Framundan eru vandasamir tímar í ríkisfjármálunum. Á þessu ári verðu rmikill halli á fjárlögunum vegna þess að tekjur ríkissjóðs dragast saman stórlega. Það er afleiðing þess að fyrirtækjum og störfum hefur fækkað. Á næstu þremur árum þarf að ná jafnvægi milli tekna og útgjalda hins opinbera. Það verður best gert með því að atvinnulífið eflist á nýjan leik og þannig verði til nýjar tekjur sem renni í ríkissjóð, en hins vegar er fyrirsjáanlegt að bæði þarf að hækka skatta og að beita niðurskurði á útgjöldum. Ekkert af þessu verður létt verk.
Mikilvægt er að gæta þess að jafna byrðunum á almenning eftir efnum og ástæðum í meira mæli en verið hefur á undanförnum árum. Í góðærinu var tilhneiging til þess að létta sköttum af háum tekjum og eignarskattur afnuminn fyrir 5 árum. Þá eru fjármagnstekjur meðhöndlaðar á annan hátt en launatekjur og af þeim greiddur mum lægri skattur.
Við þessar aðstæður er eðlilegt að líta til þessarar þróun við hækkun skatta. Ég hef lagt fram á Alþingi tvö lagafrumvörp sem eiga að afla ríki og sveitarfélögum tekna. Annars vegar er frumvarp um eignarskatt. Þar er lagt til að eignarskattur verði tekinn upp með svipuðu sniði og hann var þegar skatturinn var lagður niður. Eignarkatturinn verður skv. frv. 0,6% af eignum umfram skuldir yfir 15 milljónum króna hjá einstaklingi og 30 mkr. hjá hjónum og sambýlisfólki. Miðað við skattframtöl síðasta árs má áætla að skatturinn hefði þá gefið um það bil 2,5 milljarða króna í ríkissjóð.
Í hinu frumvarpinu er lagt til að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 15%. Engu að síður yrðu skatturinn áfram fremur lágur miðað við önnur lönd innan OECD. Lagt er einnig til að þriðjungur af skattinum á arð af hlutum og hlutabréfum í einkahlutafélögum renni til sveitarfélaga. Það er til þess að mæta tapi þeirra við þá þróun að atvinnurekstur færðist í miklum mæli í einkahlutafélög fyrir nokkrum árum og það leiddi til þess að sveitarfélögum töpuðu miklum útsvarstekjum.
Erfitt er að áætla hversu miklar tekjur hækkunin mun skila vegna óvissu um þróun efnahagsmála, en miðað við framtöl síðasta árs hefðu sveitarfélögin fengið um 4,7 milljarða króna í auknar tekjur og ríkið um 7,5 milljarða króna. Líklega mun þessi fjárhæð verða mun lægri á þessu ári. Við þessa hækkun fjármagnstekjuskattsins mun minnka munur á skattlagningu launatekna og fjármagnstekna. þessi munur er um 14% í gildandi lögum sem skattur af fjármagni er lægri en af launum.
Með þessum frumvörpum er leitast við að afla aukinna tekna og gera það eftir efnum og ástæðum skattgreiðendanna. Þeir sem eiga miklar eignir eða hafa miklar tekjur af fjármagni eiga að leggja sitt af mörkum á erfiðum tímum.
Athugasemdir