Greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins voru á síðasta ári 9,4% hærri en árinu áður samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum. Framtaldar launatekjur alls hækkuðu um 6,5%, þannig að hækkunin á almannatryggingargreiðslunum var nærri 50% meiri en hin almenna hækkun milli ára. Munurinn jafngildir um 794 mkr. Líklega gætir þar helst áhrifa af aldurstengdu örorkutryggingunni sem tekin var upp í kjölfar síðustu Alþingiskosninga.
Reiknað er út frá framtöldum launatekjum en ekki er tekið tillit til áætlana á þá sem ekki töldu fram í tíma né frádráttar vegna dagpeninga, ökutækjastyrkja og annars þess háttar. Upplýsingarnar eru fengnar af vef Ríkisskattstjóra.
Þá hefur hlutur greiðslna Tryggingarstofnunar af framtöldum heildarlaunagreiðslum vaxið síðustu tvö ár. Árið 2002 var hlutur Tryggingarstofnunar ríkisins 5,276% af samanlögðum framtöldum launagreiðslum þess árs, en var kominn upp í 5,708% á síðasta ári.
Aukingin er um 8,2%, sem staðfestir að hækkun almannatryggingargreiðslna hefur verið meiri en almenn hækkun framtalinna launa. Það er ekki um neina smáupphæð að ræða. Ef hlutfallið hefði verið óbreytt milli þessara tveggja ára hefðu greiðslur frá Tryggingarstofnun verið 2.306 milljónum króna lægri en þær urðu, 28.155 mkr. í stað 30.461 mkr.
Þar sem rúmlega 46.600 einstaklingar fengu greiðslur frá Tryggingarstofnun á síðasta ári þýðir þetta að hver einstaklingur hafi að meðaltali fengið um 49 þús. kr. á síðasta ári í greiðslu umfram almenna hækkun launatekna.
Ekki er því haldið fram hér að greiðslur almannatrygginga séu ofrausn, né að ekki þurfi að huga að hækkun þeirra, heldur aðeins verið að benda á að greiðslurnar hafa verið að hækka umfram það sem almennt hefur verið, með öðrum orðum, kjör þeirra sem greiðslurnar fá hafa verið að batna umfram meðaltalið. Það má ekki gleymast.
Athugasemdir