Enn á ný fór Sullenberger á kreik í fjölmiðlum. Nú var í síðustu viku að Kastljósþáttur Ríkisútvarpsins tók að sér tvö kvöld í röð að gera klögumálum hans skil og Morgunblaðið endursagði jafnharðan daginn eftir það sem fram kom í Kastljósinu. Sú spurning stóð eftir í mínum huga eftir umfjöllun þessara tveggja fjölmiðla: Hver var tilgangurinn?
Það var áður búið að gera grein fyrir ákærum, Sullenberger er upphafsmaður málsins svo það þarf ekki að spyrja um afstöðu hans til þeirra sem hann ber þungan hug til, svo vitnað sé til þekkts orðalags í málinu. Helstu atriðin sem deilt er um og varða hvort rétt var að Baugur greiddi tiltekna reikninga eða ekki eru hvorki af þeirri stærðargráðu né umfangi að sjálfgefið sé að Ríkisútvarpið leggi tvo þætti undir málið og byggi það fyrst og fremst á vitnisburði Sullenbergers. Kannski ekki hvað síst í ljósi þess sem á undan er gengið í öllum þeim málarekstri.
Má ég minna á að í ágúst 2002 hófst Baugsmálið í kjölfar kæru Sullenbergers. Það tók nærri þrjú ár að gefa út ákæru í 40 liðum. Þrjátíu og tveimur þeirra var vísað frá dómi. Sakborningar voru svo sýknaðir af þeim 8 sem eftir stóðu. Nú eru komnar fram nýjar og endurbættar kærur og jafnvel þótt ákæruvaldið fengi sigur í þeim öllum þá er málið skroppið saman niður í brot af þeim miklu ákærum sem fyrst voru bornar fram. Jóhannes Jónsson er ekki lengur ákærður og þannig er viðurkennt af hálfu þeirra, sem fara með málið fyrir hönd hins opinbera, að ákæra á hendur honum í upphafi voru staðlausir stafir.
Ég er hræddur um að almenningur spyrji að því fyrst og fremst hvers vegna opinberir aðilar hafi staðið fyrir þessum rannsóknum og málarekstri og hvort réttlætanlegt hafi verið að eyða bæði miklu fé og mannafla í Baugsmálið. Það má vel vera að þeir Baugsmenn sem enn sæta ákærum hafi gerst sekir um einhvað af því sem nú er á þá borið. En það er dómsstóla að skera úr um það og málið hefur ekki lengur þá skýrskotun til almannahagsmuna sem í upphafi var haldið fram. Hvort greidd hafi verið gjöld af innflutningi sláttvélar eða ekki er varla mál sem rís undir því að vera stóra Baugsmálið.
Ég er hræddur um að Kastljósið yrði fátt annað en einhvers konar sakamálaþáttur með sviðsettum málflutningi og réttarhöldum, sem færu fram áður en mál er flutt fyrir dómi, ef sömu mælikvörðum yrði beitt á önnur mál sem koma fyrir íslenska dómsstóla. Stór mál eins og olíuverðssamráðið snerta almenning og mér finnst eðlilegt að fjölmiðlar eins og Morgunblaðið eða Ríkisútvarpið taki fyrir og leitist við að skýra málið. En um það mál ríkir dauðaþögn og varðar þó milljarða króna sem hafðir voru af fyrirtækjum og almenningi en ekki 45 milljónir eins og í Kastljósþættinum.
Það væri verðugt verkefni þessara fjölmiðla að kafa ofan í það mál, hvar stendur það nú og til dæmis tregðu Ríkislögreglustjóraembættisins til þess að taka málið til rannsóknar. Eru menn búnir að gleyma öllu orðaskakinu og vífillengjunum um rannsókn Samkeppnisstofnunar? Kastljósið gæti til dæmis dregið fram eigendatengsl milli Morgunblaðsins og eins höfuðpaursins í svindlinu á almenningi.
Það mætti líka benda á að fram kom í Morgunblaðinu að sjálfur Styrmir Gunnarsson, ritstjóri stýrði fréttaflutningi af olíuverðsamráðinu og Baugsmálinu líka. Þessi sami Styrmir, sem við þriðja mann hjálpaði Sullenberger að koma klögumálum hans til Ríkislögreglustjóraembættisins. Kastljósið er ekki í góðum félagsskap þegar Morgunblaðið endurbirtir efnislega þætti þess um Baugsmálið.
Og þá er komið að því að finna svar við spurningunni: hvers vegna var þessi umfjöllun í síðustu viku? Það veit ég ekki að sjálfsögðu, en það fyrsta sem mér dettur í hug að verið sé að hjálpa Sullenberger við að koma sínu máli á framfæri á opinberum vettvangi. Opinber umfjöllum getur haft áhrif á dómstólana, það verða þeir að hafa í huga sem standa fyrir henni. Svo er það sem mér finnst blasa við, það þarf að réttlæta málareksturinn fyrir almenningi og allan kostnaðinn sem fellur á skattborgarana. Kannski er það stóra málið.
Svo eitt að lokum, óskylt mál, fjölmiðlafrumvarpið sem fyrir Alþingi liggur, takmarkar möguleika Baugs á að eiga fjölmiðil en hefur engin áhrif á Morgunblaðið.
Athugasemdir