Það þarf víst að breyta kvótakerfinu!

Pistlar
Share

Undanfarna tvo daga hefur dunið á landsmönnum síbylja úr öllum fjölmiðlum þar sem hamast er gegn áformuðum breytingum á kvótakerfinu. Tilefnið er skýrsla svonefndar sérfræðinganefndar um hagræn áhrif af tillögum ríkisstjórnarinnar. Leiddur er fram hver kvótastaurinn á fætur öðrum til þess að vitna um „atlöguna að sjávarútveginum“ sem felst í því að breyta framsali og veðsetningu aflaheimilda og að takmarka afnotatímann. Sérfræðingarnir segja að öll þessi atriði minnki hagnaðinn í greininni.

Talsmenn LÍÚ, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru nánast froðufellandi af bræði og fá ótakmarkaðan móralskan stuðning frá eigendum Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og að ógleymdum Birni Val Gíslasyni. Enginn þessara aðila vill neinu breyta. Þeir vilja að tiltölulegar fáir auðmenn og viðskiptabankarnir raki saman til sín milljarðatugi króna á hverju ári. Þeir vilja að áfram fái fáir hagnaðinn en þeir sem bera skaðann af kerfinu beri hann bótalaust. Þeir vilja áfram að almenningur borgi tugi milljarða króna á hverju ári í hærri tekjuskatt fremur en „hinir útvöldu“ missi tekjulindina sína. Þeir vilja áfram að dýr og óhagkvæm útgerð sé vernduð fyrir samkeppni ódýrari og afkastameiri báta. Þeir vilja áfram langsiglingar þvers og krus um landið í stað veiða næst miðunum.

Sérfræðingarnir, hagsmunaaðilarnir og pólitískir skósveinar þeirra vilja ekki sjá sóunina í núverandi kvótakerfi. Þeir vilja ekki sjá mismuninn innan atvinngreinarinnar þar sem sumar útgerðir láta aðrar borgar sér fyrir að veiða fiskinn og þar sem sumar fiskvinnslur eru niðurgreiddar af útgerð á kostnað sjómanna og allt á kostnað eðlilegrar samkeppni. Þeir vilja ekki reikna út kostnaðinn sem fellur á greinina vegna þess að miðin eru ekki nýtt á hagkvæmasta hátt. Þeir vilja ekki brjóta upp sjálft úthlutunarkerfið og þegja sem fastast um þörfina á heilbrigðu kerfi sem væri grundvallað á markaðsforsendum, rétt eins og Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir.

Þeir vilja áfram að Samherji, Brim, HBGrandi og Þorbjörninn geti leigt frá sér kvótann, þúsundir tonna á hverju ári, fyrir 320 kr hvert kg af þorski og skilað ríkið einungis 6,44 kr. Mismunurinn rennur í kvótavasann, án sérstakrar skattlagningar og er ekki virðisaukaskattskyldur. Þeir vilja áfram gefa tekjustofn ríkisins.

Björn Valur Gíslason vill að skipt verði um hugarfar og hætta að dreifa aflaheimildunum um landið til þess að viðhalda byggð í landinu. Hann vill að Vestfjarðamið verði af hagkvæmnisástæðum helst nýtt með frystitogurum frá Ólafsfirði og Akureyri. Hann tekur undir gleði Akureyringa yfir því að Samherji keypti kvóta og flutti norður og segir það tvímælalaust styrkja byggðina. Vestmanneyingar, Grindvíkingar og Austfirðingar álykta gegn breytingunum og segja þær færa kvóta frá byggðunum og þá tapist störf og fólk. En þegar sögunni víkur vestur segir Björn Valur, LÍÚ, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og útvegsmannafélögin að kvótakerfinu sé ekki um að kenna að fólkinu fækkar og byggðinni hningnar. Þá hefur framsal kvótans burt engin áhrif.

Þeir þegja allir um reynsluna af núgildandi reglum um framsal, veðsetningu og ótakmörkuðum nýtingartíma. Henni er best lýst í annarri skýrslu, sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði í maí 2010. Sjávarútvegurinn varð yfirskuldsettur á aðeins 12 árum vegna þess að hægt var að framselja og veðsetja heimildirnar óralangt fram í tímann. Framfarir í útgerð urðu óverulegar. Skuldirnar falla á atvinnugreinina og þjóðina sem skattgreiðendur en tiltölulega fáir menn hirtu þessa 400 milljarða króna sem streymdu út úr greininni á umræddum 12 árum.

Víst þarf að breyta kerfinu. Víst þarf að breyta einmitt þessum atriðum, framsalinu, veðsetningunni og afnotatímanum. Fjölmiðlarnir eiga ekki að láta nota sig til þess að berja niður alla viðleitni til þess að lagfæra mesta ranglæti Íslandssögunnar. Þeir eiga með umfjöllun sinni að knýja fram betri tillögur en þær sem reynast gallaðar og varast að taka þátt í því að kæfa hið síðbúna réttlætisvor.

Athugasemdir