Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur gefið handhöfum kvótans hverju sinni mikið vald. Það hafa þeir notað til þess að hámarka verðmæti kvótans og þar með eigin gróða. Kvótakerfið hefur gefið ágirndinni, einni af höfuðsyndunum, lausan tauminn. Vanrækt hefur verið að setja nauðsynlegar hömlur á gróðasöfnun kvótahafanna á kostnað annarra. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Verð á kvóta hefur í nánu samráðu við fjármálastofnanir verið spennt svo hátt að ógerningur er fyrir nýja aðila að koma undir sig fótunum í sjávarútvegi. Það finnst enginn grundvöllur fyrir því að standa undir kaupum á kvóta með þeim tekjum sem aflinn gefur.
Nema þá með því að hafa rangt við og auka tekjurnar þannig. Það eru margar vísbendingar um sú sé raunin og að í raun sé veitt meira úr hafinu en aflatölur bera með sér. Eftirlitskerfið, með Fiskistofu í broddi fylkingar hefur gefist upp eins og Fiskistofustjóri hefur viðurkennt í blaðaviðtali. Meira er deilt um það hversu mikil launveiðin er en hitt hvort hún eigi sér stað. Verði gerð gangskör að því að halda veiðinni að leyfðum afla mun það hafa þær afleiðingar að verð á kvóta mun lækka. Það gengur gegn hagsmunum handhafa kvótans og gegn hagsmunum viðskiptabankanna. Eftirlitsstofnanirnar vita hvað til þeirra friðar heyrir og velja að spila með.
Til þess að kerfið gangi verður að setja bönd á umframveiði svigrúmið. Það knýr útgerðir sem þurfa að greiða fullt verð fyrir kvótann til þess að ráðast að kostnaðarliðum og lækka þá til þess að mæta hækkandi hlut kvótans af aflatekjum. Á undanförnum 20 árum hafa mikil verðmæti verið flutt frá launalið til fjármagns, frá sjómönnum til kvótahafans og bankanna. Þessi þróun er óvenjugagnsæ í smábátakerfinu. Frá 2007 hefur hlutur sjómanna minnkað um 40%. Þessir peningar eru komnir í hærra kvótaverð. Það þarf einhver að borga kvótann og þegar hækkandi afurðaverð dugar ekki fyrir verðhækkuninni er hún sótt í vasa launamanna.
Í blaðinu eru tvö dæmi um afleiðingarnar af því að engin bönd hafa verið sett við gróðafíkninni. Ungur maður ætlar að hefja útgerð og hyggst koma undir sig fótunum með mikilli vinnu, útsjónarsemi og dugnaði rétt eins og margar kynslóðir ungra manna á undan honum. En kvótahafarnir taka allt til sín. Hann sér enga leið nema að gerast leiguliði þeirra sem svo mergsjúga útgerð leiguliðans inn að beini.
Hitt dæmið lýsir því hvernig útgerðarmenn hafa af mikilli hörku látið sjómenn greiða hækkandi kvótaverð með lækkun launa þeirra. Fyrst voru sjómenn þvingaðir til þess að brjóta lög og greiða kvótaleigu af tekjum sínum. Þetta er ekki hægt að kalla annað en þjófnað. Síðan var þessi þjófnaður færður inn í kjarasamninga með lægri skiptahlut. Málaferlin fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um skiptahlut sem sagt er frá í blaðinu æpa á skýringar. Þeirra er ekki langt að leita. Fyrir kjarasamningana 2012 voru sjómenn þvingaðir með valdi til þess að greiða fyrir kvótann án þess að fá nokkurt tilkall til hans í staðinn. Þá var það lögbrot. En val sjómannanna var ekkert. Annaðhvort að gera það sem krafist var eða að missa vinnuna.
Sjómaðurinn sem höfðaði málið er að krefjast þess að fá launin sín óskert. Hann er að öllum líkindum að gera kröfu um að kvótaleigunni sem hann var látinn borga verði skilað. Það er meginregla í þjóðfélaginu að þýfinu sé skilað og mönnum refsað sem stela.
Græðgin á sér engin takmörk. Þess vegna verður að reisa skorður við henni. Þjóðfélög sem hafa umborið mönnum þessa sjálfsásköpuðu frávikshegðun hafa öll lent í alvarlegri innri kreppu með hörmulegum afleiðingum. Íslendingar hafa fengið sin skerf með efnahagshruninu þar sem ráðandi menn í fjármálaheiminum og í sjávarútveginu fóru út af sporinu. Leiðin til baka er með því að skilja að það verður að skorða gróðafíknina af og viðhalda jafnræði milli þjóðfélagshópa.
Leiðari í blaðinu Vestfirðir fimmtudaginn 26.2. 2015
Athugasemdir