Kviksyndi lýðskrumsins tefur fyrir endurreisn

Pistlar
Share

Þegar atvik verða öðru vísi eftir lánsviðskipti en ætlað var bera aðilar málsins, lánveitandinn og lántakandinn, ábyrgð, aðrir ekki. Eftir hrun bankakerfisins haustið 2008 hefur það sjónarmið fengið byr, að það sé ósanngjarnt. Er þá talið eðlilegt og sanngjarnt að óviðkomandi aðilar greiði kostnaðinn, að hluta til að minnsta kosti, enda þótt þeir hafi hvorki komið að viðskiptunum né notið þeirra lífsgæða sem fengust fyrir lánsféð.

Það er rökstutt á þann veg að forsendur hafi brostið við hrunið, þar sem tekjur minnkuðu, eignir lækkuðu í verði og skuldir hækkuðu. Því hefur hins vegar ekki verið svarað, hvers vegna óvæntar aðstæður eru svo ósanngjarnar að sanngjarnt sé að óviðkomandi einstaklingar, að valdboði ríkisins, greiði stóran hluta af reikningnum. Ef ósanngjarnt er að sá greiði sem keypti hús eða önnur lífsgæði og hefur notið þeirra, hvers vegna er sanngjarnt annar greiði, sem ekkert hefur fengið af þeim gæðum?

Þeim fjölgar sem taka undir þessa firringu og hætta sér úti í það kviksyndi sem óhjákvæmilega leiðir af því að skilja í sundur áhættu og ábyrgð, svo og ávinning og kostnað. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson og Kristján Þór Júlíusson, hafa gert grein fyrir þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin og Alþingi eigi að færa umtalsverðan hluta af skuldum sumra heimila við bankakerfið til annarra heimila og skattgreiðenda. Illugi vill að ríkisstjórnin lækki skuldir valinna heimila umfram útreiknað greiðsluþol. Kristján Þór gengur lengra og vill lækka lánin um 200 milljarða króna með sérstökum lögum um lækkun verðbóta.

Opinber gögn sýna að skuldavandinn varð ekki til í hruninu heldur áður í áhættusömum og óábyrgum lánveitingum. Hann er að umtalsverðu leyti bundinn við kaup á íbúðarhúsnæði á uppsprengdu verði á árunum 2004-2008 á nokkrum svæðum landsins.
Tillögur þingmannanna hlífa lánveitendunum, viðskiptabönkunum, við því að axla ábyrgð og afskrifa það sem mun fyrirsjáanlega tapast. Reikningurinn færist frá bönkunum til óskyldra heimila og skattgreiðenda. Það er gjaldið sem ríkið greiðir fyrir inngrip í gerða samninga og að breyta ákvæðum þeirra öðrum aðilanum í hag. Útlán viðskiptabankanna eru öll lögmæt og samningsbundin. Ef ríkisstjórn og Alþingi breytir ákvæðunum og skaðar bankana þá er ríkið bótaskylt og verður óhjákvæmilega dæmt til þess að greiða bönkunum fullar bætur.

Ef sama verður gert gagnvart lífeyrissjóðunum, eins og Kristján Þór beinlínis leggur til, þá mun ríkissjóður þurfa bæta þeim tapið. Skattgreiðendur fá þá reikninginn og þeir munu spyrja hvers vegna þeir eigi að greiða.Ef lífeyrissjóðirnir fallast sjálfviljugir á að lækka skuldirnar, sem þeir hugsanlega gætu, þá fá lífeyrisþegarnir reikninginn í formi lækkaðra lífeyrisgreiðslna. Það verður alltaf þannig að einhver borgar. Það eina sem er eðlilegt og skynsamlegt, er að tapið beri þeir sem áttu viðskiptin.

Það er stórhættuleg vegferð stjórnmálamanna að fara inn á þá braut að veita eftir á ríkisábyrgð á fjármálum einstaklinga og viðskiptabankanna. Slík ákvörðun verður ekki bundin við einn atburð og einn tíma, heldur mun ríkisábyrgðin verða endurtekin fljótlega og oftar en tölu verður á komið með hörmulegum afleiðingum fyrir fjárhag hins opinbera. Sérstaklega er ýtt undir hættuna þegar öll ábyrgð er dregin frá gerandanum og honum lýst sem ólánsömum skuldara á valdi algerlega óviðráðanlegra utanaðkomandi aðstæðna. Þar er margt dregið fram sem orsök annað en lánið sjálft . Kjarni hvers fjárhagsvanda er ákvörðunin sem var tekin og þeir sem tóku hana. Undan þeim sannindum verður ekki vikist.

Það er fljótgert fyrir hvern sem er að telja sjálfum sér trú um að fjárhagslegir erfiðleikar séu öðrum að kenna, aðstæður ófyrirséðar, skilmálar ósanngjarnir og að þess vegna eigi einhver annar að borga. Grískt ástand getur víðar orðið til en á Grikklandi. Afskipti hins opinbera eiga ekki breyta því að kostnað við fjárhagslegt uppgjör eiga aðilar máls að bera. Þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru með lýðskrumi sínu komnir út í kviksyndi, sem elur af sér meira ranglæti en það á að bæta. Þeir skapa fleiri vandamál en þeir leysa með því að grafa undan ábyrgð fyrir gerðum samningum og ýta undir innistæðulausa lífskjarasókn.

Báðir boða þingmennirnir skuldurum framtíðarinnar það fagnaðarerindi að þeir geti áhyggjulaust veitt sér á lánum lífskjör umfram efni og þegar að skuldadögunum kemur, þá geti þeir og bankarnir treyst því að ríkið muni koma til bjargar og skera þá niður úr snörunni og finna aðra til þess að borga.

Þetta er ekki lærdómurinn sem þjóðin á að draga af hruninu. Það er engin bót að því að þúsundir fari að haga sér eins og siðlausir og spilltir útrásarvíkingar og bankamenn, sem fóru sínu fram, breyttu skilmálum eftir á og settu sér sínar eigin reglur eftir þörfum og sendu reikninginn á saklausa borgara ef þeir mögulega gátu það. Hegðun þeirra er einmitt vandinn og sýnir siðferði sem þarf að breyta. Hrunið varð meira í höfðinu en á verðgildi peninganna. Gömlu gildin voru þau að hver maður ætti að axla ábyrgð á sjálfum sér og frekar að leggja hart að sér en varpa eigin byrðum á annarra herðar. Endurreisnin eftir hrun á að byggja á þeim grunni. Lýðskrumið tefur endurreisnina.

Athugasemdir