Ég hef lagt fram á Alþingi fyrirspurn til menntamálaráðherra um stofnun háskóla á Ísafirði. Spurt er að því hvort ráðherrann muni beita sér fyrir stofnun háskóla. Vilji stjórnvöld sýna vilja sinn til þess að styrkja byggð á Vestfjörðum og efla Ísafjörð sem byggðakjarna er fátt áhrifameira en stofnun háskóla. Fyrir liggur að mikill áhuga er á háskólanámi í fjórðungnum og á skömmum tíma yrðu fjölmargir nemendur í skólanum. Háskóli með 300 nemendur í staðnámi og 100 í fjarnámi myndi þýða að íbúum svæðisins yrðu um 700 fleiri, en vera myndi án skólans. Það munar um minna. Þá má benda á það sem fram kemur í nýlegum tillögum verkefnisstjórnar um byggðaáætlun fyrir Vestfirði að það vantar um 130 störf í opinberri þjónustu til þess að fjöldi þeirra í fjórðungnum nái landsmeðaltali. Háskóli á Ísafirði myndi brúa þennan mun verulega þegar hann væri kominn á legg.
Athugasemdir