Fylgið við Besta flokkinn í Reykjavík undanfarnar vikur hefur verið ævintýralegt og án nokkurra fordæma. Borgarbúar lýsa vanþóknun sinni á stjórnmálaflokkunum og frambjóðendum þeirra með því að lýsa yfir stuðningi við framboð sem hefur þá að háði og spotti. En alvara kjósenda er mikil á bak við þessa bylgju. Þeim er verulega misboðið og ætla sér að sýna það í verki. Í augum kjósendanna eru frambjóðendur Besta flokksins ekki síðri en flokkaframbjóðendurnir nema síður sé. Þeir koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og eru að auki lausir við flokkana. Hafa engar skyldur við þá, flokksforystuna, bakhjarlana og aðra sem hafa keypt sér áhrif með fjárframlögum til flokkanna og einstakra frambjóðenda.
Komi til alvörunnar í borgarstjórn munu frambjóðendur Besta flokksins ganga til verka af bestu getu og vafalaust standa sig bærilega. Stjórnmál eru ekki einkamál flokkanna og þekking og geta til þess að vinna verk kjörinna fulltrúa fyrirfinnst utan flokkakerfisins. Það verður enginn héraðsbrestur þótt fulltrúar kerfisins stjórni ekki. En einmitt tilvist flokkakerfisins byggist á hinu gagnstæða, að engir aðrir séu á stjórnmálavellinum.
Þess vegna er kosningafyrirkomulagið samansúrrað utan um flokkana. Öll merki persónukjörs hafa verið jafnt og þétt afmáð á undanförnum áratugum. Svikin voru nýleg loforð um löggjöf um persónukjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn. Möguleikar kjósenda á því að velja einstaklinga dregur úr valdi flokkanna. Þegar til kastanna kom vörðu þeir eigin vígi, allir sem einn.
Viðbrögð oddvita vinstri grænna við miklu fylgi Besta flokksins voru lýsandi fyrir afstæðu kerfislægra stjórnmálamanna. Frambjóðandinn var alveg ofan dottinn og stundi í geðshræringu að við yrðum að hugsa um framtíð barnanna okkar. Eru það bara fulltrúar flokkakerfisins sem geta tekið ákvarðanir í þága barnanna okkar? Svona talar blindur maður, sem sér ekki að kjósendur eru að benda honum á að einmitt flokkakerfið er fársjúkt. Kjósendum er orðið það ljóst að forystumennirnir innan kerfisins eru ófærir um að lækna hinn sjúka. Þeir eru sjálfir hinir sjúku.
Það er miklu frekar ástæða til þess að óttast um framtíð barnanna okkar ef flokkakerfið heldur áfram að stjórna bæði landi og borg án þess að innan þess fari fram róttæk hugafarsleg breyting og heiðarlegt uppgjör við störf og verk stjórnmálamanna kerfisins á undanförnum árum. Enginn flokkanna hefur gert hreint fyrir sínum dyrum á afglöpum undanfarinna ára. REI – málið og bankahrunið eru afleiðingar fársjúks flokkakerfis. Allir flokkarnir líða og umbera kosna fulltrúa sem sóttu og þáðu milljónir á milljónir ofan í fjárstyrk í krafti stöðu sinnar. Enginn þeirra virðist hafa talið fjárhæðirnar fram né greitt af þeim skatta og skyldur.
Flokkarnir færast undan því að gefa upp styrktaraðila sína og umbera líka hroka þeirra sem upplýsa ekki til fullnustu fjármál sín. Hvernig getur stjórnmálakerfi verið heilbrigt þegar frammámenn innan þess telja það svo sjálfsagt að ekki þurfi að ræða, að þeir séu hafnir yfir lög og reglur og séu með einkahlutafélögum um prófkjörskostnað undanþegnir sköttum og skyldum eins og líknarfélög eða konungar og aðalsmenn fyrri alda.
Íslensk þjóð hefur ekki efni á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái skell í þessum kosningunum sagði einn alþingismaður flokksins. Rannsóknarskýrslan er að þvælast eitthvað fyrir tímabundið sagði annar. Er eitthvað að því að Besti flokkurinn komist til valda?
Athugasemdir