Viðbrögðin við þeirri ákvörðun Davíðs Oddssonar að verða aðalbankastjóri Seðlabankans hafa verið með ýmsum hætti. Athygli vekur að sumir virðast líta svo á að það jafngildi ferð yfir í annan heim.
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþm. segir í blaðaviðtali að „Flokksstarfið, störf á þinginu og þjóðlífið verður mun fátæklegra þegar Davíð hverfur af þessum vettvangi“.
Seðlabankinn er eftir því sem ég veit best hluti af þjóðlífinu og því verður Davíð áfram hluti af því og ég er ekkert viss um að hann verði neitt fátækari.
Menntamálaráðherrann sagðist í útvarpsviðtali vera í tilfinningarússi, en gaf umsvifalaust kost á sér til embættis varaformanns flokksins. það er spurning hvort sú ákvörðun hafi verið tekin að yfirveguðu ráði.
En Ásta Möller hélt ró sinni og benti á kjarna málsins, sem mörgum hefur yfirsést: „Mér finnst virkilega rausnarlegt af honum (Davíð) að standa upp fyrir mér“.
Það er einmitt lóðið. Davíð er enn í fullu fjöri og tekur við einu ábyrgðarmesta starfi þjóðlífsins. Er þá ekki rétt að gleðjast fyrir hans hönd?
Athugasemdir