er talið að fjöldi innflytjenda verði frá 1,0 – 1,4 milljónir manna á ári hverju fram til 2060.

Þessar tölur miðast við svæðið allt, öll 27 ríki Evrópusambandsins, en vissulega er dreifingin og þörfin ekki eins eftir einstökum ríkjum. Þannig er talið að íbúum Írlands muni fjölga um 46% á tímabilinu, íbúum Bretlands og Svíþjóðar muni fjölga um 27 og 23% , en íbúum Þýskalands muni fækka um 19%. Þýskaland er nú fjölmennasta ríki Evrópu með 82 milljónir íbúa en árið 2060 er talið að Bretland verði orðið fjölmennast með 79 milljónir, síðan Frakkland með 74 milljónir manna og í Þýskalandi verði aðeins 66 milljónir manna.

Lág fæðingartíðni, hækkandi lífaldur

Það eru ákveðnar lýðfræðilegar ástæður fyrir þessari spá. Veigamest er sú að fæðingartíðni er lág í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Til þess að viðhalda íbúafjölda þjóðar og eðlilegri aldurssamsetningu þarf fæðingartíðnin að vera 2,1 barn á hverja konu. Hins vegar er tíðnin mun lægri. Hún var árið 2010 aðeins 1,59. Spáð er að hún hækki lítilsháttar og verði 1,70 í lok spátímans 2060. Engu að síður er það ekki nóg. Fólki á aldrinum 15 – 64 ára mun fækka um 14%. Önnur ástæða er hækkun lífaldurs. Betri heilsa og aðbúnaður gerir það að verkum að þeir sem fæðast árið 2060 geta vænst þess að lifa 7 árum lengur en þeir sem fæddust árið 2010. Sérstaklega skiptir málið að þeir sem verða 65 ára árið 2060 munu geta vænst þess að lifa 5 árum lengur og sjá þá fram á 22 – 25 ár ólifuð en þeir sem voru 65 ára árið 2010. Þetta þýðir að fjöldi vinnandi á móti þeim sem eru orðnir 65 ára mun lækka stórlega. Það eru núna 4 vinnandi fyrir hvern sem er eldri en 65 ára en verða aðeins 2 í lok spátímabilsins. Þessar tvær ástæður gera það að verkum að Evrópuþjóðirnar hafa ekkert val, þær verða að flytja inn vinnuafl í stórum stíl.

Skynsamleg stefna Þjóðverja

Ef talið er frá byrjun aldarinnar fram til 2060 munu fjöldi innflytjenda verða um 75 milljónir manna eða um 15% af núverandi íbúafjölda ríkjanna 27 sem mynda Evrópusambandið. Þetta fólk mun koma frá ríkjum utan Evrópusambandsins , frá ríkjum og menningarheimum sem um margt eru ólíkir hinum evrópska. Það er gífurleg breyting og mun reyna mikið á þjóðfélögin. Árekstrar og átökin sem fylgja eru um þessar mundir bersýnilegust í Bretlandi og Þýskalandi. Innflytjendastraumurinn er ein meginskýringin á úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu og endurspeglar vilja til þess að loka fyrir aðstreymi.

Vaxandi óvinsældir Merkels í Þýskalandi eiga sér sömu skýringu eftir að 1 milljón flóttamanna frá Sýrlandi kom til Þýskalands á síðasta ári. Ákvörðun Þjóðverja mun hins vegar styrkja landið til lengri tíma litið. Fæðingartíðin mun hækka og fjöldinn á vinnmarkaði mun aukast. Horfurnar fyrir þýskt efnahagslíf og íbúaþróun munu gjörbreytast til batnaðar. Fyrir Þjóðverja er betra að fá fleiri innflytjendur fyrr en síðar og koma þannig í veg fyrir fólksfækkunina og efnahagslega afturkippinn sem fyrirsjáanleg er að óbreyttu. Það var skynsamlegt stefna hjá Merkel að taka á móti flóttamönnunum frá Sýrlandi . Vandinn er að sigla hjá alvarlegum þjóðfélagslegum árekstrum. Evrópa þarf innflytjendur. Afleiðingin verður að evrópsk þjóðfélög munu breytast mikið. Það er óumflýjanlegt.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir