Þeir borga of lítið, Sigurður

Pistlar
Share

Fyrirhuguð lækkun veiðigjaldsins á útgerðarfyrirtæki mælist frámunalega illa fyrir meðal almennings eins og undirskrifasöfnunin sýnir. Fyrir því er einföld ástæða, sjávarútvegsfyrirtækin greiða ekki sanngjarnan hlut af hagnaði sínum til samfélagsins. Þegar litið er til mjög góðrar afkomu undanfarin ár væri eðlilegra að hækka gjaldtökuna en að lækka hana. Handhafar kvótans borga of lítið fyrir aðganginn að arðvænlegri auðlind. Þeir hafa komist upp með það að koma sér undan því að taka þátt í erfiðleikum þjóðfélagsins eftir hrun. Þeir hafa frá þeim tíma grætt sem aldrei fyrr og greitt smánarlega lítið af gróðanum til hins opinbera.

Hreinn hagnaður árins 2009 varð 46 milljarðar króna. Þá var greiddur 1 milljarður í veiðigjald og 1.5 í tekjuskatt af hagnaðnum. Árið 2010 varð hreinn hagnaður 44 milljarðar króna og veiðigjaldið og tekjuskatturinn samtals aðeins 5 milljarðar kr. Í hitteðfyrra varð metár. Þá varð hreinn hagnaður 60 milljarðar króna skv. gögnum Hagstofunnar. Greiðslur í formi veiðigjalds og tekjuskatts af hagnaði urðu samtals aðeins 9 milljarðar króna. Síðasta ár 2012 mun hafa orðið enn betra en 2011 en lokatölur liggja ekki fyrir.

Almenningur hefur fengið yfir sig mikla kjaraskerðingu og skattahækkun og spyr í forundran hvað þessir örlætisgerningar eiga að þýða. Hvers vegna er þessi atvinnugrein meðhöndluð eins og örsnauðir hreppsómagar? Auðvitað er fólki nóg boðið þegar fyrsta raunverulega aðgerð ríkisstjórnarinnar er að lækka gjöldin á þá sem hafa grætt á tá og fingri og lítið hafa lagt af mörkum á erfiðum tímum.

Það er óþarflega yfirlætislegur tónn í tilsvörum sjávarútvegsráðherra þegar hann gerir lítið úr viðbrögðunum við lækkun veiðigjaldsins. Það er hrokagikksháttur að halda því fram að valið sé aðeins milli þess að lækka gjaldið og að fella það niður. Ef ekki fást nauðsynleg gögn í óbreyttum lögum til þess að reikna út gjaldið er einfalt að bæta úr því og afla þeirra heimilda. Það þarf ekki að lækka gjaldið. Ef þarf að breyta niðurjöfnun gjaldsins á einstök fyrirtæki er einfalt að gera það. Það þarf ekki að lækka heildargjaldið. Þau rök, sem ráðherrann færir fyrir lagabreytingunni, styðja ekki lækkun gjaldsins í heild sinni. Honum væri nær að rökstyðja lækkunina fremur en að snupra tugi þúsunda landsmanna fyrir að andmæla honum.

Það liggja fyrir opinberar upplýsingar sem staðfesta að aðgangurinn að fiskimiðunum gengur kaupum og sölum fyrir mklu hærri upphæðir en ríkið hyggst innheimta. Fiskistofa fylgist með og birtir upplýsingar um verð á leigukvóta, aflamarki. Um þessar mundir er greitt um 180 kr fyrir réttinn til þess að veiða 1 kg af þorski. Veiðigjaldið á þessu fiskveiðiári er 32.70 kr fyrir bolfisk og 37.00 kr af uppsjávarfiski. Þetta þýðir að rétthafi kvóta, t.d. í þorski, fær hann frá ríkinu fyrir tæplega 33 kr og getur leigt réttinn áfram fyrir 180 kr. Sá sem tekur kvótann á leigu og veiðir fiskinn fær engu að síður tekjur, sem standa undir útgjöldum og leiguverðinu, sbr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans. Það blasir við að hagkvæmast fyrir þjóðarbúið er að þeir sem ekki geta staðið undir 32.70 kr leigugjaldi hverfi frá útgerð og hinir sem greiða 180 kr veiði stærri hlut kvótans. Er það ekki einmitt sem kvótakerfinu er ætlað að gera?

Lækkun veiðigjaldsins til ríkisins hefur í för með sér að þá eykst að sama skapi hlutur þess sem hefur veiðiréttinn undir höndum, enda lækkar ekki leiguverðið fyrir kvótann á áframleigunni til þriðja aðila. Á milli veiðigjaldsins til ríkisins og veiðigjaldsins til útgerðarmannsins er beint samband. Eins og staðan er núna fær ríkið um 20% af leiguverðinu til sín fyrir þorskkvóta en útgerðarmaðurinn sem er handhafi kvótans fær 80%. Sjávarútvegsráðherra vill lækka hlut ríkisins en auka hlut útgerðarinnar. Þetta er ósanngjörn skipting og er ástæða mótmælanna.

Öll rök hníga til þess að ríkið auki hlut sinn veiðigjaldinu fremur en að minnka hann. Útgerðarmenn sjálfir hafa verðlagt aðganginn að fiskimiðunum og innheimta margfalt hærra verð en ríkið gerir. Þetta fyrirkomulag gengur ekki þar sem útgerðarmenn eiga ekki fiskimiðin. Það á ekki að borga þeim fyrir að fá að veiða, heldur eiga þeir að borga almenningi. Hið opinbera á að fá leigutekjurnar til þess að standa undir almennum þörfum, svo sem heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum, uppbyggingu á innviðum samfélagsins o.s.frv.

Það er of lítið greitt til samfélagsins fyrir veiðiréttinn, Sigurður, samkvæmt verðskránni sem gefin er út á skrifstofu LÍÚ.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir