Ríkisstjórnin er lögð af stað í erfiðar aðgerðir sem eru óhjákvæmilegar. Bankakreppan hefur dregið svo saman tekjur ríkissjóðs að hallinn á þessu ári verður gífurlegur, þrátt fyrir nokkurn niðurskurð á framlögum til einstakra málaflokka á þessu ári. Hvergi er viðkvæmara og jafnvel eldfimara að bera niður í ríkisbúskapnum en einmitt í heilbrigðismálunum. Á þessu ári voru fjárlögin afgreidd með 6.700 milljóna króna hagræðingarkröfu, samkvæmt því sem fram kemur hjá heilbrigðisráðherra. Það er umtalsvert á alla mælikvarða, líka þannsem er hlutur af heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið sem losar 100 milljarða kr.
Ríkisstjórn starfar þannig að ráðherrar koma sér saman um tillögur og útfærslur og þar gildir sú samstarfsregla í öllum meiriháttar málum að allir eru fyrir einn og einn fyrir alla. Með öðrum orðum stendur ráðherra að niðurstöðunni eða víkur ella. Segja má að þessi regla gildi ekki bara um meiriháttar mál heldur um allar ákvarðanir og öll mál sem einstakir ráðherar leggja fram í nafni ríkisstjórnarinnar. Greiði ráðherra atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi jafngildir það afsögn hans eða að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnar og ríkisstjórnin fellur.
Heilbrigðisráðherrann útfærði niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu og er búinn að kynna hann opinberlega. Þar með er hann kominn út á völlinn og er berskjaldaður fyrir harðri gagnrýni úr öllum áttum. Í þessum orðum mínum felst engin skoðun af minni hálfu á útfærslu niðurskurðarins. Þær bíða betri tíma og best að afla sér fullnægjandi upplýsinga áður en lagt er mat á þær, enda er skoðun mín aukaatriði þessa pistils.
Þegar síst skyldi og heilbrigðisráðherrann er veikastur fyrir bregst samstaðan milli ráðherranna í málinu. Á sunnudaginn gagnrýmdi Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, heilbirgðisráðherrann fyrir skort á samráði við bæjarstjórn Hafnarfjarðar vegna St. Jósefsspítalans þar í bæ og sagði honum beinlínis að hlusta á gagnrýni heimamanna og taka tillit til hennar. Klykkti svo út með því að Guðlaugur Þór hefði gert mistök við undirbúning málsins.
Í dag var félags- og tryggingarmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, í símaviðtali á Bylgjunni og lét sig hafa það að segja að hún hefði útfært niðurskurðinn öðruvísi en heilbrigðisráðherrann ef hún hefði mátt ráða. Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra gerir ítarlega grein fyrir málinu í grein á vef Sjálfstæðisflokksins. Þar kemur fram að það hafi verið kynnt í ríkisstjórn strax að lokinni afgreiðslu fjárlaga „ en nauðsynlegt var að málið fengi þar umfjöllun áður en víðtækari upplýsingargjöf og umræða ætti sér stað“ segir aðstoðarmaðurinn.
Þetta er fáheyrð sundrung í ríkisstjórninni sem ég hef hér lýst. Fyrst vaknar sú spurning: voru ráðherrarnir tveir, sem opinberlega fara gegn heilbrigðisráðherranum, ekki sammála útfærslunni og létu þeir þá skoðun uppi í ríkisstjórninni þegar málið var þar rætt? Ef svo var hvers vegna fer heilbrigðisráðherrann engu að síður fram með sínar tillögur að skipulagsbreytingum?
Næsta spurning er : hverjar voru athugasemdir ráðherranna tveggja og hvernig vildu þeir spara á annan hátt? Félags- og tryggingarmálaráðherrann upplýsti ekki á Bylgjunni hvernig hann vildi gera þetta öðruvísi. Menntamálaráðherrann gagnrýndi bara þær tillögur sem snúa að Hafnarfirði en lýsti ekki hvaða hugmyndir hánn hefði í staðinn. Í grein aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra er helstu aðgerðum lýst svo það eru hæg heimatökin að tilgreina þau atriði sem ágreiningur er um milli ráðherranna.
Hver sem skýringin er á þessum ágreiningi þá má vera ljóst að annað hvort er heilbrigðisráðherrann á förum úr ríkisstjórninni eða hinir ráðherrarnir tveir. Svona getur ríkisstjórn ekki starfað. Það eru augljóslega ekki heilindi lengur milli ráðherranna. Þá er sjálfhætt fyrir annan hvorn aðilann í þessum ágreiningi.
Athugasemdir