Lágkúruleg fréttamennska á RÚV og Stöð2

Pistlar
Share

Fjölmiðlar eru áhrifamiklir eðli málsins samkvæmt og þeir eru í lykilstöðu í allri þjóðfélagsumræðu. Þeir ráða því hvaða mál eru tekin upp og hafa nánast sjálfdæmi um efnistök, hvaða staðreyndum er komið á framfæri, hvaða sjónarmiðum, við hverja er rætt, hvenær og hvernig. Staða þeirra og áhrifamáttur einstakra fréttamanna er því meira áhyggjuefni sem aðhald og eftirlit með þeim er minna. Segja má að þeir leiki lausum hala. Í æ ríkara mæli gætir þess að fréttamaður eða dagskrármaður notar fjölmiðilinn til þess að koma á framfæri eigin afstöðu.

Dæmi um þetta eru orðin daglegt brauð og mátti heyra þau í kvöldfréttum þessa sunnudags. Á Stöð2 endurflutti fréttamaður umfjöllun af Fréttablaðinu og Bylgjunni um eitt sjónarmið til kvótakerfisins, svona til þess að ekki færi milli mála að hlustendur ætti að kyngja því að kerfið væri gott og að því mætti ekki breyta. Það var engin frétt í fréttinni, þess vegna var þetta bara áróður. Þorbjörn Þórðarson verður að gefa hlustendum stöðvarinnar skýringar á óviðunandi framgöngu sinni. Hann getur varla verið búinn að gleyma nýlegri könnun MMR sem sýni fram á áframhaldandi stöðuga og mikla andstöðu þjóðarinnar við kerfið. Um 70% vilja breyta því verulega, til dæmis með því að þeir sem fái kvóta borgi ríkinu markaðsverð fyrir hann.

Er Stöð2 kominn í stríð við hlustendur sína og eru einstakir fréttamenn í þeim verkum að heilaþvo þjóðina og breyta skoðun hennar á málinu? Átti sjónarmið þeirra sem tala fyrir breytingum ekkert erindi til þeirra sem horfðu í kvöld á fréttir Stöðvar2?

Í kvöldfréttum RÚV, hljóðvarpsins, var önnur svona áróðursgildishlaðin frétt frá Gylfa Ólafssyni. Sagt var frá því að fyrir lægi skýrsla Byggðastofnunar um árangur af 200 mkr sem varið var til vöruþróunar og atvinnusköpunar í sjávarbyggðum árið 2007 og var hluti af stórfelldum mótvægisaðgerðum vegna gífurlegs niðurskurðar á þorskveiðum. Varið var ríflega 5,5 milljörðum króna til aðgerðanna. Fréttapunkturinn var sá að „einungis 25 störf sköpuðust“ af verkefninu“ og því hefði hvert starf kostað 8 mkr. Með orðalaginu sem lesið var í yfirliti fréttanna bæði í upphafi og lok þeirra var komið á framfæri skoðun fréttamannsins ( segi ekki fréttastofunnar). Það fer ekkert á milli mála hver hún er , óbeitin lekur af fréttinni og lýsir því þetta tiltæki hafi nú verið enn eitt landsbyggðar eitthvað þar sem peningunum er kastað út um gluggann í landsbyggðarvarginn.

Það er ótrúleg lágkúra að gera frétt um litlar 200 mkr að aðalfrétt í milljarða króna aðgerðum. Alvörufréttamaður hefði tekið út verkefnið í heild og greint frá árangrinum eða fyrirliggjandi mati á þeim. Þær snerust um samgöngubætur, lengingu Akureyrarflugvallar, afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, fé til fræðslumiðstöðva og ferðaþjónustu, sköpun kvennastarfa svo fátt eitt sé nefnt. Það hefði mátt gera frétt um aðalatriði málsins og upplýsa hlutsendur um hvernig til hefði tekist.

Fréttamaðurinn hefði getað rifjað upp að þorskveiðin var skorin niður um 60.000 tonn það ár. Það eru um 24 milljarðar króna sem hurfu í einu vetfangi. Það misstu margir vinnuna eða lækkuðu í tekjum. Mótvægisaðgerðirnar voru aðeins brot af högginu sem þjóðfélagið varð fyrir en sérstaklega sjávarbyggðirnar. Á höfuðborgarsvæðinu var 2007 fylleríið í fullum gangi og sjávarútvegur skipti sko engu máli í nýja þekkingarhagkerfinu sem þar hafði orðið til. Það mátti alveg segja frá þessu. En það var ekki gert, heldur gróf fréttamaðurinn sig ofan í 1/30 hluta verkefnisins og kom andúð sinni rækilega á framfæri við það. Þetta er ekki fréttamennska og það vita yfirmenn RÚV mætavel.

Lágkúran var ekki hvað síst vegna þess að fréttamaðurinn bjó sjálfur til forsendurnar sem notaðar voru til þess að hneykslast. Samkvæmt því sem fram kom í fréttinni var það niðurstaða Byggðastofnunar að 75 varanleg störf hefði orðið til. Fréttamaðurinn sjálfur tók sig til að álykta sem svo að 50 störf hefðu orðið til hvort sem styrkur hefði verði veittur eða ekki og komst þess vegna að niðurstöðunni um 25 störf. Það er ekki niðurstaða Byggðastofnunar heldur var það fréttamaðurinn sjálfur sem bjó þetta til. Hann gat ekki glaðst yfir því sem hafði tekist heldur varð að gera lítið úr framtakinu.

Það má, úr því fréttastofa RÚV lítilsvirðir fólkið í sjávarþorpunum með þessum hætti, mæta henni á sama vettvangi. Samkvæmt síðasta ársreikning RÚV sköpuðu 5000 milljóna króna tekjur stofnunar aðeins 293 ársverk. Hvert þeirra kostar 17 milljónir króna eða ríflega tvöfalt meira en RÚV hneykslast á.

Það má líka minna á að yfirstjórn RÚV lagði niður svæðisútvarp Vestfjarða og þau 2 -3 störf sem þar voru. Það var framlag Vestfirðinga til þess að draga úr útgjöldum ríkisútvarpsins. En skattgreiðendur fjórðungsins greiða líklega um 100 milljónir króna í útvarpsgjald á þessu ári. Þeir fá ekkert fyrir þann skatt. Vestfirðingar eru eingöngu að borga fyrir störf við Efstaleitið.

Væri ekki nær að RÚV skilaði Vestfirðingum útvarpinu sínu og starfsmönnum í stað þess að hafa þá og aðra íbúa sjávarbyggðanna að háði og spotti ?

Athugasemdir