Í síðasta pistli var dregið fram að fasteignamat á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum fyrir 2012 væri aðeins um 1/3 af fasteignamati í Reykjavík. Það er einnig sama hlutfall af byggingarkostnaði þar sem fasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir er nokkurn veginn jafn byggingarkostnaði eftir að hafa verið umtalsvert hærra á árunum fyrir bankahrun. Athyglisvert er að árið 1990 var matið tvöfalt hærra á Vestfjörðum en nú er eða um 2/3 hlutar af fasteignamatinu í Reykjavík. Á fáum árum, frá 1998 til 2004, hrundið fasteignaverðið um helming. Athuga ber að þetta er meðaltalið fyrir Vestfirði, verðhrunið varð örugglega minna á Ísafirði en meira annars staðar í fjórðungnum. En þetta verðhrun er verulega miklu meira en lækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu eftir bankahrunið.
Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu Iðnaðarráðuneytisins frá nóvember 2005 sem fjallar um mismunandi þróun fasteignaverðs eftir kjördæmum landsins frá 1990 til 2004 og ber heitið Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Á tímabilinu varð raunhækkun á íbúðarhúsnæði víðast hvar á landinu, allt frá 24% á Austurlandi upp í 63% á Vesturlandi. Tvö svæði skáru sig úr í þessari þróun. Á vesturhluta Norðurlands varð raunhækkun íbúðarhúsnæðisins aðeins 1% á tímabilinu. Hitt svæðið eru Vestfirðir. Þar varð þróunin hroðaleg, raunverðið lækkaði um 28%.
Frá 1990 var nokkurt jafnvægi en árið 1998 verða vatnaskil og verðið hríðféll fram til 2004 á vestanverðu Norðurlandi og á Vestfjörðum. Eftir það hefur verðþróunin verið svipuð um landið og er fasteignaverðið 2011 í öllum landshlutum svipað hlutfall af verðinu á höfuðborgarsvæðinu og það var árið 2004. En verðhrunið sem varð hefur ekki unnist til baka. Þriðja svæðið sem varð fyrir verðlækkun 1998 var Austurland, en svo virðist að virkjunar- og álversframkvæmdirnar hafi stöðvar verðlækkunina og árið 2004 hafði verðið hækkað umtalsvert aftur. Segja má að stóriðjan hafi bjargað Austfirðingum frá örlögum Vestfirðinga og Norðurlands vestra.
Í skýrslunni eru reifaðar hugsanlegar ástæður þróunarinnar og er það fróðleg lesning sem hollt væri fyrir flesta, sérstaklega stjórnvöld að rifja upp. En niðurstaðan er sú að íbúar á tveimur svæðum landsins fóru á mis við eignaaukningu sem varð annars staðar á landinu. Þar skipta nokkrar ástæður miklu, en hæst bera auðvitað breytingar og samdráttur í sjávarútvegi og landbúnaði. Vestfirðingar muna það að einmitt á þessum árum fóru óprúttnir aðilar burt með stóran hluta kvóta Vestfirðinga. Þar voru að verki Samherji, Brim og Þorbjörninn sem fóru með kvóta frá Ísafirði og Bolungavík. Norðlendingar muna líka hvernig sjávarútvegurinn skrapp saman og safnaðist á fáar hendur.
Staðreyndin um þróun fasteignaverðsins er sönnun þess að almenningur borgaði fyrir þessar ákvarðanir. Hagræðing í sjávarútvegi er ekki bara ávinningur heldur líka kostnaður. Það er eðlileg og sanngjörn krafa að kostnaðurinn verði bættur og greiddur með ávinningnum.
Hlutskipti Vestfirðinga er því miður allra verst. Ekki aðeins urðu þeir af eignaaukningu af hækkun fasteignaverðs , sem aðrir landsmenn hafa notið, heldur beinlínis lækkaði íbúðarhúsnæðið að raungildi um hvorki meira né minna en 28%. Skuldir vegna íbúðarhúsnæðis voru allar verðtryggðar á þessum árum og því rýrnaði skuldlaus eignarhlutur fjölskyldnanna. Samkvæmt gögnum frá embætti Ríkisskattstjóra námu skuldir á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum í árslok 2004 5.582 mkr. Það hefði þurft að lækka þær um 28% til þess að þróun skuldanna hefði haldist í hendur við þróun fasteignaverðsins. Ef þess hefði verið gætt hefðu þær verið um 1.5 milljarði króna lægri. Það jafngildir um 2.5 milljarði króna á verðlagi í dag. Það lætur nærri að vera um 2 milljónir króna hjá hverri af þeim 1400 fjölskyldum sem árið 2004 töldu fram skuldir vegna íbúðakaupa í fjórðungnum.
Stjórnvöld geta ekki vikið sér undan ábyrgð á þessari eignaupptöku. Hún er bein afleiðing þess sem til var ætlast með kvótakerfinu og niðurskurði á veiðiheimildum. Það var að þessu stefnt og það gekk eftir. Fjölskyldurnar til sjávar og sveita víða um landið sem hafa borið kostnaðinn af stefnu stjórnvalda eiga réttmæta kröfu á bætur og úrbætur. Nú þegar farið er að innheimta gjald sem munar um fyrir nýtingu fiskimiðanna er komið að skuldadögunum. Nú viljum við fá okkar tap bætt.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir